Skip to main content
AðgengiUmsögn

Fjölmiðlastefna og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030

By 19. mars 2024mars 20th, 2024No Comments

Ríkari krafa er sett á RÚV en einkarekna fjölmiðla til textunar og annars aðgengis, en margir dagskrárliðir hafa þrátt fyrir það verið sendir út ótextaðir gegnum tíðina.

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því að til standi að samþykkja fjölmiðlastefnu og aðgerðaráætlun um málefni fjölmiðla sem geri ráð fyrir því að efni fjölmiðla eigi erindi við alla landsmenn.

Það er mikilvægt að styrkja stafræna færni og getu landsmanna til að leggja gagnrýnið mat á upplýsingar, en fyrst þarf að tryggja það að upplýsingarnar séu aðgengilegar landsmönnum.

Rétt er að skylda fjölmiðla til að texta allt myndefni, gera vefsíður og samfélagsmiðla aðgengilega fyrir blinda og sjónskerta og bjóða upp á táknmálstúlkun í ríkara mæli. Til að svo geti orðið þarf að veita þeim fjárhagslegan stuðning og sjá þeim fyrir leiðbeiningum.

Krafa um sömu samfélagsþátttöku

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hefur ÖBÍ barist fyrir því um árabil að aðgengi fatlaðs fólks að fjölmiðlum verði tryggt með lögum. Samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 er skylt að texta erlent sjónvarpsefni, en mun vægari kröfur eru gerðar til textunar innlends efnis sem hefur þýtt að stór hluti þess hefur verið ótextaður með þeim afleiðingum að umrætt efni hefur verið ill- eða óaðgengilegt heyrnarskertu fólki. Samkvæmt 29. gr. laganna skal erlendu efni „jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni“, en samkvæmt 30. gr. laganna skulu „þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni […] eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun.“

Ríkari krafa er sett á RÚV en einkarekna fjölmiðla til textunar og annars aðgengis, en margir dagskrárliðir hafa þrátt fyrir það verið sendir út ótextaðir gegnum tíðina. Einkareknir fjölmiðlar hafa lítið sinnt textun og ljóst er að margir þeirra munu þurfa fjárhagsstuðning til að bæta aðgengi að frétta- og dagskrártengdu efni. ÖBÍ hefur lagt til að fjárveitingar til fjölmiðla séu háðar því að aðgengi fatlaðs fólks að þeim sé óskert.

Stafrænar lausnir og gervigreind

Eins og fram kemur í frumvarpinu þá fleygir tækninni fram og stutt er í að stafrænar máltæknilausnir komi fram sem styðjast við gervigreind sem nýtast við textun, vélþýðingar og hljóðlýsingu. Það mun auðvelda fjölmiðlum að gera sitt efni aðgengilegt, en þó er jafnbrýnt að fjölmiðlum verði gert skylt að taka í notkun þessar eða aðrar lausnir. Ef við ætlum að gera kröfu um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þarf að skerpa á þessum kröfum í löggjöf og með því aðhaldi sem á við. En jafnframt þarf að veita þeim þann fjárhagsstuðning sem til þarf að taka tæknina í notkun og ráðgjöf um hvernig hægt er að senda frá sér fjölmiðlaefni án aðgreiningar.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2030
Mál nr. S-70/2024. Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 19. mars 2024