Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Grænbók um skipulagsmál

By 24. ágúst 2023No Comments

„ÖBÍ leggur til að Innviðaráðuneytið skoði gaumgæfulega núverandi fyrirkomulag sveitastjórnastigsins og geri viðeigandi ráðstafanir svo unnt sé að ná markmiði grænbókarinnar um sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt.“

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um grænbók um skipulagsmál, mál nr. 145/2023

ÖBÍ réttindasamtök telja framsýni í skipulagsmálum veigamikinn þátt í árangursríkri uppbyggingu samfélagsins. Brýnt er að huga vel að fjölbreyttum aðstæðum einstaklinga og skipuleggja aðgengilegt samfélag fyrir öll en ekki bara sum. Slæm staða á húsnæðis- og leigumarkaði bitnar fyrst og fremst á þeim sem standa höllustum fæti í samfélaginu. Enginn á að neyðast til að hefja fasta búsetu í tjaldi og stjórnvöld verða að grípa inn í með markvissum aðgerðum til að tryggja þessum hópi öruggt þak yfir höfuðið. ÖBÍ leggur því fram eftirfarandi athugasemdir og tillögur til úrbóta.

1.

Framtíðarsýn Innviðarráðuneytisins um að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu er göfugt markmið. Meirihluti innviða á Íslandi er í dag óaðgengilegur fötluðu fólki og þjóðin skarpt að eldast. Samfélagið þarf innviði og húsnæði sem er aðgengilegt og endist. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur einstaklinga. Sum glíma við fötlun frá fæðingu en önnur fatlast síðar á lífsleiðinni t.d. í kjölfar slyss eða veikinda. Í dag vinna íslensk stjórnvöld að innleiðingu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Því þarf framtíðarsýn Innviðaráðuneytisins að ganga í takt við samninginn þannig að skipulagning samfélags þar sem innviðir og framsækin þjónusta, mæti þörfum fatlaðs fólks. ÖBÍ leggur því fram eftirfarandi breytingar á framtíðarsýn ráðuneytisins.

Ísland er í fremstu röð með trausta, örugga og aðgengilega innviði. Sveitarfélög landsins eru öflug með getu og burði til að sinna lögbundnum skyldum sínum, tryggja öllum íbúum öruggt húsaskjól og framsækna þjónustu. Tækni tengir byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.

2.

Í grænbókinni setur ráðuneytið sér tvö meginmarkmið til að ná fram fyrrnefndri framtíðarsýn. Fyrra markmiðið snýr að innviðum sem mæta þörfum samfélagsins og tiltekur ákveðin leiðarljós t.a.m. fjölbreytt framboð húsnæðis og gott aðgengi að þjónustu. Til að ná þessum markmiðum verða stjórnvöld að gera grundvallar breytingar í skipulagsmálum, sérstaklega hvað varðar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem mæti þörf jaðarsettra hópa samfélagsins. Íslenskur leigumarkaður er mjög frábrugðinn leigumörkuðum flestra OECD ríkja í ljósi þess að meirihluti leigjenda hér á landi leigir af einstaklingum á almennum markaði en ekki af hinu opinbera eða leigufélögum. Sú staðreynd vegur þungt þegar horft er til fjölda skammtíma leigusamninga, skorts á fyrirsjáanleika um þróun leiguverðs og óstöðugleika á leigumarkaði.

ÖBÍ leggur því til að hið opinbera beiti sér markvisst fyrir því að íslenskur leigumarkaður verði þróaður í átt að aukinni hlutdeild sveitarfélaga og leigufélaga, bæði almennra og óhagnaðardrifinna á íbúðamarkaði.

Stjórnsýslan þarf að ganga ákveðin til verka, samstilla aðgerðir og tryggja að engin lögbundin aðili hlaupist undan ábyrgð. Því skýtur það skökku við að í frumvarpi um breytingar á skipulagslögum nr.123/2010 gefist sveitarfélögum einungis heimild til að gera kröfur um allt að 25% lágmarksfjölda hagkvæmra íbúða í deiliskipulagi íbúðahúsnæðis. Núverandi orðlag gerir ekki kröfur til sveitarfélaganna um að ganga samstillt til verka. Þannig getur eitt sveitarfélag sett sér háleitt markmið um nýtingu þessarar heimildar en annað virt hana að vettugi.

ÖBÍ leggur til að sveitarfélögum sé skylt að gera kröfu um það við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði að 25 prósent af heildarfermetrafjölda íbúða innan skipulagssvæðis verði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir og íbúðir sem falla undir VI. kafla A og VIII. kafla laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

3.

Seinna markmiðið snýr að sjálfbærum byggðum og sveitarfélögum um land allt og tiltekur ákveðin leiðarljós t.a.m. hagkvæmar, öruggar og umhverfisvænar samgöngur um land allt og öflug sveitarfélög. Uppbygging aðgengilegs húsnæðis og bættir innviðir almenningssamgangna leggur grunninn að sjálfstæðu lífi og ýtir undir þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, ekki síst á vinnumarkaði. Það stuðlar að bættu félagslífi og minnkar hættuna á félagslegri einangrun. Þegar fólk getur sjálft sótt sér þjónustu utan heimilis minnkar það þörfina á félags- og heilbrigðisþjónustu heim og stofnanauppbyggingu. ÖBÍ leggur því til að ráðuneytið bæti við í leiðarljós sitt um samgöngur að þær séu aðgengilegar og mæti þörfum fatlaðs fólks.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 segir að sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar. Reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðning meiri eða sérhæfðari en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal veita viðbótarþjónustu skv. lögum nr. 38/2018.

Einnig er vert að benda á að sveitarfélögum er skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Því miður eru mörg dæmi þess að sveitarfélög veigri sér við að sinna þessum lögbundnu skyldum sínum á grundvelli bágrar fjárhagsstöðu, fólksfjölda og skort á félagslegu íbúðarhúsnæði. Að mati ÖBÍ ber sveitastjórnum að fara að lögum og sinna sínu lögbundna hlutverki. Jafnfram að löggjafarvaldinu beri að tryggja að sveitarstjórnir hafi burði til að sinna þeim skyldum sem Alþingi ætlast til af sveitarfélögum landsins.

ÖBÍ leggur til að Innviðaráðuneytið skoði gaumgæfulega núverandi fyrirkomulag sveitastjórnastigsins og geri viðeigandi ráðstafanir svo unnt sé að ná markmiði grænbókarinnar um sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ


Grænbók um skipulagsmál.
Mál nr. 145/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 24. ágúst 2023