Skip to main content
Málefni barnaUmsögn

Skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn

By 22. nóvember 2022nóvember 23rd, 2022No Comments

„ÖBÍ telur nauðsynlegt að hagsmunasamtök fatlaðs fólks eigi sæti í starfshópnum til að koma hagsmunum fatlaðra og langveikra barna á framfæri.“

 

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn, þingskjal 153 – 96. mál.

 

ÖBÍ styður þingsályktunartillöguna og vonast til þess að hún verði samþykkt.

ÖBÍ tekur undir umsögn umboðsmanns barna og er sammála því að endurskoða þurfi réttindi fatlaðra og langveikra barna til umönnunar foreldra/forsjáraðila enda segir í 23. grein, 3, tölulið í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, „aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning“.

ÖBÍ er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi og samanstendur af 40 aðildarfélögum sem öll eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa og er samanlagður félagafjöldi þeirra um 47.000 manns. ÖBÍ fagnar því að fá umsagnarbeiðni um þingsályktunartillöguna og að vera talið upp ásamt þeim aðilum sem lagt er til að fái sæti í starfshópnum. ÖBÍ telur nauðsynlegt að hagsmunasamtök fatlaðs fólks eigi sæti í starfshópnum til að koma hagsmunum fatlaðra og langveikra barna á framfæri.

Af gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF), enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur

 


Umsögn ÖBÍ, 22. nóvember 2022. Skipun starfshóps um rétt til að annast veikt eða slasað barn. 96. mál.

Sjá nánar um málið á vef Alþingis