Skip to main content
AtvinnumálViðtal

Fatlað fólk auðgar atvinnulífið

By 1. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir það stefnu borgarinnar að ráða fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna í vinnu, þar sé um að ræða verðmæta starfskrafta sem séu vegna reynslu sinnar hvorutveggja lausnamiðaðir og komi með aðra sýn á hlutina. Hún telur að það megi alltaf gera betur, m.a. í aðgengismálum og að gæta þurfi að því að fatlað fólk einangrist ekki. Regína segir jafnframt að hreyfihamlað fólk sé oft í fararbroddi í stafrænu byltingunni enda þurfi það mikið á stafræna heiminum að halda.

Regína Ásvaldsdóttir er félagsráðgjafi að mennt, með cand. mag-gráðu í félagsráðgjöf og afbrotafræði frá háskólanum í Ósló og meistaranám í hagfræði frá háskólanum í Aberdeen í Skotlandi með áherslu á breytingastjórnun og nýsköpun. Þegar hún er spurð hver sé stefna Reykjavíkurborgar varðandi að ráða fatlað fólk í vinnu, segir Regína að það komi fram bæði í mannauðsstefnu borgarinnar og í mannréttindastefnunni að hafa fjölbreytileika meðal starfsfólks. „Síðan var verið að samþykkja sérstaka velferðarstefnu þar sem mikil áhersla er lögð á þennan fjölbreytileika og þá að ráða fólk sem er fatlað og fólk af erlendum uppruna. Þannig að það er verið að líta til þess að sviðið endurspegli þann fjölbreytileika sem við erum að þjónusta.“

Þetta er ykkar stefna en hvað með fyrirtæki, og aðrar stofnanir, veistu eitthvað hvernig þau standa sig í þessum efnum? „Ég hef ekki alveg yfirsýnina hvernig fyrirtæki standa sig en það hefur verið lögð á það áhersla bæði hjá Vinnumálastofnun og félagsmálayfirvöldum víða á landinu og einnig af félagsmálaráðuneytinu að hvetja fyrirtæki til að ráða fatlað fólk í vinnu. En það má auðvitað alltaf gera betur og það á við um okkur sem og fyrirtæki, samtök og aðrar stofnanir.“

Regína segir aðspurð að borgin hafi byrjað markvisst að ráða fatlaða einstaklinga í vinnu um 2010. Að sögn hennar eru atvinnumál fatlaðs fólks margþætt. Annars vegar er fólk ráðið inn á vinnustaðinn með stuðningi í gegnum Vinnumálastofnun, í gegnum verkefni sem heitir ,,Atvinna með stuðningi“ og hins vegar eru fatlaðir einstaklingar, oft hreyfihamlaðir, í sérfræðingsstörfum sem hafa verið ráðnir vegna hæfni sinnar. Síðan er velferðarsvið að reka nokkra verndaða vinnustaði, svo sem Iðjuberg, Gylfaflöt, Ópus og SmíRey, auk þess að vera með samning við Ás styrktarfélag um sambærilega starfsemi, en verndaðir vinnustaðir byggja á áralangri hefð.“

Fer þá fólk á einhverja sérstaka staði frekar en aðra? „Við reynum við að finna fólki störf í takt við getu hvers og eins og störfin eru á öllum sviðum borgarinnar, svo sem á velferðarsviði, í leikskólum og á umhverfis- og skipulagssviði.

Hvers eðlis er skerðing þessa starfsfólks? „Hún er alls konar, ef ég tek sem dæmi skrifstofuna hér þá er fólk með hreyfihömlun, en líka fólk með þroskaskerðingu og fleira, það fer bara eftir því hver passar í hvaða störf og það er allur gangur á því.“

Gengið frábærlega

Regína segir að frábærlega hafi gengið að hafa fatlað fólk í vinnu. „Styrmir Erlingsson sem vinnur hjá okkur orðaði þetta mjög vel þegar hann var spurður að því af hverju fyrirtæki ættu að ráða fatlað fólk í vinnu: „Fatlað fólk hefur oft þurft að takast á við mjög miklar hindranir í sínu lífi og það gerir það kannski að verðmætari starfsmönnum þannig að það sé lausnarmiðaðra en ella. Það er bæði reyndar það að hafa þurft að glíma við erfiða hluti en líka skilningur og samkennd með aðstæðum þeirra sem leita til okkar,“ útskýrir Regína.

Þannig að þú myndir mæla með að fyrirtæki virkilega hugsuðu sinn gang með að ráða fatlað fólk? „Algjörlega, þú ert að oft að fá yfirburðafólk til starfa en það þarf þjóðarátak í þessum málum, vekja fólk til umhugsunar. Fatlað fólk er oft falinn hópur og það er í okkar stefnu, eins og ég sagði, að gera þetta með enn markvissari hætti og ég sé fyrir mér að í auglýsingum okkar, alveg eins og við vorum með hvatningu til kvenna, að við hvetjum fatlað fólk og líka fólk af erlendum uppruna til að sækja um störf hjá okkur. Þetta eru stórir hópar sem við þjónustum og fara sístækkandi þannig að við þurfum að endurspegla það á einhvern hátt á velferðarsviði.“

Munu bæta í

Regína telur að fatlaðir einstaklingar og fólk af erlendum uppruna auðgi atvinnulífið, en segist ekki getað svarað spurningu blaðamanns um hvað þau séu með marga fatlaða starfsmenn og fólk af erlendum uppruna í vinnu. „Þetta er svolítið erfið spurning því oft koma fatlaðir starfsmenn inn í gegnum verkefnið ,,Atvinna með stuðningi“ og fá svo áframhaldandi vinnu hjá Reykjavíkurborg og eru ekki merktir sérstaklega í mannauðskerfinu, meðal annars af persónuverndarástæðum. Þannig að ég get í raun ekki svarað þessu.“

Mun þeim fjölga á næstu árum? „Já það er í anda nýrrar velferðarstefnu að bæta í og við höldum áfram á þessari braut og kannski enn markvissar en áður en við þurfum að huga að aðgengismálum, þau eru mjög mikilvæg. Það þarf að huga að hjálpartækjum þegar það á við og stuðningi. Margir starfsmenn velferðarsviðs hafa átt þess kost að vinna heima í COVID- faraldrinum og það léttir á fólki með hreyfihömlun að hafa þennan möguleika. Við þurfum hins vegar að gæta að því að fólk einangrist ekki, félagslegi þátturinn skiptir líka máli. Við höfum tilhneigingu til, sem betur fer, að horfa ekki alltaf á einstakling sem starfar hjá okkur sem fatlaðan, við gerum það ekki, en á móti kemur að það þarf að passa að allur aðbúnaður og að aðstæður séu góðar.

Veist þú hvernig staðan er úti á landi, nú ertu þú hjá borginni en hefur einhverja vitneskju um þau mál? „Nei, ég get ekki svarað fyrir önnur sveitarfélög en sem fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi þá veit ég að þar var sama stefnan og mjög vel staðið að þessum málum og ég hygg að þannig sé það víða. Ísland er hins vegar eftirbátur margra þjóða þegar kemur að aðgengismálum að mínu mati. Nýjasta átak Haraldar Þorleifssonar að rampa upp Reykjavík, er frábært framtak, en almennt séð þá mættum við gera miklu betur í aðgengismálum. Það þarf meira átak og vekja fólk til vitundar.“

Nú hefur Reykjavíkurborg verið í fararbroddi í þessum málum, mælið þið með þessu fyrir aðra og þá af hverju? „Já, ég mæli eindregið með að ráða fatlað fólk til starfa. Eins og ég nefndi áðan þá er þetta oft mjög lausnamiðað fólk og kemur með öðruvísi sýn á hlutina, hreyfihamlað fólk er oft í fararbroddi í stafrænum lausnum. Það er af því að mörg þeirra reiða sig á upplýsingatæknina og hún hefur opnað dyr sem áður voru lokaðar. Þetta á sérstaklega við um yngri kynslóðina.“

Aðspurð segir Regína að fram undan sé að framfylgja velferðarstefnunni og fara markvissara í aðgerðir, halda áfram að ráða fatlað fólk og heldur að bæta í en hitt og huga að aðgengimálunum. „Fara yfir þau á öllum okkar starfsstöðum en við erum með á annað hundrað starfseiningar, og þá er ég bara að tala um velferðarsvið, og opna á þennan möguleika og að það sé ákveðin hvatning þegar við auglýsum eftir fólki fyrir þennan hóp að sækja um. Það skipti máli fyrir konur á sínum tíma að sjá allt í einu í auglýsingum að konur væru hvattar til að sækja um. Við þurfum að hvetja fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna til að sækja um störfin.“

Texti: Ragnheiður Linnet. Myndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson. 

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)