Skip to main content
AðgengiUmsögn

Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar 2022-2026

By 25. apríl 2022september 27th, 2022No Comments
Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar
Tjarnargötu 11

101 Reykjavík

Reykjavík, 25. apríl 2022

Umsögn um aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar 2022-2026

Málefnahópur ÖBÍ um aðgengismál fagnar því að Reykjavíkurborg hefur lagt fram aðgengisstefnu sem kallað hefur verið eftir lengi. Málefnahópurinn tekur heilshugar undir með þeim áherslum sem lagðar eru fram í stefnunni, en leggur til ákveðnar breytingar og viðbætur.

Aðgengi sem upplifun

Aðgengi fyrir alla byggir á hugmyndafræði algildrar hönnunar sem samkvæmt skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks merkir: „hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. „Algild hönnun“ á ekki að útiloka hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, þar sem þeirra er þörf.“

Í því felst að umgjörð efnislegs umhverfis, samgangna, upplýsinga og samskipta sé svo úr garði gerð að upplifun einstaklinga sé sú að þeir geti athafnað sig án hindrana og hnökra, hvort sem þeir líti á sig sem fatlaða eða ekki. Búa á svo um hnútana að upplifun fólks geti verið sem líkust, án sérlausna þar sem hægt er að koma því við, en með þeim hætti að komið sé til móts við þarfir allra.
Fólki á líða vel í því umhverfi sem það er í, eða kannski frekar á því ekki að líða illa í sínu umhverfi og á að finna að það þurfi ekki að forðast ákveðnar aðstæður eða finna leiðir til þess að geta tekist á við þær. En ekki síst þarf fólk að geta vitað að hverju það gengur. Óöryggi um aðstæður á áfangastað dregur úr kjarki fólks til að taka þátt í ýmsum félagslegum viðburðum.

Þá leggjum við áherslu á það, að það verði það hluti af gátlistaferli í aðgengisáætluninni að þegar af einhverjum ástæðum er ekki hægt að uppfylla allar aðgengiskröfur á viðburði, þá séu upplýsingar um það aðgengilegar þar sem aðrar upplýsingar er að finna um viðburðinn. Þá getur fötluð manneskja lagað sig að aðstæðum með því annað hvort að mæta með aðstoð eða sitja heima. Það er mun skárra að vita af aðgengishindrunum fyrir fram en að þurfa að snúa við vegna óvæntra hindranna þegar á hólminn er komið. Hið sama gildir auðvitað um aðra þá staði sem af einhverjum ástæðum uppfylla ekki allar aðgengiskröfur. Að því sögðu á borgin ekki að styrkja eða halda viðburði nema að geta tryggt að borgarbúar geti notið þeirra.

En megin áherslan hlýtur þó alltaf að vera, að hugað sé að því að aðgengi og aðstæður séu eðlilegar fyrir alla. Eru hindranir fyrir hreyfihamlað fólk á leiðinni? Misfellur, kantar, lokaðar dyr? Snjór, hálka og ruðningar? Er leiðin skýr fyrir sjónskerta? Leiðarlínur, skýr litaaðgreining, merkingar á gleri? Er hljóðvist í lagi og tónmöskvar í boði? Er hægt að hvíla sig á leiðinni? Eru bekkir eða tyllur til staðar? Eru samgöngumátar hugsaðir fyrir alla? Er upplýsingagjöf á auðlesnu máli? Eru upplýsingar skýrar og auðfundnar? Eru stafrænar upplýsingar aðgengilegar fyrir blinda og sjónskerta? Eru breytingar á þjónustu og aðgengi nægilega vel kynntar?

Aðgengisfulltrúar

Áherslur stjórnvalda eiga að vera að í hverju sveitarfélagi á landinu verði starfandi aðgengisfulltrúar sem fylgjast með áformum, framkvæmdum og meti þörf og geri tillögur að úrbótum að þjónustu og aðgengi fyrir fatlað fólk. Verkefnisstjóri er starfandi hjá ÖBÍ til að fylgja eftir þeim áætlunum og nú er svo komið að aðgengisfulltrúar eru starfandi í 45 sveitarfélögum á landinu og fer ört fjölgandi. Þá hafa úthlutunarreglur fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verið rýmkaðar svo að sveitarfélög geta sótt um framlag sem nemur 50% áætlaðs kostnaðar við að bæta aðgengi að mannvirkjum.

Í aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar er aðeins minnst á aðgengisfulltrúa á einum stað: „Til þess að fylgja eftir öllum framkvæmdum í aðgengismálum í borginni er lagt til að ráðinn verði aðgengisfulltrúi í eitt stöðugildi sem hafi það hlutverk að tryggja framgang aðgerðaáætlunarinnar“ (Glæra 11).

Það er ljóst að það nægir ekki fyrir stærsta sveitarfélag landsins og höfuðborg með skilgreinda aðgengisáætlun að ráða aðgengisfulltrúa í eitt stöðugildi. Reykjavíkurborg á að sýna þann metnað að ráða yfiraðgengisfulltrúa sem er tengiliður við stjórnkerfið, stofnanir borgarinnar og aðgengis- og samráðsnefnd, með það fyrri augum að „tryggja framgang aðgerðaráætunarinnar,“ en að jafnframt skipaða aðgengisfulltrúa í hvert hverfi borgarinnar með aðstöðu á hverfastöðum sem heyra undir yfiraðgengisfulltrúa.

Aðgengi að húsnæði

Brýnt er að Reykjavíkurborg gangi á undan með góðu fordæmi og sé því ekki með neina starfsemi í húsnæði sem er óaðgengilegt fötluðu fólki. Það felur í sér að óaðgengilegt húsnæði verði ekki keypt eða leigt af borginni nema að undangengnum framkvæmdum sem tryggja fullt aðgengi fatlaðs fólk að húsnæðinu. Í því húsnæði sem Reykjavíkurborg er þegar með starfsemi þarf að gera aðgengisúttekt og úrbætur á þeim þáttum sem þykja ekki fullnægjandi. Ef ekki er hægt að komast að samkomulagi um úrbætur við leigusala er rétt að leita að öðru húsnæði.

Eðlilegt er að setja upp tímasetta áætlun um úttektir og framkvæmdir og að farið sé eftir gátlistum. Það er þó erfitt að átta sig á ástæðu þess að eingöngu sé metnaður til að fara eftir gátlistum í 80-90% tilvika samanber markmið 1.7. Það er varla til of mikils mælst að alltaf sé farið eftir gátlistum þegar unnið er að framkvæmdum á húsnæði og útisvæðum á vegum borgarinnar. Sama á við um markmið 3.2 þar sem eingöngu er metnaður fyrir því að nota gátlista í 75-90% tilfella við skipulagningu og framkvæmd viðburða.

Aðgengi að borgarlandi

Biðstöðvar

Aðgerð 2.1 er óskilgreind þar sem markmið 2.1. hljómar svo: „Hlutfall aðgengilegra biðstöðva verði x% fyrir lok árs 2024.“ Best væri að allar biðstöðvar í borgarlandinu verði aðgengilegar fyrir lok árs 2024, en óvíst er hversu raunhæft það er enda er ástand flestra slæmt.

Þá verður að gera kröfu um það í aðgerðaráætluninni að aðgengi í Viðey verði bætt, enda er það til skammar í dag.

Bílastæði

Í áherslu 2.5 segir „Bílastæði fyrir notendur P-korta séu þekkt, sýnileg og aðgengileg.“ Með notendum P-korta er hér átt við handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra, sem eru þeir sem mega leggja í P-merkt stæði. En Bílastæðasjóður kallar kortin sín P-kort svo þetta er ekki heppilegt orðalag.

Þá viljum við vekja athygli á því, að bæði almennum og P-merktum bílastæðum hefur verið fækkað umtalsvert að undanförnu, sem gerir Reykjavík að mun óaðgengilegri borg en æskilegt er. Margir geta vissulega tamið sér bíllausan lífsstíl, en það er ekki eðlileg krafa að fara fram á slíkt við hreyfihamlað fólk sem hefur oft á tíðum engra annarra kosta völ en að fara um á einkabíl því það þarf að geta lagt sem næst inngangi. Það þarf því að stefna að því að P-merktum stæðum verði fjölgað en ekki fækkað.

Það er góð hugmynd að kortleggja P-merkt stæði í borgarlandinu og merkja inn á stafrænt götukort ja.is eða Google. Með því að merkja þessi stæði þannig inn á mynd er notendum gert auðveldara að meta staðsetningu og ástand stæðanna, en slík kortlagning er þó ekki nægileg ein og sér. Mörg P-merkt stæði eru að mestu eða jafnvel öllu leyti ónothæf vegna þess að þau uppfylla m.a. ekki kröfur um stærð, aðgengi frá þeim er ekki nægilega gott, þau eru staðsett í halla eða eru of langt frá inngangi. Slík merking ætti auk þess einnig að gera það einfaldara að geraúttekt á þessum stæðum og gera áætlanir um úrbætur þar sem þeirra er þörf.

Við þessa áherslu má ennfremur bæta því við, að mikilvægt er að gera öllum ljóst hver réttindi handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra eru og þá ekki hvað síst borgaryfirvöldum. Handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra mega leggja jafnt í öll P-merkt og almenn stæði án gjaldskyldu en eru samt krafðir um gjald í bílastæðahúsum borgarinnar. Þeir mega keyra um göngugötur en er samt oft meinað um að leggja þar. Það er brýn ástæða til þess að upplýsa almenning jafnt sem stjórnkerfi borgarinnar um þessi réttindi og sjá til þess að þau séu virt.

Vetrarþjónusta

Þegar færð gerir borgarbúum erfitt fyrir er hætt við að fatlað fólk komist ekki leiðar sinnar. Aðgerð 2.3 á að „tryggja að lágmarki árlegt samtal milli skrifstofu reksturs og umhirðu og aðgengis- og samráðsnefndar vegna forgangsröðunar vetrarþjónustu í Reykjavík.“ Samtal án aðgerða gerir ekki mikið gagn. Það verður að sjá til þess að vinnubrögð séu rétt, að stígar, götur og biðstöðvar séu vel ruddar og hálkuvarðar. Að ekki sé rutt af götu upp á gangstíga. Að P-merkt bílastæði í eigu borgarinnar séu upphituð og gönguleiðir frá þeim. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess, að ekki sé sektað fyrir það að leggja ólöglega á stað sem telst öruggur fyrir hreyfihamlaða einstaklinga þegar bílastæði hreyfihamlaðra á staðnum eru ónothæf vegna ófullnægjandi hreinsunar að vetri til.

Innleiðing

Því er ósvarað hvernig og með hvaða skrefum aðgengisstefna verði innleidd í borginni. Hvaða tilmæli fá stofnanir og svið á borð við Byggingarfulltrúa og Bílastæðasjóð um áherslur?

Samráð við fatlað fólk

Aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar er lítt nefnd í áætluninni, en henni er samt ætlað að vera samráðsvettvangur fatlaðs fólks og stjórnkerfisins. Lagt er til að hlutur nefndarinnar í aðgengisstefnunni verði skilgreindur betur. Það þarf til dæmis að gera ráð fyrir því í aðgerðaáætlun að ábyrgðaraðilar geri nefndinni reglulega grein fyrir framgangi aðgerða og fái endurgjöf frá nefndinni. Þá þarf að gera ráð fyrir að yfiraðgengisfulltrúi mæti á fundi nefndarinnar með sín mál.

Þá þarf að svara því hvernig samráði verður háttað þegar nefndin er ekki að störfum svo sem yfir hásumarið.

Stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Kynning á aðgerðum

Það nægir ekki að setja upp góða áætlun né að framfylgja henni í hvívetna ef hún er ekki vel kynnt. Það er mjög jákvætt ef aðstaða fyrir fatlað fólk í sundlaug er stórbætt en það missir marks ef fólkið veit ekki af því. Mörgu hreyfihömluðu fólki dytti ekki í hug að nota strætó því það veit ekki að sá samgöngumáti sé eða eigi að vera aðgengilegur fyrir það. Góð kynning eykur vitund og tryggir betur viðhald stefnunnar. Benda má á verkefnið Römpum upp í því samhengi, en vegna þess að það var vel kynnt þá hefur fólk sem ekki hafði áður leitt hugann að aðgengismálum fatlaðs fólks vaknað til vitundar um þau mál. Aldrei verður heldur of oft minnt á þann algilda sannleik að bætt aðgengi fyrir fatlað fólk er bætt aðgengi fyrir alla.

Fyrir hönd málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál,

Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri