Skip to main content
AðgengiUmsögn

Drög að reglugerð um nafnskírteini

By 12. janúar 2024maí 29th, 2024No Comments

Nýverið tóku gildi ný lög um nafnskírteini, enda þótti tímabært að bæta öryggi skírteinanna svo erfiðara væri að falsa þau og jafnframt tengja þau beint við gagnagrunn með örgjörva.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) benda á nú þegar liggja fyrir drög að reglugerð um nafnskírteini, að þörf er á að ráðast í endurskoðun útgáfu bæði stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða sem gefin eru út af Sýslumönnum og örorkuskírteini sem gefin eru út af Tryggingastofnun Íslands (TR). Bæði skírteinin eru óörugg, auðfalsanleg og takmörkuð, en jafnframt afar mikilvæg handhöfum þeirra.

ÖBÍ leggur til að skoðaður verði möguleikinn á að veita heimild til að tengja nafnskírteini við viðkomandi gagnagrunna og veita upplýsingar um stöðu handhafa um örorku og heimild til að leggja í bílastæði hreyfihamlaðra.

Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða

Samkvæmt reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða, nr. 1130/2016, hafa handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða einir heimild til að leggja ökutæki í bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða auk þess að mega leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu. Skilyrði fyrir útgáfu stæðiskorts er að viðkomandi teljist hreyfihamlaður samkvæmt almennum læknisfræðilegum viðmiðum sem fram koma á læknisvottorði.

Ætla mætti að slík réttindi væru vel varin en svo er ekki. Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða er einfalt að gerð og auðfalsanlegt, eins og sjá má í viðauka við reglugerðina . Á framhlið kortsins kemur fram gildistími, raðnúmer stæðiskortsins og útgefandi þess. Upplýsingar um handhafa kortsins koma fram á bakhlið, sem sést ekki þegar kortið er í notkun í framrúðu bifreiðar.

Ekkert vatnsmerki eða annað sem erfiðar fölsun kortsins er til staðar. Örgjörvi, strikamerki eða QR kóði er ekki á stæðiskortinu og því er ekki hægt að skanna það og tengjast gagnagrunni um notanda, gildistíma eða annað. Samkvæmt 1. mgr., 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2019/1157 um aukið öryggi persónuskilríkja ber að skilja eftir svæði á nafnskírteinum til vélaaflestrar. Sama ætti að eiga við um stæðiskort hreyfihamlaðra.

Nú hefur rutt sér til rúms ný tækni sem tekur mynd af bílnúmerum á bílastæðum og ef ekki hefur verið greitt fyrir lagningu bílsins þá er send krafa í heimabanka eiganda. Þessi tækni hefur til dæmis leyst af hólmi slár og starfsmenn í bílastæðahúsum. Vandinn er sá að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða eru undanþegnir allri gjaldskyldu en kortið er tengt einstaklingum en ekki bílnum. Því er ekki hægt að greina á bílnúmeri að notandi bifreiðarinnar sé hreyfihamlaður og hafa margir fengið á sig ólögmæta kröfu. Ef hægt væri að skanna inn kortið í gjaldmælum og staðfesta undanþágu frá gjaldskyldu væri ekki gengið á rétt einstaklinga með þeim hætti sem gert er í dag.

Örorkuskírteini

Einstaklingar með 75% örorkumat geta fengið örorkuskírteini, ýmist úr plasti eða stafrænt skírteini í snjallsíma, hjá TR. Skírteinin veita handhöfum þeirra ýmis réttindi en þau eru ekki persónuskilríki. Þau eru því aðeins gild hérlendis og að fengnum vilja þjónustuveitanda.

Unnið er að innleiðingu evrópsks örorkuskírteinis í Evrópusambandslöndum, sem veitir handhöfum margvísleg réttindi á Evrópusvæðinu og aðgang að afsláttum og þjónustu. Enn fremur er verið að gefa út evrópskt stæðiskort fyrir hreyfihamlaða. Hér á landi hefur ekki komið til tals að innleiða þessi eða sambærileg skírteini.

Það er því ljóst að fatlað fólk á Íslandi situr eftir þegar litið er til réttinda sem fötluðu fólki býðst í öðrum Evrópulöndum, og horfir upp á að þróun stafrænna lausna og auknar öryggisógnir skerða réttindi sem því hefur staðið til boða.

ÖBÍ hvetja stjórnvöld til að bæta þegar úr þessu ástandi. Hvort sem er með því að innleiða Evrópsk stæðiskort hreyfihamlaðra og örorkuskírteini, bæta eða tengja öryggi og gildi fyrirliggjandi skírteina, eða færa inn upplýsingar um réttindi inn á önnur skilríki, svo sem nafn- og ökuskírteini. Sú lausn sem valin er þarf að vera búin örgjörva sem hægt sé að tengja við gagnagrunna Sýslumanna og TR.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að reglugerð um nafnskírteini
Mál nr. 266/2023. Dómsmálaráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 12. janúar 2024