Skip to main content
AðgengiUmsögn

Mál nr. 142-2021. Grænbók um samgöngumál

By 11. ágúst 2021september 1st, 2022No Comments

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Sölvhólsgata 7
101 Reykjavík

Reykjavík, 10. ágúst 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ, um Grænbók um samgöngur

Ástand samganga bitnar einna helst á fötluðu fólki og því er afar mikilvægt að þarfir fatlaðs fólks sé haft að leiðarljósi við áætlanagerð og framkvæmdir.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, segir í 20. gr.:

Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi

Stjórnvöld eiga nú við alla áætlanagerð að innleiða SRFF og ber að hafa virkt samráð við samtök fatlaðs fólks allt frá hugmyndastigi til framkvæmdar. Ekkert samráð hefur verið haft við ÖBÍ við gerð samgönguáætlana undanfarin ár og er Grænbók um samgöngur þar ekki undanskilin.

Þá er ekki forsvaranlegt að leggja fram viðamikla áætlun til umsagnar í júlímánuði þegar þorri landsmanna er í sumarfríi. Umsögn þessi er vegna þess samin í skyndi til að mæta skilafresti.

Óskað er eftir svörum um hvernig eftirfarandi er mætt í Grænbók um samgöngur og samgönguáætlunum:

• Þrátt fyrir skuldbindingar um greitt aðgengi fatlaðs fólks að samgöngum, hvort sem er í lofti, láði eða legi, með settum lögum og reglugerðum [1] þá fer oft lítið fyrir því að þær séu uppfylltar. Eftirlit með innfluttum áætlunarbílum virðist t.d. ekkert. Hvernig verður það tryggt í áætlunum?
• Hvað verður gert til að bæta öryggi fatlaðs fólks í umferðinni? Verða ísett hjálpartæki í breyttum bílum yfirfarin við bifreiðaskoðun?
• Aðgengi fatlaðs fólks að biðstöðvum strætó á landsbyggðinni er afar slæmt eins og kemur fram í nýrri skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir ÖBÍ, þar sem biðstöðvar á leiðum 51, 55, 56 og 57 voru teknar út. Ástand á öðrum leiðum er vart betra. Hvað verður gert til að bæta úr því ófremdarástandi, nú þegar fest hefur verið kaup á fjórum aðgengilegum landsbyggðarstrætisvögnum sem hægt verður að panta frá næstu áramótum?
• Notendur akstursþjónustu fatlaðra geta ekki notað hana til að ferðast milli sveitarfélaga og þá er ógerningur fyrir hreyfihamlað fólk að nota landsbyggðarstrætó eins og kemur fram að ofan. Einnig er flugrútan óaðgengileg hreyfihömluðu fólki. Hvað verður gert til að tryggja ferðafrelsi fatlaðs fólks til jafns við aðra?

Í áætluninni er ekki minnst á ferðavenjur og þarfir fatlaðs fólks þó svo að sérstakir kaflar séu um bæði börn og konur. Hverjar lítur samgönguráð á að séu helstu áskoranir og tækifæri fyrir fatlað fólk í áætluninni?

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri

[1]   Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 34/300. Reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 181/2011 2015/EES/34/36 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004

_________________________

ESB reglugerðin á ekki aðeins við um réttindi farþega sem ferðast um sjó, heldur einnig vatnaleiðir innanlands. Reglugerð nr. 536/2016 virðist því þrengja réttindi farþega með rangri innleiðingu, sem gæti falið í sér skaðabótakröfu skv. EES reglum.