Skip to main content
Frétt

„Ég horfi á rokið sem vin minn“

By 1. október 2021maí 4th, 2023No Comments
Kristinn Vagnsson skíðagöngumaður hefur frá unga aldri verið virkur í hreyfingu og íþróttum. Eftir vangreiningu læknis og aðgerð fyrir áratug gengur Kristinn við hækjur. Hann ákvað að finna leið til hreyfingar og útiveru og fann ástríðu sína í nýrri íþróttagrein. Kristinn hefur rekið sig á hverja hindrunina af annarri, en lætur mótvindinn ekki á sig fá og stefnir á Ólympíuleikana í febrúar 2022 þótt tíminn sé naumur og vinni ekki með honum.

„Ég horfi á rokið sem vin minn,“ segir Kristinn þegar hann lýsir æfingaleið sinni. „Æfingasvæðið er á Völlunum í Hafnarfirði, 1,5 km. Á laugardögum þegar enginn er að vinna þarna fer ég yfirleitt hring sem er 2,5-4,5 km eða samtals 22 km, jafnvel út að Hvaleyrarvatni sem er 3,5 km og stundum upp Krýsuvíkurveg líka ef það er engin umferð. Þetta er mjög gott æfingasvæði af því það er alltaf rok þarna. Margir æfa sig með því að draga dekk á eftir sér, en þú æfir á svæði þar sem er alltaf rok ertu í raun alltaf með dekkið. Ég horfi á rokið sem aðstoðarþjálfara, það eru ekki allir sem myndu gera það.“

Kristinn er fæddur 1962 á Akureyri, en uppalinn í Hafnarfirði. Á æskuárunum var hann mikið í körfubolta og fótbolta, og síðan í hestamennsku. „Ég var í henni í mörg ár, bæði tamningu og þjálfun, síðan þegar börnin fóru að koma í heiminn, hætti ég í hestamennskunni enda dýrt sport. Þá sneri ég mér að hlaupum og var aktívur í þeim í fjölda ára.“

Kristinn á skíðagönguhjólinu með hjálm og gönguskíðastafi

Þegar Kristinn var 42 ára og stundaði nám í markaðshagfræði í Danmörku fór hann að finna fyrir pirringi og verkjum í fótum. Læknir sem hann leitaði til ytra taldi eitthvað vera að, og að sögn Kristins var því meðal annars velt upp hvort hann væri með MS-sjúkdóminn og lagði læknirinn til að fylgst yrði með framhaldinu. „Síðan gekk þetta til baka og ég flutti heim til Íslands aftur og byrjaði að vinna. Verkirnir byrjuðu síðan aftur og ágerðust mjög hratt. Ég leitaði til læknis hér heima á heila- og taugaskurðlækningadeild Borgarspítalans, sem tók myndir og var hann síðan mánuðum saman að klóra sér í hausnum yfir hvað gæti verið að. Hann var með ýmsar vangaveltur, en vissi í raun aldrei neitt og má segja að hann hafi aldrei gefið sér tíma til að skoða málið til hlítar,“ segir Kristinn sem segist geta verið vitur eftir á, hann hefði átt að leita álits hjá öðrum lækni. Eftir endalausar fyrirspurnir og ýtni frá Kristni sendi læknirinn myndirnar loksins út til sérfræðinga á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í Svíþjóð. „Myndirnar voru teknar fyrir á fundi lækna og sérfræðinga þar, mér skilst að hafi verið 8-10 manns á fundinum, og þeir sáu strax hvað var að og þarna hefðu læknamistök eða vangreining átt sér stað. Rétt greining kom loksins í ljós með hópefli ef svo má segja, mér skilst að svona fundir séu haldnir þarna vikulega og þetta er verklag sem má taka upp hérlendis,“ segir Kristinn, sem kominn var á hækjur á þessum tíma. „Það sem var að mér er mjög sjaldgæft, háþrýstiæð í mænugöngunum sem þurfti að loka áður en hún færi upp mænugöngin. Þetta er ekki mænuskaði, en það voru komnar taugaskemmdir. Æðin var neðst í spjaldhryggnum, þess vegna geng ég með hækjur af því hnén halda ekki líkamanum. Þegar ég fór í aðgerðina gat ég ekki staðið upp og var kominn í hjólastól, þannig að taugaskemmdirnir gengu til baka að hluta.“

Tímasetningin á greiningunni var Kristni þó ekki í hag, þar sem sumarfrí voru í júlí, og fór hann því ekki í aðgerð fyrr en um haustið. „Ég var sendur of seint í aðgerð og í raun var því bjargað sem bjarga mátti. Tíminn tikkar hratt í svona aðstæðum, og það má hugsa sér að ef ég

hefði verið sendur út strax um vorið væri ég væntanlega hlaupandi í dag, fimm mánuðum seinna væri ég látinn,“ segir Kristinn þó án allrar biturðar yfir sinni stöðu, en það er jafnframt kaldhæðni að þetta var í fyrsta skipti sem Kristinn leitaði sér læknisaðstoðar að ráði.

„Ég er bara fórnarlamb heilbrigðiskerfisins og anna og álags sem er hjá læknum, minn læknir gaf sér aldrei tíma til að skoða málið til hlítar. Þannig geta svona vangreiningar orðið og ekkert í vinnuferli Landspítalans sem segir að læknir eigi að leita sér aðstoðar hjá öðrum sérfræðingum, líkt og þeir gera með fundunum í Svíþjóð. Ég mætti mikið í rannsóknir og viðtöl hjá mínum lækni, en ég skora á alla þá sem fá ekki svör frá sínum lækni að finna sér annan lækni. Maður er með eigið líf og heilsu í húfi. Ég trúi því staðfastlega að heilbrigðisstarfsfólk vilji allt vel, enda eigum við frábært fólk þar, en umgjörðin er orðin löskuð og vinnuálag mikið sem veldur því að svona hlutir gerast. Þannig að það er við kerfið að sakast en ekki fólkið.“

 

Ekkert sem grípur mann við áfall

Eftir aðgerðina kom Kristinn heim og fór í endurhæfingu á Grensás. Hann segir að honum hafi í fyrstu ekkert fundist að sér og einstaklingar sem lenda í áföllum átti sig ekki á breyttri stöðu sinni strax. Kristinn segir mikilvægt að eitthvað kerfi grípi fólk sem lendir í sömu stöðu og hann, en slíkt hafi ekki verið þá og sé ekki enn í dag.

„Menn þurfa áfallahjálp þegar þeir lenda í slysum og áföllum. Á Grensás sagði sálfræðingurinn mér að ef ég þyrfti að tala við hann þá vissi ég hvar hann væri. Auðvitað fannst mér ekkert að mér fyrst og raunveruleikinn kemur ekki fyrr en eftir á hjá fólki. Það kemur fyrst sú hugsun að þú ætlir að lagast, síðan sjálfsafneitun og þú ferð að kenna öðrum um. Sem gerðist reyndar ekki hjá mér þar sem ég áttaði mig mjög fljótlega á hvernig var og reyndi að gera gott úr stöðunni þótt tæki tíma hjá mér að rífa mig upp. Það er mjög mikilvægt þegar einstaklingar lenda í áfalli hvort sem það er vegna læknamistaka, bílslyss eða annars slyss, að tekið sé á móti þeim og hvernig þeir ætla að koma sér út í lífið aftur. Og eitt af því er að stunda hreyfingu og þá þarf að skoða hver hún eigi að vera og hvaða tæki þeir þurfa. Ég hef lent í því að maður þarf að finna hjólið upp alls staðar í kerfinu, og það þurfa allir að gera það hver fyrir sig.“

Hvernig er fyrir fílhraustan aktívan mann að lenda í svona áfalli? „Maður er alltaf með von í brjósti og ég held að allir sem lenda í mænuskaða, slysum og í hjólastól fari út í lífið með því hugarfari að þeir ætli að ganga aftur. En það voru mikil viðbrigði að vera aktívur einstaklingur sem er úti að hlaupa og ganga á fjöll, fara á Hvannadalshnjúk og ganga Laugaveginn, og geta það svo allt í einu ekki. Þetta er ákveðið áfall að lenda í og því miður er ekkert sem grípur mann,“ segir Kristinn sem komst úr hjólastólnum og notar hann í dag aðeins þegar hann fer lengri vegalengdir og til útlanda. „Ég nota hækjur dagsdaglega, en ég er verkjalaus, ég er heppinn með það. Margir sem sjá mig spyrja af hverju ég sé á hækjum af því ég líti út fyrir að vera fullfrískur og heilbrigður.“

 

Fann sportið með gúgli

Kristinn fór að lesa sér til um og leita á netinu að hreyfingu sem myndi henta honum til útivistar og hreyfingar. Fyrst keypti hann sér svokallað racer-handahjól frá Bandaríkjunum. „Það er frekar lágt og ég byrjaði á því en fannst þetta hryllilega leiðinlegt sport, seldi hjólið og keypti mér fjallahandahjól og þá fyrst fóru hlutirnir að gerast. Á hjólinu get ég farið á slóða upp í fjöll, í Heiðmörk og fleira. Á hjólinu er lítið batterí sem hjálpar mér upp erfiðu brekkurnar, en svona fæ ég ferskt loft og góða hreyfingu í náttúrunni í stað þess að vera alltaf á malbikuðum stígum inni í borg,“ segir Kristinn. Eftir að hafa keyrt eiginkonu sína á æfingar í Bláfjöllum fyrir Landvættina, ákvað Kristinn að leita sér frekari upplýsinga. „Ég skildi lítið í hvernig fólk nennti að vera í skítakulda og öllum veðrum að skíða hring eftir hring og fannst fínt bara að bíða í bílnum og vera á Facebook. Svo keyrði ég konuna einn daginn í þessu flotta og fallega veðri, og þá fór ég að hugsa hvernig ég gæti farið á skíði. Og fór að gúgla á netinu og finna hjólið aftur, eins og ég hef alltaf gert í öllu þessu ferli. Ég kynntist manni í Denver í Colorado, sem sérsmíðar skíðastóla og hann gaf mér verð í slíkan. Við hjónin förum út til Bandaríkjanna í frí og hann lauk við að sérsmíða stólinn handa mér og ég keypti mér skíðabretti líka og bretti sem ég set undir skíðastólinn og festi hann á, þannig að ég get æft mig líka á sumrin.“

 

250-300 km mánaðarlega

Eftir að hafa fundið sér íþrótt til að stunda byrjaði Kristinn á að fara á nokkurra daga námskeið í Noregi og segist hafa lært mikið af því, þótt auðvitað hafi hann gert fullt af mistökum í fyrstu. „Ég er í svokölluðum ýtingum á hjólaskíðum, ég geng ekki. Það er keppt í íþróttinni bæði á heimsmeistara- og ólympíumótum. Á námskeiðinu kom í ljós að skíðin sem ég hafði keypt mér voru ekki nógu góð, og ég var ýmist með of litla eða of stóra skíðastafi. Síðan kom ég heim og hef haldið áfram að æfa mig og vinur minn, Óskar Jakobsson í Sportval, hefur verið minn þjálfari.“

Heimsfaraldur hefur haft afleiðingar fyrir Kristin, æfingar hans að hluta og að komast til útlanda í mat sem nauðsynlegt er til að geta keppt á Ólympíuleikum. „Ég fór lítið á æfingar síðasta vetur, bæði var lokað að hluta vegna COVID og Bláfjöll voru ekki fyrir mig, þar sem þar var lítill snjór og mikill klaki, sem er slæmur fyrir mig. Vegna COVID komst ég heldur ekki utan í mat á vegum Ólympíusambandsins. Það eru 2-3 sérfræðingar erlendis sem eru með réttindi sem sjá um matið og það er yfirleitt gert þegar keppnir eru fram undan. Ég er búinn að fara í format hér heima sem þarf síðan staðfestingu á. Þannig að ég er óflokkaður ennþá þótt ég hafi æft íþróttina í að verða þrjú ár. Síðan átti ég að fara í mat núna í haust, en þá kom fjórða bylgja COVID og maður veit ekki hvað verður. Ef ég kemst ekki í matið er það enn eitt árið sem ég kemst ekki í keppni erlendis. Ólympíu- og íþróttasamband fatlaðra er svolítið að læra þetta ferli eins og ég, sem þeir vilja svo sannarlega gera, en það má ekki vera of dýrt, þar sem fjármagn félagsins er ekki mikið og greiðslur frá ríki og sveitarfélögum ekki háar upphæðir,“ segir Kristinn, sem heldur þó ótrauður áfram æfingum.

„Ég fer 250-300 km á mánuði á hjólaskíðum. Ég er orðinn grjótsterkur og tæknilega góður og allt annar en ég var í fyrra og allt annar en í hittifyrra. Þessi íþrótt er ekki þannig að maður setjist bara og byrji að ýti sér áfram. Ég hef lesið mér mikið til og lært og gert fullt af mistökum og má segja að ég sé sá aðili á Íslandi sem er með langmestu þekkinguna á þessu sporti og sá eini sem hef æft hana markvisst hér heima. Þetta er góð íþrótt fyrir alla sem eru hreyfihamlaðir, eru með gervilimi, annaðhvort einn eða tvo, margir sem eru í þessari íþrótt eru með krankleika eins og skert jafnvægisskyn, þannig að það er fullt af möguleikum fyrir hreyfihamlaða að stunda þessa íþrótt. Fólk þarf bara að vilja það og þekkingin er til staðar hjá mér. Íþróttin er mikil tækniíþrótt og það er til mikið af upplýsingum erlendis um hvernig eigi að gera hitt og þetta, en á sama tíma er gríðarlega mikil samkeppni í þessu sporti, þannig að það vill enginn deila upplýsingum með öðrum og hjálpa. Ég hef sent tölvupóst á marga góða íþróttamenn í Bandaríkjunum sem svara bara með „no comment“ af því þeir vilja ekki samkeppni þegar kemur að íþróttinni sem keppnisíþrótt.“

Kristinn er með skíðavél heima, sem hann notar þegar er vont veður og ekki viðrar til útiæfinga. „Ég tek 10-15 km virka daga í æfingu. Á laugardögum tek ég lágmark hálfmaraþon. Stundum tek ég rólegar æfingar og stundum sprettæfingar, svona púlsæfingar. Ég er oftast einn enda að æfa á þannig tíma, en stundum er þjálfarinn með mér eða eiginkonan, en hún er minn aðalstuðningsaðili.“

Meðalaldurinn í íþróttinni er hár og mun hærri en í mörgum öðrum, og nefnir Kristinn að margir íþróttamenn hætta í sinni íþrótt um þrítugt og teljast orðnir gamlir. „Ég hlæ bara að þessu, ég er 58 ára og er að komast í besta form sem ég hef verið í og ég er viss um að margir yngri þyrftu að gera sitt allra besta til að hafa í við mig í keppni. Ég held að þetta sé spurning um hugarfarið og ef þú heldur líkamanum við kemstu lengra en ella. Þetta snýst ekki um aldur, í sportinu sem ég er í er betra að vera eldri. Ég er ekki að segja að þeir sem eru yngri eigi ekki að fara í þessa íþrótt, en hún er langhlaup. Meðalaldurinn er mjög hár og menn að toppa milli 40-60 ára. Það eru margir sem eru í þessu sporti og margir góðir sem hafa æft í mörg ár, það tekur tíma að ná tækni og vöðvamassa til að stunda íþróttina. Þú þarft að borða rétt og æfa rétt og þarft að vera duglegur í æfingum á sumrin. Ég hef tekið sjö hálfmaraþon í sumar og óteljandi 10 og 15 km. Ég hef skipt um stafi, hækkað og lækkað stafi til að fá þá í rétta hæð. Maður á ekki að nota axlirnar, heldur maga og hendur eða skrokkinn þar fyrir neðan eftir hvaða lömun einstaklingurinn er með, stólinn er smíðaður líka eftir því. Ég er í mínum stól eins og ég krjúpi, meðan aðrir eru meira sitjandi og fastir í stólnum. Þeir sem eru með gervilimi á fótum eru með svipaðan stól og ég,“ segir Kristinn.

„Síðan þarf braut í Bláfjöll, sem hentar mér og öðrum sem á þurfa að halda. Braut sem er sambærileg keppnisbrautum erlendis. Ólympíu- og íþróttasamband fatlaðra er að fá upplýsingar um slíkar brautir erlendis frá og síðan förum við í samtal um að slík braut verði gerð í Bláfjöllum og vonandi kemur hún með góðum þrýstingi. Það er búið að setja upp stæði þar fyrir fatlaða og verið að byggja salernishús sem er búið að berjast fyrir lengi, áður voru bara kamrar á kerrum. Þannig að það er allt til bóta þar, góðir hlutir gerast hægt.“

 

Umræðan jákvæð, kerfið segir nei

Þótt Kristinn hafi nefnt í upphafi að rokið sé vinur hans þegar kemur að æfingum, þá er eilífur mótvindur þegar kemur að samskiptum við kerfið, endurgreiðslu á hjálpartækjum og styrkjum. Kristinn hefur reynt sitt í þeim samskiptum, en segist hreinlega ekki nenna að eyða tíma eða orku í að fara með þá baráttu alla leið.

„Maður heyrir að það sé vilji fyrir því í samfélaginu að allir stundi hreyfingu, hvort sem um er að ræða fullheilbrigða einstaklinga eða hreyfihamlaða. Ég er búinn að sækja um endurgreiðslu á stólnum og fleira í gegnum Sjúkratryggingar Íslands, en fæ neitun. Samkvæmt lögum er aðeins endurgreitt eða styrkt vegna þess sem þarf nauðsynlega til að hreyfihamlaður einstaklingur komist til og frá, eins og hjólastólar sem fólk fær eru bara til að fara milli staða, ekki til hreyfingar. Svarið er alltaf nei með allt sem tengist hreyfingu og er íþróttatengt,“ segir Kristinn og segir að hér þurfi breytingu á. Hins vegar hafi Öryrkjabandalag Íslands krafist slíkra breytinga í mörg ár og ekkert breytist.

„Ísland er aftarlega á merinni hvað þetta varðar og ráðamenn þjóðarinnar mega bara skammast sín. Við viljum alltaf bera okkur saman við aðrar þjóðir og vera sambærilegar þeim, en það er bara hentistefna hvað við viljum miða okkur við og bara þegar það sýnir okkur í góðu ljósi. Það má segja að ég búi í röngu landi, því í Noregi er það til dæmis þannig að ef þú þarft tæki vegna hreyfingar þá er það greitt og engu máli skiptir hvort þú stundaðir hreyfingu eða íþrótt áður eða ekki. Þar færðu vottorð frá lækni um að þú sért hreyfihamlaður og færð þá tæki sem hentar þér til að vera úti í náttúrunni, stunda hreyfingu eða íþrótt, hvort sem það er einn eða með öðrum, og allt til að auka lífsgæði þín. Minn stóll er þannig að ég tek hann af brettinu og set hann á skíðin á veturna. Í Noregi hafa þeir framleitt stóll til að nota bara yfir sumarið og er fyrir alla sem þurfa slíkan stól. En þar sem hann er notaður til útivistar og íþróttaiðkunar fæ ég neitun, þar sem lögin veita ekki heimild til endurgreiðslu. Ég hef fjármagnað allt mitt sjálfur, stólinn, handahjólin, skíðin, skíðastafi og fleira og aldrei fengið krónu endurgreidda eða fengið styrki neins staðar. Ég sótti um styrk hjá Icelandair og fékk svar um að þeir styrki bara HSÍ og KSÍ, þannig að ég kaupi bara flugmiða eins og allir aðrir og keppi erlendis á minn kostnað.“

Það eru ekki allir sem eru í þeirri stöðu að geta keypt sinn eigin búnað og hjálpartæki sjálfir, og oft sést á samfélagsmiðlum eða annars staðar að vinir og ættingjar setji af stað söfnum fyrir hreyfihamlaðan einstakling. Kristinn segir það leitt að einhverjir leiti þessara leiða og segist sjálfur aldrei munu setja af stað söfnun fyrir sig og ítrekar að hér eigi ríkið að stíga inn í, breyta lögum og greiða hjálpartæki fyrir þá sem óska eftir þeim og þurfa á þeim að halda.

„Allir sem ég hef hitt og hef talað við eru sammála um að ríkið eigi að taka þátt í svona, það eru allir sammála um það nema ríkið sjálft. Ég hef ekki hitt neinn sem er á móti því að hreyfihamlaðir hreyfi sig úti og njóti lífsins eins og aðrir. Kannski er sá einstaklingur til sem er á þeirri skoðun, ef svo er þá er hann bara lasinn í hausnum,“ segir Kristinn og segist aldrei verða var við að einhverjum finnist samfélagið ekki eiga að taka þátt í slíkum kostnaði fyrir hreyfihamlaða og fatlaða. „Öllum finnst þetta furðulegt, sérstaklega þegar við erum alltaf að miða okkur við aðrar þjóðir. Þetta sýnir okkur í slæmu ljósi og það er búið að berjast fyrir því í áraraðir að þetta verði lagað. Það hafa margir reynt að fá endurgreiðslu en öllum verið neitað. Þetta á ekki að vera svona í íslensku samfélagi í dag og heldur ekki að fólk þurfti að gráta í einhverjum fyrirtækjum til að fá styrki eða standa fyrir söfnun á samfélagsmiðlum. Þetta er bara til háborinnar skammar og það árið 2021. Alþingi og embættismannakerfið eiga að sjá sóma sinn í að breyta lögum,“ segir Kristinn.

„Það hefur sýnt sig að hreyfihamlaðir ná betri árangri á mótum erlendis en ófatlaðir, það er bara staðreynd. Og samt er búnaður sem þeir þurfa að kaupa miklu dýrari. Að kaupa hlaupaskó er ekki dýrt, en aðrir hlutir eru sérsmíðaðir erlendis og þarf að flytja heim og þegar einstaklingur er á örorkubótum hefur hann ekki alveg peningana í það og það veldur því að það eru ekki margir sem að keppa. Þó að leiðinlegt sé að segja það, eru fjárútlátin gríðarleg. Svo fer einstaklingur í keppni, kemur með verðlaun heim og þá vilja allir eiga hann og ráðherrar taka í hendina á honum. En fram að því vill enginn taka þátt í að gera einstaklinga að íþróttamönnum, hvort sem þeir eru hreyfihamlaðir eða ekki. Þess vegna hætta margir að keppa af því fólk vill bara eiga líf, kaupa sér íbúð og bíl, en hefur ekki efni á því af því það eru engir styrkir eða laun í boði fyrir afreksfólk. Þú getur ímyndað þér hvað eru margir hreyfihamlaðir í samfélaginu sem gætu orðið frábærir íþróttamenn ég er handviss um það.“

 

Ætlar ekki að eyða orku í vonlausa baráttu

Aðspurður um hvort hann hafi kvartað yfir neitunum Sjúkratrygginga Íslands til Umboðsmanns Alþingis eða gæti hugsað sér að fara með mál sín lengra, jafnvel dómstólaleiðina, svarar Kristinn neitandi. „Ég bara hreinlega nenni ekki að standa í þessari baráttu sem er fyrirfram töpuð af því virðist enginn áhugi eða vilji til að breyta þessu í kerfinu. Þessi hópur sem myndi sækja um svona hreyfitæki er ekki það stór að ríkið færi á hausinn. Þetta eru ekki þannig upphæðir. Og auk þess tæki sem nýtast einstaklingum um ókomin ár. Okkur vantar Umboðsmann öryrkja hér á landi. Það var kona sem kvartaði til Umboðsmanns Alþingis eftir að hafa fengið neitun um greiðslu hjálpartækis. Úrskurðað var að neitunin hefði ekki verið í samræmi við lög og setti umboðsmaður ofan í við ráðuneytið og taldi að breyta ætti lögunum. Það er þó enginn vilji til breytinga þrátt fyrir þessa aðfinnslu umboðsmanns. Ég er hræddur um að embættismannakerfið leyfi þessa mismunum, fyrst og fremst vegna fordóma. Samt er öllu fögru lofað fyrir kosningar, meðal annars í málefnum fatlaðra og hreyfihamlaðra, svo er það svikið daginn eftir kosningar. Ef lögunum væri breytt og hjálpartæki greidd eða niðurgreidd, má horfa á móti til þess að fólk þarf minni lyf og nær jafnvel að stunda vinnu að hluta eða öllu leyti, og þannig er það ódýrara fyrir samfélagið í heild. Það er búið að stórauka framlög til stjórnmálaflokka, sem virðist einfalt og allir sammála um, en svo þegar á að setja pening í að styrkja íþróttir og hreyfingu hreyfihamlaðra eru engir peningar til. Þetta er bara til háborinnar skammar,“ segir Kristinn.

„Ég einbeiti mér að minni íþrótt og skoða hvað ég get gert, hvort ég þurfi að flytja til útlanda til að stunda sportið. Ég er bara að hugsa minn gang, því þótt Ólympíu- og íþróttasamband fatlaðra standi sig vel á það ekki mikið fjármagn. Kannski ákveð ég bara að draga mig úr sportinu alfarið. Ég er sá eini hérlendis sem hef þekkingu á þessu sporti og ef ég hætti, er það á byrjunarreit aftur. Það vantar fleira fólk og þetta er sannarlega sport sem flestallir geta verið í, sérstaklega þeir sem eru með mænuskaða eða vantar útlimi. Og sportið er frábær útivist. Ég hugsa að Íslendingar gætu orðið framarlega í keppni, það væru kannski 3-5 einstaklingar að keppa á sama tíma. Svo eru ekki allir sem vilja keppa í sportinu, heldur stunda það bara sem útivist og rækt fyrir líkama og sál.“

 

Ef enginn vill ráða mann, hvað þá?

Kristinn er 75% öryrki og ekki í vinnu, hann segist þó hafa fullan áhuga og vilja til að vinna, en eftir að hafa sótt um fjölda starfa í mörg ár og aldrei komið til álita hafi hann hreinlega hætt því. „Það eru fordómar í samfélaginu, mun meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum og því miður er hugarfarið þannig að hvort ræður þú einstaklinginn sem kemur gangandi inn eða þann sem kemur í hjólastól? Þótt ég sé hæfari en margir sem sækja um telst ég ekki gjaldgengur og það virðist ekki áhugi á að ráða mig hvort sem er hluta úr degi eða í ákveðinn tíma. Ég hef meira boðið mig fram í tímabundna vinnu í 6-8 mánuði í einhver ákveðin verkefni eins og til að ná inn einhverjum umboðum, strúktúrera vöruúrval eða eitthvað slíkt, af því ég er bestur í svona lotum, að taka til í fyrirtækjum eða annað, en því miður hefur enginn áhugasamur vinnuveitandi boðið sig fram. Ríkistjórnin talar um að þurfi að gefa hreyfihömluðum og fötluðum fleiri tækifæri, en ef enginn vill ráða þig í vinnu hvað getur þú þá gert?“ segir Kristinn.

Heimsfaraldur hefur sýnt fram á að það er lítið mál fyrir marga starfsmenn að vinna að mestu leyti eða alfarið heima, fyrirkomulag sem myndi henta mörgum hreyfihömluðum vel. „Það sýndi sig að margir geta unnið heima og verið á Zoom-fundum. Ég gæti unnið á þennan hátt og komið á starfsstaðinn til að mynda einu sinni í viku á fund. Það virðist hins vegar þessi gamaldags hugsunarháttur hjá atvinnurekendum að þegar COVID klárast þurfi allir að fara í sama farið aftur og mæta við skrifborðin allan daginn. Ég er með mikla þekkingu á innflutningi og viðskiptum og vann í mörg ár sem markaðsstjóri og sölustjóri. Það er fullt af slíkum störfum til þar sem ég gæti verið mikill fengur fyrir fyrirtæki miðað við þá menntun og reynslu sem ég hef, þótt ég segi sjálfur frá. Það sem ég er bestur í eru erlend viðskipti og má segja að ég sé sérfræðingur í erlendum innkaupum, ég tók aukafag í sérfræðiþekkingu í viðskiptum við Austur-Evrópu og Asíu, að finna vörur og viðskipti þar. Þetta er starf sem hægt er að vinna við skrifborðið heima. En ég hef sótt um það mörg störf að það dregur úr manni að fá alltaf neitun alls staðar.“

 

Gæti orðið „wild-card“

Kristinn stefnir þó ótrauður á keppnir erlendis, eins og áður sagði, og setur markmiðið hátt. „Ég gæti hugsanlega fengið svokallað „wild card“ á Ólympíuleikana núna í febrúar 2022, þó svo að líkurnar á því minnki með hverjum mánuði sem líður. Ég þarf þá að vera búinn með matið, en ef unnið er hratt ætti það að geta klárast í haust. Ég er íþróttamaður að upplagi og mjög metnaðarfullur, ég stefni ekki á að vera bara með og ef þú stefnir ekki á fyrsta sætið þá ertu bara með. Þú átt alltaf að fara í keppnir eða annað með því að einblína á fyrsta sætið, ef ég verð neðar en þriðja sæti verð ég hundfúll. Eins og Muhammad Ali sagði: „Ef þú ferð ekki inn á völlinn til að vinna þá ertu bara með.“

Kristinn nefnir að talið sé að gönguskíði séu þriðja eða fjórða erfiðasta íþróttagrein í heimi og ýtingar á gönguskíðum séu því mjög ofarlega í erfiðleikastigi. „Íþróttin er gríðarlega erfið og krefjandi og einstaklingar þurfa að vera vel á sig komnir og sterkir og einbeittir í að finna sinn stíl og tækni. Þeir sem vilja byrja í sportinu þurfa að taka sér 3-4 ár til að verða góðir. Þetta er ekki eins og hjólreiðar þar sem þú getur unnið þig hraðar upp. Þú þarft að læra gríðarlega tækni og vinna upp jafnvægi, þannig að þetta er ekki svona „easy peasy,“ segir Kristinn og segir að einnig sé mikilvægt að huga vel að mataræðinu.

„Sonur minn sem fór að notast við Macro-mataræðið hjá Inga Torfa Sverrissyni og ég ákvað að prófa það líka. Macros-mataræðið hefur sannarlega gert okkur báðum gott. Þetta hefur hjálpað mér gríðarlega og ég ætla að halda þessu áfram, þetta er hluti af mínum æfingastrúktúr. Ef ég kemst á mót næsta vetur verð ég að hafa næga orku og vera í líkamlegu ástandi. Maður má ekki vera of þungur, það munar hvort þú ert 80 kg eða 100 kg þegar þú ert að ýta þér upp brekkur,“ segir Kristinn, og segist strax hafa séð mikinn mun á sér á fyrstu vikunum. „Ég hef minnkað þvermálið, sem fer sífellt minnkandi, fita að breytast í vöðva, þolið og orkan að aukast. Strax eftir 2-3 vikur var ég kominn úr milli 4-5 í „pace“ í 4,50 og er þá einn á æfingu. Pace er mælieining sem er notuð til að mæla kílómetra á klukkustund bæði í hlaupum og hjólum og 4,50 er um 13 km á klukkustund. Ef ég væri að elta einhvern væri ég hugsanlega kominn niður í 4,0. Strax á annarri viku sá ég meira þol og orkan dugði út æfinguna, áður var það ekki þannig, og ég er líka mun orkumeiri út allan daginn. Get þess vegna farið út að slá garðinn, hjóla eða annað eftir æfingu. Ég borðaði greinilega allt of lítið, nú borða ég nóg og rétt. Macros hjá Inga er eins og bankabók, þú mátt ekki taka of mikið út á hverjum degi af einhverju eins og fitu eða öðru. Þú mátt borða hvað sem er innan ákveðins ramma sem má borða yfir daginn. Þú vigtar allt og slærð inn, eftir ákveðinn tíma þá ertu búinn að læra magnið og þarft ekki að vigta allt lengur. Mesta áskorunin er að fylla upp í próteinþörfina yfir daginn, þú ert mjög snöggur með fituna yfir daginn ef þú leggst í óhollustu. Eins og ef þú myndir leggjast í sælgætið þá klárar þú strax fitu og kolvetni, þá áttu ekkert eftir til að borða annað, þú hefur ekki efni á því. Þú verður að borða jafnt yfir daginn og sykurfall hefur ekki gerst hjá mér í þrjár vikur. Ingi er líka mjög mikill peppari og alltaf til aðstoðar. Macros hefur haft gríðarleg áhrif á mig og þetta hjálpar mér á æfingum. Það er eitt og annað sem leiðir mann áfram í að vera betri íþróttamaður og líða betur, vera í réttri þyngd, nota minni lyf og annað, sem er betra fyrir samfélagið í heild. Þetta vinnur allt saman.“

Texti: Ragna Gestsdóttir. Myndir: Hákon Davíð Björnsson. 

ÁFRAM


Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)

I am raw html block.
Click edit button to change this html