Skip to main content
AlmannatryggingarAtvinnumálKjaramálUmsögn

94. mál. Almannatryggingar og félagsleg aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja)

By 12. nóvember 2020september 1st, 2022No Comments
Alþingi
Nefndarsvið
Austurstræti 8-12

150 Reykjavík

Reykjavík, 11. nóvember 2020

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja), 94. mál. 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur m.a. í sér rétt fatlaðs fólks til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. 

Í tölum frá Tryggingastofnun (TR) fyrir september 2020 kemur fram að um 30% öryrkja er með einhverjar atvinnutekjur. Mun stærri hópur hefur hins vegar löngun og getu til vera á vinnumarkaði t.d.nefnir fólk ýmsar hindranir fyrir atvinnuþátttöku[1]. Skerðingar lífeyris vegna atvinnutekna eru nefndar næst oftast sem algengasta hindrunin fyrir atvinnuþátttöku.[2] Síðan 2009 hafa tekjutengingar í almannatryggingakerfinu aukist og frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja verið óbreytt. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Ef frítekjumark vegna atvinnutekna hefði hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009, væri það rúmar 217.000 kr. á mánuði í stað 109.600 kr. í byrjun árs 2019.

Í frumvarpinu er lagt til að heimila örorkulífeyrisþegum að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði tilgreinda fjóra greiðsluflokka, sem samanlagt eru meginuppstaða lífeyrisgreiðslna frá TR til örorkulífeyrisþega. ÖBÍ fagnar þessu frumvarpi og telur að það sé jákvætt og mikilvægt skref í átt að því að fjarlægja ósanngjarnar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og gera fötluðu fólki kleift að njóta fjárhagslegs ávinnings af atvinnuþátttöku sinni. Því ber þó að halda til haga að lausnir á þeim vanda sem snýr að tekjuskerðingum vegna atvinnutekna öryrkja þurfa að vera almennar og ná til lengri tíma en 2ja ára í senn á 10 ára tímabili. Því er lagt til að samhliða ákvæði um tilraun til starfa verði frítekjumark vegna atvinnutekna (1.315.200 kr. á ári) hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 og uppfært árlega. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega. Samkvæmt mati á kostnaði sem TR gerði í nóvember 2019 var kostnaðurinn við að hækka frítekjumark atvinnutekna hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum upp í 200.000 kr. á mánuði 898 milljónir kr. á ári (sjá meðfylgjandi mat).

Aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði þyrfti að bæta mikið samhliða því að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna. Til að tryggja atvinnuþátttöku allra, á grundvelli jafnræðis þarf samfélagið allt að vinna að breytingum, þar með hinn opinberi- og almenni vinnumarkaður. Stjórnvöld hafa þá skyldu að vinna að inngildum vinnumarkaði fyrir alla (e. inclusive employment market). Aðgerðir þurfa að fylgja sem gera fötluðu fólki betur kleift að fá atvinnu við hæfi og vera á vinnumarkaði án þess að bera kostnað af atvinnuþátttöku sinni og geta aukið ráðstöfunartekjur sínar með vinnuframlagi sínu.

Lítil saga:
Kona ein, 75% öryrki, fékk tímabundið verkefni í einn og hálfan mánuð. Fyrir það fékk hún greitt 153 þúsund kr. Skatturinn tók 78 þúsund kr. TR tók 53 þúsund, eftir stóð 27 þúsund fyrir þessa vinnu. Þá er ekki útséð að áhrif af þessum aukatekjum komi fram t.d. í húsnæðisstuðningi og víðar, sem myndi þýða að heildarútkoman væri tap.

Í núverandi kerfi gríðarlegra tekjuskerðinga fá öryrkjar kröfu hjá TR ef þeir hefja störf á öðrum tíma ársins en í byrjun árs og ná því ekki að tilkynna um atvinnutekjurnar í tekjuáætlun í upphafi árs. Slíkt fyrirkomulag er fyrir marga mjög kvíðavekjandi og letur fólk til atvinnuþátttöku.

Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu gera örorkulífeyrisþegum mjög erfitt að bæta fjárhagsstöðu sína, m.a. með atvinnutekjum. Þær halda fólki í fátækt og á jaðri samfélagsins. Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi á lífi til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val.

Ekkert um okkur án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,
formaður ÖBÍ

[1] Í niðurstöðum könnunarinnar Lífskjör og hagir öryrkja, sem var framkvæmd meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega á Íslandi veturinn 2008-2009 töldu um 84% örorkulífeyrisþega það mjög mikilvægt að þeir hafi möguleika á launaðri vinnu. [Sjá hér PDF útgáfu af skýrslunni] [2] Vinnumarkaður, vinnuveitendur og vinnuaðstaða var það sem helst stóð í vegi fyrir atvinnuþátttöku öryrkja að mati svarenda í ofangreindri rannsókn


Fylgiskjal 

 

Kópavogur 27. nóvember 2019

Efni: Mat á kostnaði við að hækka frítekjumark atvinnutekna hjá örorku- og endurhæfingalífeyrisþegum.

Aðgerðir sem beðið var um kostnaðarmat á.
  1. Kostnað við að hækka frítekjumark atvinnutekna upp í 200.000 kr. á mán.
  2. Mat á hversu mikla hækkun á frítekjumarki atvinnutekna er hægt að fá fyrir 200 milljónir kr. á ári.

Ekki var nefnt í beiðninni til hvaða bótaflokka þetta ætti að ná en þar sem einungis tekjutrygging og heimilisuppbót eru með sérstakt frítekjumark atvinnutekna og talað var um hækkun slíks frítekjumarks en ekki að taka upp slíkt frítekjumark gagnvart bótaflokkum sem ekki eru með slíkt er hér gengið út frá því að fyrirspurnin snúist einungis um að hækka frítekjumark gagnvart tekjutryggingu og heimilisuppbót.

Gögn sen notuð eru við kostnaðarmatið.

Notast er við keyrslu úr gagnagrunni þar sem reiknaður er út bótaréttur eins og hann hefði orðið vegna febrúar 2019 miðað við þær tekjuáætlanir sem nú eru í gildi fyrir þann mánuð.

Kostnaður.
Taflan hér fyrir neðan sýnir kostnað við þessar aðgerðir í milljónum kr. á ári.
Valkostur 1 2
Frítekjumark atvinnutekna 200 þ. 125 þ. 
Tekjutrygging 792 175
Heimilisuppbót 72 16
Framfærsluuppbót -2 -1
Eingreiðslur 36 8
Samtals 898 198

Niðurstaða kostnaðarmats er sú að það kostar 898 milljónir kr. á ári að hækka frítekjumark atvinnutekna gagnvart tekjutryggingu og heimilisuppbót í 200.000 kr. á mán. og að fyrir 200 milljónir kr. er hægt að hækka þessi frítekjumörk upp í 125.000 kr.

Hliðarverkun sem vert er að vekja athygli á.

Í bótakerfi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í dag er áveðið vandamál sem oft er kallað „fall á krónunni“. Það er til komið vegna þess að ef réttur til örorku- eða endurhæfingarlífeyris fellur niður vegna tekna þá fellur um leið niður réttur til að fá aðra bótaflokka sem tengjast örorkulífeyri þar með talið tekjutryggingu og heimilisuppbót. Í dag er bótakerfið þannig að réttur til þessara bótaflokka getur verið umtalsverður þó það vanti aðeins eina kr. í tekjur upp á að réttur til örorku- eða endurhæfingarlífeyris falli vegna tekna. Þannig getur einnar kr. hækkun tekna leitt af sér að viðkomandi missir umtalsverðan rétt til bóta tengdum örorkulífeyri. Þessi upphæð sem hægt er að fá í tekjutryggingu og heimilisuppbót er hæst ef um er að ræða atvinnutekjur vegna þess að það er nátt frítekjumark vegna þeirra gagnvart tekjutryggingu og heimilisuppbót en ekki gagnvart örorku- eða endurhæfingarlífeyri.

AF þessum ástæðum er staðan sú að ef frítekjumark tekjutryggingar og heimilisuppbótar er hækkað en ekki á sama tíma gerðar neinar ráðstafanir til að hækka þá upphæð tekna sem leiðir til þess að réttur til til örorku- eða endurhæfingarlífeyris fellur niður vegna tekna þá eykur það þennan vanda og hækkar þá upphæð sem getur fallið niður vegna einnar kr. hækkunar á tekjum. Það verður þá til þess að fjölga þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem lenda í því í uppgjöri að skuld þeirra vegna þess að tekjur reyndust hærri en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun sé hærri en nemur muninum á raunverulegum og áætluðum tekjum auk þess sem þær upphæðir sem viðkomandi þarf að endurgreiða hækka.

Taflan hér fyrir neðan sýnir hversu há upphæð tekjutryggingar og heimilisuppbótar verður hjá örorku- og endurhæfingalífeyrisþegum sem einungis hafa atvinnutekjur og upphæð þeirra er einni kr. lægri en þarf til að réttur til örorku- eða endurhæfingalífeyrisins fellur niður vegna tekna fyrir og eftir að frítekjumark er hækkað upp í 200.000 kr. á mán.

Frítekjumark atvinnutekna 109.600 200.000 Hækkun
Örorkulífeyrir 1 1 0
Aldurstengd örorkuuppbót 0 0
Tekjutrygging 83.759 118.428 34.669
Heimilisuppbót 12.608 24.324 11.716
Samtals 96.368 142.753 46.385

Línuritið hér fyrir neðan sýnir bótarétt örorkulífeyrisþega sem varð fyrst öryrki 40 ára gamall ef hann er einungis með atvinnutekjur.

Mynd 1 - Línurit. Örorkulífeyrisþegi sem býr einn og varð fyrst öryrki 40 ára

Taflan hér fyrir neðan sýnir hvaða bótarétt örorku- og endurhæfingalífeyrisegar hafa í tekjutryggingu og heimilisuppbót auk orlofs- og desemberuppbóta þegar eina kr. vantar upp á að réttur til örorku- eða endurhæfingarlífeyris fellur niður vegna tekna.

Til viðbótar við þetta er uppbót vegna reksturs bifreiðar háð því að réttur til lífeyris sé til staðar.

Staðan er því sú að ef áhugi er fyrir því að hækka frítekjumark atvinnutekna þá þurfa menn annað hvort að vera tilbúnir til að sætta sig við þessa hliðarverkun þeirrar ákvörðunar eða fara líka út í aðrar aðgerðir sem annað hvort í það minnsta auka ekki vandann eða jafnvel eyða honum. Ef vilji er til að velja seinni kostinn það er að fara út í aðgerðir sem minnka eða eyða þessu vandamáli þá þarf að velja milli þess að fara út í aðgerðir sem auka kostnaðinn enn meira eða vera tilbúnir til að sætta sig við að aðgerðirnar lækki bótarétt ákveðinna hópa frá því sem nú er.

Það er hægt að velja leiðir til að minnka eða eyða alveg þessum hliðarafleiðingum sem koma nokkurn veginn út á núlli fyrir ríkissjóð en valda því að bótaréttur sumra hækkar en lækkar hjá öðrum. Ef aðgerðin má ekki leiða til þess að bætur lækki  hjá neinum er ekki hægt að forðast þessar hliðarafleiðingar án þess að það hækki kostnað ríkissjóðs umfram það sem hækkun frítekjumarksins eitt og sér gerir.

Kostnaður við innleiðingu.

Þessi breyting á bótakerfinu kallar einungis á breytingar á kerfisföstum og því er kostnaður við þá breytingu að meðtöldum kostnaði við kynningu á breytingunn áætlaður um 1,5 milljónir kr.

Heimild: Tryggingastofnun ríkisins

Tekið saman af Hauki Eggertssyni og Sigurði M. Grétarssyni