Skip to main content
AðgengiUmsögn

Drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra

By 12. ágúst 2022mars 16th, 2023No Comments

„Ætlun ÖBÍ með innleiðingu sérreglumerkis 554.2 var að það myndi gefa til kynna forgang stærri bíla fyrir hreyfihamlaða sem útbúnir eru með lyftu eða rampi, en ekki útiloka notkun þeirra fyrir aðra handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða.“

Umsögn ÖBÍ um drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra

ÖBÍ fagnar því að í drögum að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra sé að finna tvö ný umferðarmerki sem ekki hafa áður verið í notkun, hvorki hér á landi né erlendis, og sem bandalagið lagði til að yrðu innleidd í erindisbréfum vorið 2018.

Annars vegar er um að ræða táknmynd 807.82 um hreyfihamlaða vegfarendur sem ÖBÍ hefur lagt áherslu að muni taka við af eldri táknmynd og er í reglugerðardrögunum að finna á merkjum 554.1, 554.2, 554.3, 658.3 auk merkingu 1042 fyrir yfirborð vega. Hins vegar er um að ræða sérreglumerki 554.2 sem ÖBÍ lét sérstaklega teikna upp.

Það er fagnaðarefni að tillögurnar muni loks verða innleiddar í reglugerð og er Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra óskað til hamingju með áfangann sem vonandi getur orðið öðrum að fyrirmynd.

Að því sögðu er bent á mikilvægi þess að skilgreiningar með umferðarmerkjum séu nákvæmar til að réttinda fólks sé gætt og notkun þeirra verði með réttum hætti. ÖBÍ gerir eftirfarandi athugasemdir:

Táknmynd 807.82

P merkin, hið nýja og gamlaNý táknmynd hreyfihamlaðra „leggur áherslu á manneskjuna, ekki hjólastólinn. Það sýnir hreyfingu fram á við, en ekki viðvarandi ástand. Það felur í sér vilja og virkni. Fatlað fólk vill lifa sjálfstæðu lífi og taka virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra“, eins og fram kemur í erindi ÖBÍ til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags 24. janúar 2018.

Eldri táknmynd, sem hönnuð var á sjöunda áratug síðustu aldar og hefur verið í notkun æ síðan, er barn síns tíma og kannski einkennandi fyrir þá sýn sem ríkjandi var í samfélaginu um fatlað fólk, og gefur til kynna óvirkni og hreyfingarleysi.

ÖBÍ berst fyrir því að nýja táknmyndin muni yfirtaka gömlu táknmyndina með tíð og tíma. Hins vegar verður það að vera tryggt að þau bílastæði sem eru merkt með gömlu táknmyndinni haldi áfram sinni stöðu innan íslenskrar löggjafar og missi ekki sektarheimildir.

Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar er ekki sektað vegna stöðubrota í bílastæðum hreyfihamlaðra ef skilti eru ekki nákvæmlega samkvæmt forskrift í reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra, t.d. þegar „P“ er staðsett hægra megin við táknmynd hreyfihamlaðra í sérreglumerki 554.1.

Sérreglumerki 554.2

Sérreglumerki 554.2 er umferðarmerki sem ÖBÍ lét teikna til að mæta ákveðinni þörf. Ekki er vitað til þess að sambærilegt merki sé í notkun annars staðar og því mun innleiðing þess brjóta blað í alþjóðlegu samhengi.

Bílastæði hreyfihamlaðra eru stærri en almenn bílastæði til að mæta rýmisþörf notenda, ekki síst þeirra sem nota hjálpartæki, sbr. 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Lesa má út úr reglugerðinni að stærðarviðmið fyrir almenn bílastæði sé 2,80 x 5,00 m, en bílastæði hreyfihamlaðra eigi að vera 3,80 m x 5,00 m að stærð eða 2,80 m x 5,00 m með hindrunarlausu 1,00 m breiðu umferðarsvæði samsíða. Sérreglumerki 554.1 hefur átt við um öll bílastæði hreyfihamlaðra fram að þessu.

Hins vegar segir jafnframt í 6.2.4. gr. reglugerðarinnar að „eitt af hverjum fimm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skal vera 4,5 m x 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Bílastæði hreyfihamlaðra sem eru samsíða akbraut skulu vera 2,5 m x 8,0 m að stærð og þess gætt að hindrunarlaust svæði sé samsíða stæðunum gangstéttarmegin 2,0 m x 8,0 m að stærð.“ Í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar um framkvæmd þessarar greinar er ljóst að stærri stæðin eru sérstaklega ætluð stærri bílum, sbr. 4. tölul.:

„Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 5,0 m að stærð með þriggja metra löngu athafnasvæði fyrir enda þess eða alls 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla og aðra stóra bíla fyrir hreyfihamlaða sem útbúnir eru með lyftu eða skábraut). Þó skal aldrei vera færri en eitt slíkt stæði við hverja byggingu.“

Ætlun ÖBÍ með innleiðingu sérreglumerkis 554.2 var að það myndi gefa til kynna forgang stærri bíla fyrir hreyfihamlaða sem útbúnir eru með lyftu eða rampi, en ekki útiloka notkun þeirra fyrir aðra handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða. Enda er ekki tryggt að önnur bílastæði hreyfihamlaðra séu til staðar.

Í drögum nýrrar reglugerðar um umferðarmerki og notkun þeirra segir um sérreglumerki 554.2: „Merki 554.2 gefur til kynna sérstaklega breitt bifreiðastæði sem eingöngu er ætlað handhöfum stæðiskorta fyrir fatlað fólk.“

ÖBÍ leggur áherslu á að þessi skýring verði endurskoðuð með viðmiðum fyrir sérstaklega breið bifreiðastæði og ætlaðan forgang notenda stærri bifreiða sem útbúnar eru með lyftu eða rampi. Tillaga að nýrri skýringu:

Merki 554.2 gefur til kynna sérstaklega breitt og langt bifreiðastæði (4,5 m x 8,0 m) sem eingöngu er ætlað handhöfum stæðiskorta fyrir fatlað fólk og veitir þeim forgang á stærri bifreiðum sem útbúnar eru með rampi eða lyftu. Merkið felur ekki í sér bann á hendur handhafa stæðiskorta fyrir fatlað fólk á minni bifreiðum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir , formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri


Drög að reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra.
Mál nr. 124/2022. Innviðaráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 11. ágúst 2022