Skip to main content
AðgengiUmsögn

Breyting á reglugerð nr. 814/2010 (búningsaðstaða)

By 8. janúar 2024janúar 12th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um breytingu á reglugerð nr. 814/2010, mál nr. 247/2023. 

ÖBÍ bendir á að í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 er ekki minnst á aðstöðu og aðgengi fyrir fatlað fólk, né er tengingu að finna við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Í þeirri breytingu (6) sem lögð er til er gert ráð fyrir að í 9. gr. reglugerðarinnar komi inn ákvæði um kynhlutlausa búningsaðstöðu við meiri háttar breytingu á nýtingu húsnæðis. Það er mjög þarft ákvæði. Það er þó rétt að á sama tíma verði bætt við ákvæðum sem tryggi fötluðu fólki lágmarksaðstöðu til að geta stundað sund- og baðstaði. Í reglugerðinni er eingöngu að finna eftirfarandi kröfu þar um: „Á sund- og baðstöðum skal sjá til þess að aðgengi fatlaðra sé samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum“ (1. mgr. 8. gr.).

Samkvæmt 6.1.3. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 falla sundlaugar undir „byggingar og aðkomu að þeim sem hanna skal og byggja á grundvelli algildrar hönnunar,“ enda séu þær ætlaðar almenningi. Gildandi lög segja þó ekkert til um aðgengi fatlaðra að sund- og baðstöðum umfram það sem við á við um aðrar byggingar og því vantar í reglugerðina sérstök ákveði um aðgengi að búningaraðstöðu, sturtum og að sund- og baðstöðum.

Í raun má segja að ákvæði reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum stangist á við byggingarreglugerð því að í 9. gr. reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum segir: „Í búningsaðstöðu skal miða við a.m.k. 0,5 m2 rými fyrir hvern gest.“ Það er alltof lítið athafnarými fyrir hreyfihamlaða hjólastólanotendur enda gerir byggingarreglugerð almennt ráð fyrir a.m.k. 1,5 m hindrunarlausu athafnarými.

Ef gert er ráð fyrir fötluðu fólki í almennum búningsklefum minnkar jafnframt álagið á sérklefa þar sem aðgengi er betra. Einnig ber að benda á að kynhlutlaus búningsaðstaða er ekki síst ætluð fötluðu fólki sem er með aðstoðarmanneskju af öðru kyni. Því er brýnt að sú aðstaða geri ráð fyrir hjólastólanotendum og aðstoðarfólki og að nægilegt framboð sé af slíkri búningsaðstöðu ef útlit er fyrir aukna eftirspurn.

Þá er hvergi að finna ákvæði um aðgengi fatlaðs fólks í laugar og potta. Næst því er komist í öryggishandbók fyrir sund- og baðstaði, þar sem segir: “Mikilvægt er að sund- og baðstaðir hafi lyftu sem hjálpartæki til þess að koma lömuðum einstaklingi í laugina” (bls. 38) . Þessu þarf að bæta úr með ákvæði og leiðbeiningum um útfærslu í reglugerð.

Þá er mjög mikilvægt að í starfsleyfisskilyrðum fyrir jafnt sund- og baðstaði og náttúrulaugar sé leyfi háð því að allur almenningur, þ.á.m. fatlað fólk geti nýtt sér aðstöðuna og að umsókn fylgi aðgengismat.

Síðast en ekki síst þurfa neyðaráætlun, viðbragðsáætlun og öryggisreglur að taka mið af öryggi fatlaðs fólks, sbr. 11. gr.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum SSRF, enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Breyting á reglugerð nr. 814/2010
Mál nr. 247/2023. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 8. janúar 2024