Skip to main content
AðgengiUmsögn

Stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs

By 23. ágúst 2022febrúar 10th, 2023No Comments

Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík

Reykjavík 19. ágúst 2022

Umsögn ÖBÍ um stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) fagnar því að lögð sé fram stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs. Mikil þörf er á að auka þekkingu á algildri hönnun meðal arkitekta og hönnuða, meðal annars með aukninni áherslu í námi og endurmenntun.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verður lögfestur á næstunni samkæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en samkæmt 2. gr. SRFF merkir algild hönnun „hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu, sem allt fólk getur nýtt sér, að því marki sem mögulegt er, án þess að koma þurfi til umbreyting eða sérstök hönnun. Algild hönnun“ á ekki að útiloka hjálpartæki fyrir tiltekna hópa fatlaðs fólks, þar sem þeirra er þörf.“

Algild hönnun er góð hönnun sem fellur undir viðeigandi ráðstafanir sem þarf að gera til að „gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.“

Samstarfsyfirlýsing um bætta upplýsingagjöf um algilda hönnun var undirrituð þann 5. maí sl. af forsvarsmönnum Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), Arkitektafélags Íslands (AÍ), Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félags húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélags Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Við það tilefni sagði Sigríður Maack formaður AÍ að gæði í arkitektúr samanstandi af þremur þáttum, hinu haldbæra, hinu nothæfa og hinu fagra. Ef einhvern þessara þátta vantar, þá væru gæði ekki til staðar.

Lagt er til að sérstök áhersla sé lögð á algilda hönnun í stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs, enda styður hún við aðrar stefnur og áætlanir svo sem byggðaáætlun, umhverfisáætlanir, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og áætlanir um nýsköpun, auk þess að bæta lífsgæði fatlaðs fólks og annara landsmanna.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri


Mál nr. 132/2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Drög stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs.
Umsögn ÖBÍ, 19. ágúst 2022