Skip to main content
AðgengiUmsögn

Aðgengi að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum

By 21. október 2022október 24th, 2022No Comments
Reykjanesfólkvangur

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um skjalið Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði – lykilþættir

ÖBÍ leggur áherslu á að fötluðu fólki sé ekki mismunað um þjónustu og aðgengi að þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum, enda skulu aðildarríki samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, „gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli“ (SRFF – 9. gr).

Merkingar þurfa að vera skýrar og upplýsandi, með góðum litaskilum, skýrri leturgerð. Varast þarf eintóma hástafi sem renna saman. Varast þarf að táknmyndir án útskýringa, svo sem örvar án texta um hvert þær vísa.

Upplýsingamiðlun þarf að vera tæmandi. Upplýst sé á heimasíðu og öðru upplýsingaefni og af starfsfólki um aðgengi og aðgengishindranir á staðnum. Fatlað fólk forðast staði þegar það þekkir ekki aðstæður og því er mikilvægt að þær séu útskýrðar í texta og myndum. Þannig geti fólk sjálft meti hvort og að hversu miklu leyti það geti farið um. Brýnt er að því sé ekki lofað sem ekki stenst.

Gjaldtaka þarf að standast lög. Handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða greiða ekki fyrir að leggja í bílastæði, skv. 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Stæðiskort eru skráð á einstaklinginn, ekki bifreiðina.

Framkvæmdir þurfa alltaf að miða að því að bæta aðstöðu og aðgengi fyrir fatlað fólk. Aðgengi að náttúru Íslands er takmörkunum háð, en áætlanir þurfa að miða að því að fatlað fólk hafi aðgang að bílastæðum, salernisaðstöðu og annarri þjónustu. Yfirborð göngustíga sé valið með tilliti til hjólastólanotenda, umferðarleiðir séu hindrunarlausar eftir megni og sérstaklega að útsýnisstöðum, o.s.frv.

Öryggisáætlanir taki mið af því að um fatlaða ferðamenn eða starfsmenn getur verið að ræða, svo sem hreyfihamlaða, sjón- og/eða heyrnarskerta.
Bent er ennfremur á útgefnar skýrslur: „Aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum“ og greinargerð samráðshóps um aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands frá 2012, sem skipaður var af umhverfisráðherra.

Að lokum og af gefnu tilefni er minnt á samráðsskyldu stjórnvalda við fatlað fólk sbr. 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF):

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Umsögn ÖBÍ, 21. október 2022. Mál nr. 188/2022.
Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði – lykilþættir.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Sjá nánar um málið á Samráðsgátt stjórnvalda