Skip to main content
AðgengiViðtal

„Þróun talgervils fyrir íslensku er á fljúgandi ferð“

By 4. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments

Ingveldur Jónsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um aðgengi

„Við berjumst fyrir bættu aðgengi fólks með fatlanir og skerðingar að umhverfinu. Hér er allt undir, jafnt byggingar og útisvæði sem upplýsingar. Af því að ég nota hjólastól, brennur mest á mér persónulega aðgengi að umhverfinu.

Í málefnahópnum er fólk með bæði sjón- og heyrnarskerðingu, þannig að aðgengi að hvers konar upplýsingum á líka talsmenn í hópnum. Þroskahjálp vinnur síðan gott starf á sviði bætts aðgengis fólks með greindarskerðingu að upplýsingum. Bætt aðgengi fyrir fólk með skerðingar er venjulega bætt aðgengi fyrir fleiri. Til dæmis er lyftan sem nauðsynleg er fyrir manneskjuna í hjólastólnum líka gagnleg fyrir manneskjuna með litla barnið á öðrum handleggnum og innkaupapokana á hinum,“ segir Ingveldur sem var sjálfkjörin formaður málefnahóps um aðgengi á aðalfundi 2017 eftir að hafa verið varaformaður í tvö ár.

Hvað hefur helst áorkast síðustu ár? „Aðgengismálin þokast almennt í rétta átt. Til dæmis hefur akstursþjónusta fatlaðra í borginni stórbatnað. Þjónustan er enn slæm eða jafnvel ekki í boði sums staðar á landsbyggðinni. Stundum flytur fólk í bæinn út af slæmri þjónustu í sínu sveitarfélagi. Bætt þjónusta við fatlaða er því byggðamál.

Almenningssamgöngur verða hægt og rólega aðgengilegri. Framtíðarsýnin er að almenningssamgöngur verði það góðar, að ekki verði þörf fyrir sérstaka akstursþjónustu fatlaðra nema í undantekningartilfellum. Nú eru örfáir óaðgengilegir vagnar eftir í borginni og strætó stefnir að því að skipta þeim síðustu út. Á þessu ári verða teknir í notkun fyrstu aðgengilegu landsbyggðastrætisvagnarnir.

Þróun talgervils fyrir íslensku er á fljúgandi ferð. Ég er sannfærð um að bráðlega verður í boði textun á öllu sjónvarpsefni, líka íslensku.“

Pottur brotinn varðandi frágang nýrra bygginga

Hverju er enn verið að berjast fyrir? „Í raun eru mál yfirleitt ekki þannig stödd, að einhverju sé alveg lokið og annað hafi ekki náðst í gegn. Yfirleitt þokast málin í rétta átt, eins og nefnd eru dæmi um í svari við síðustu spurningu. Það er yfirleitt alltaf tækifæri til að gera betur á öllum sviðum.

Enn er pottur brotinn varðandi frágang nýrra bygginga, sem því miður er ekki alltaf í fullu samræmi við byggingarreglugerð. Þarna bera ábyrgð hönnuðir, verktakar og eftirlitsaðilar. Reglugerðin sjálf er auk þess ekki hafin yfir gagnrýni, en hópurinn vinnur einmitt að því þessa dagana að þrýsta á yfirvöld um endurbætur á henni auk þess að pikka og pota í alla þá aðila sem nefndir voru hér að ofan.

Stundum er aðgengi að byggingum eyðilagt af notendum. Bjórkútar geymdir inni á salernum fyrir hreyfihamlaðra, blómapottur settur yfir leiðarlínu fyrir blinda, svo eitthvað sé nefnt. Frá upphafi hefur hópurinn barist fyrir því að eftirliti sé komið á með þessu. Þessi vinna hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var þ.e. reglulegt aðgengiseftirlit í tengslum við eldvarnaeftirlit og/eða heilbrigðiseftirlit, en við erum bjartsýn og erum ekkert að fara að gefast upp á þessu máli.“

Vegna ákvæða í samþykktum bandalagsins um hámarkssetu í stjórn, er Ingveldur ekki kjörgeng á næsta aðalfundi. „Öryrkjabandalagið þarf þess vegna að finna nýjan formann aðgengishópsins. Ég hvet öll sem brenna fyrir aðgengismálum til þess að bjóða sig fram.“

Málefnahópurinn nýtur aðstoðar verkefnisstjóra í hálfu starfi. Hópurinn er í samstarfi um úrbætur við ýmsa aðila, s.s. Isavia, Icelandair, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Félagsmálaráðuneytið, Arkitektafélagið, Ferðamálastofu og Strætó bs. „Þetta verkefni hefur verið bæði skemmtilegt og gefandi, enda sjáum við umtalsverðan árangur af okkar starfi.“

Einhver skilaboð að lokum til stjórnvalda? 

„Virðum mannréttindi allra, alltaf!“

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Mynd: Hallur Karlsson. 

ÁFRAM


Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is).