Skip to main content
AðgengiUmsögn

Breyting á byggingarreglugerð

By 23. janúar 2023janúar 24th, 2023No Comments
P-merkt bílastæði

Það er afar mikilvægt að í reglugerðinni sé ákvæði um fjarlægð frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi bygginga, enda felur hreyfihömlun í sér að einstaklingurinn hafi afar takmarkaða eða enga göngugetu og sé háður hindrunarlausri umferðarleið.

Erindi: Breyting á 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012

Án tafar þarf að færa aftur inn ákvæðið „Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25 m.“ í 1. mgr., 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 (hér eftir „reglugerðin“) sem féll út með reglugerð nr. 360/2016 um (4.) breytingu á reglugerðinni.

Greinargerð

Nýverið uppgötvaðist að ákvæðið féll út úr reglugerðinni árið 2016. Þó hafa allir, hvort sem um er að ræða íslensk stjórnvöld og stofnanir, byggingariðnaðurinn eða hagsmunasamtök unnið út frá því að ákvæðið sé enn í gildi.

Í reglugerð nr. 360/2016 segir í a-lið, 6. gr. að „2. málsl. 1. mgr. fellur niður“ (sbr. mynd 1)


Mynd af 6.2.4 grein. Bílastæði hreyfihamlaðra. "Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérstaklega merkt á yfirborði og einnig með lóðréttu striki. " Strikað er yfir eftirfarandi setningu: Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekk fjær en um það bil 25 metrar.

Mynd 1

Við uppfærslu reglugerðarinnar hjá Mannvirkjastofnun, síðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, var í staðinn 3. málsl. 1. mgr. felldur niður (sbr. mynd 2).


í hornklofa stendur 6.2.4 grein athugasemd nr. 1. Bílastæði hreyfihamlaðra. Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérstakleg merkt á yfirboroði og einnig með lóðréttu skilti. Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en um það bil 25 metrar. honklofi með þremur punktalínum. Hindrunarlaus leið skla vera frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi byggingar.

Mynd 2

Nú tæpum sjö árum síðar hefur breytingin verið leiðrétt á byggingarreglugerd.is.

Áform um að fella ákvæðið út var ekki kynnt til umsagnar og því var engum kunnugt um að það stæði til. Vísað er til bls. 6. í tillögum að breytingum á byggingarreglugerð til lækkunar byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis í fylgiskjali 1 og umsagnar ÖBÍ á umræddum tillögum í fylgiskjali 2.

Því virðist vera ljóst að um mistök hefur verið að ræða og ekki hafi verið gert ráð fyrir brottfalli ákvæðisins.

Það er afar mikilvægt að í reglugerðinni sé ákvæði um fjarlægð frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi bygginga, enda felur hreyfihömlun í sér að einstaklingurinn hafi afar takmarkaða eða enga göngugetu og sé háður hindrunarlausri umferðarleið. Séu ekki fjarlægðarviðmið í reglugerðinni hafa þeir sem ákvarða staðsetningu bílastæðanna nánast frjálsar hendur. ÖBÍ hefur þurft að berjast mikið fyrir því að ákvæði um 25 m fjarlægð frá inngangi séu virt og meðal annars hafa fallið úrskurðir sem styðja rétt fatlaðs fólks í þessum efnum, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 15/2020 Naustabryggja.

ÖBÍ mælist til þess að Innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun komi sér þegar saman um að leiðrétta þau mistök að fella út umrætt ákvæði og koma þannig í veg fyrir meiri skaða en orðið hefur.

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Umsögn ÖBÍ, 23. janúar 2023 send til Innviðaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Fylgiskjöl: 1 – Tillögur að breytingum á byggingarreglugerð til lækkunar byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis. 2 – Umsögn Öryrkjabandalags Íslands um tillögur að breytingum á byggingarreglugerð 112/2012