Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Mál nr. 39-2021 Drög að frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum

By 16. mars 2021september 1st, 2022No Comments

Félagsmálaráðuneytið

24. febrúar 2021

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (barnaverndarþjónusta, umdæmisráð barnaverndar, samþætting o.fl.), mál nr. 39/2021.

ÖBÍ fagnar því að nú standi yfir vinna við heildarendurskoðun á barnaverndarlögum enda er það nauðsynlegur þáttur í því að stefna stjórnvalda um samþættingu þjónustu við börn verði raungerð. Með þessu frumvarpi eru stigin fyrstu skrefin í þá átt og mikilvægt er að næstu skref verði stigin sem fyrst til að tryggja hagsmuni barna.

ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

Barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar

ÖBÍ er sammála þeirri stefnubreytingu að hverfa eigi frá því að pólitískar áherslur ráði því hverjir veljist til ákvarðanatöku í barnaverndarmálum. Sú breyting að umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu skuli vera í það minnsta 6.000 íbúar er framfaraskref og er til þess fallið að börn og fjölskyldur fái réttláta málsmeðferð til að mynda í fámennum sveitarfélögum. ÖBÍ styður þá kröfu sem sett er fram í frumvarpinu um fagmenntun og reynslu aðila sem sitja í umdæmisráðum enda mikilvægt að velja vel í þessar stöður þar sem oft eru teknar ákvarðanir sem varða framtíðarhagsmuni barna.

Réttindi barna við meðferð barnaverndarmála

Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að í gildandi barnaverndarlögum sé að finna ýmis ákvæði um réttindi barna, t.d. mat á því sem er barni fyrir bestu og þátttöku barna við meðferð barnaverndarmála og er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sérstaklega nefndur. Afar jákvætt er að í frumvarpinu sé lögð áhersla á rétt barna til þátttöku. Með þátttöku er jafnt átt við að hlustað sé á skoðanir barns sem og að barn fái upplýsingar um mál sitt á þann hátt sem aldur og þroski gefur tilefni til. ÖBÍ leggur til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF) sé einnig hafður til hliðsjónar við heildarendurskoðun á barnaverndarlögunum enda tiltekur hann enn frekar réttindi fatlaðra barna. Einnig er mikilvægt að sérstaklega sé tekið fram að barn fái upplýsingar á því formi sem hentar best til að tryggja að fötluð börn sem t.d. nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir fái upplýsingar um sín mál.

Í 3. mgr., 7.gr., SSRF segir „aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika“.

Úrræði vegna ófæddra barna
Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði sérstakt ákvæði í lögræðislögin um sjálfræðissviptingu barnshafandi einstaklings þar sem mat á nauðsyn sviptingar taki mið af hagsmunum ófædds barns. ÖBÍ vill koma því á framfæri að ákvæðið eins og það er sett fram í frumvapinu er of vítt orðað, t.a.m. „[…vegna lífernis, háttsemi eða aðstæðna foreldra]“. Ákvæðið þarf jafnframt að vera skýrara. Mikilvægt er að kveðið verði á um að tiltekin sjálfræðissvipting falli niður við fæðingu barns.

Ekkert um okkur, án okkar!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
Formaður ÖBÍ