Skip to main content
Frétt

„Eigum að vinna að því á öllum sviðum að fólk fái að njóta hæfileika sinna“

By 1. október 2021No Comments
Harpa Njáls er sérfræðingur í velferðarrannsóknum og félagslegri stefnumótun og hefur gert fjölmargar rannsóknir á velferðarkerfinu. Hún segir norræna velferðarmódelið ekki eins gjöfult í dag og áður en Íslendingar hafi horfið frá því og eigi meira sameiginlegt með frjálslyndisstefnu og skilyrtri aðstoð. Margt þurfi að breytast til að bæta stöðu öryrkja og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.

Harpa hefur rannsakað velferðarkerfið í áratugi. Hvernig kom það til að hún byrjaði á því? „Það má segja að ég hafi haft nokkuð háleitar hugmyndir um velferðarkerfið á Íslandi er ég hóf háskólanám. Síðan kom annað í ljós. Ég gerði ýmsar rannsóknir á námstíma mínum um velferðarkerfið og réttindi fólks. Ég þekkti ýmislegt frá fyrri tíð og það var mér ákveðið áfall að sjá hver staða t.d. öryrkja var og að umönnunarstörf á vinnumarkaði væru enn jafnilla launuð og fyrr. Að fólk hefði hvorki lífeyri né lágmarkslaun sem dugðu fyrir framfærslu. Velferðarkerfið á Íslandi var goðsögn. Á hinn bóginn var mýtan sú að allir gætu haft það gott sem nenntu að vinna; það væri vegna persónulegra vankanta, drykkjuskapar, leti og fleira ef fólk byggi við fátækt. Hér áttu allir að geta haft það gott. En svo var ekki.“

Ekki aftur snúið

Harpa lauk BA-prófi í velferðarrannsóknum, afbrotafræði og félagslegri stefnumótun árið 1998. Í náminu rannsakaði hún meðal annars fátækt í velferðarsamfélagi þar sem hún bar Ísland saman við önnur Norðurlönd og Bretland. „Ég velti því fyrir mér hvernig hægt væri að mæla fátækt, m.a. hvort lífeyrisgreiðslur og laun fyrir umönnunarstörf á láglaunavinnumarkaði dygðu til lágmarksframfærslu.“

Hún segist sjálf hafa tengt við margt. „Ég var með lífsreynslu og þekkingu sem opinberaði fyrir mér fátækt og stöðu fátækra. Þegar ég lauk starfi við tilraunaverkefni í innanlandsaðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar 1998 og 1999, eftir ótalin viðtöl við fátækt fólk sem barðist í bökkum, áhyggjur þess og angist, var ekki aftur snúið. Það varð mín ástríða að leita svara, finna brotalamir, skilja hvar þær voru, hvers vegna fólk gat ekki lifað af launum og lífeyri sem velferðarsamfélagið greiddi. Það leiddi mig í rannsókn á kjörum og aðstæðum öryrkja, þ.e. þjónustumatsskýrslu, og MA-nám þar sem við tóku yfirgripsmiklar rannsóknir á fátækt.“

Í byrjun 10. áratugarins voru lágmarkslaun og örorkulífeyrir nánast sama krónutala. Hvernig skyldi hafa staðið á því? „Í rannsókninni um fátækt á Íslandi leitaði ég svara. Í ljós kom að árið 1971 var það ákvæði sett í lög um almannatryggingar (nr. 67/1971) að upphæðir lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar fylgdu upphæðum lágmarkslauna á vinnumarkaði. Ég tók þetta út árið 1994 og niðurstaðan var sú að lágmarkslaun fimm stéttarfélaga, lífeyrir og viðmið félagsþjónustu var nánast sama krónutala. Það sagði mér fólk sem sat við samningaborð um kaup og kjör, að illa hefði gengið að hækka lágmarkslaunin þar sem því fylgdi hækkun á lífeyrisgreiðslum. Þetta er að mínu mati forsenda láglaunastefnu stjórnvalda. Árið 1995 eru þessi tengsl rofin. Frá árinu 1994 til 2000 hækkuðu lægstu laun um 76,8% og grunnlífeyrir og tekjutrygging um rúm 40%. Þegar staða þessara hópa var tekin út árið 2000 og tekjur metnar út frá lágmarks framfærsluviðmiði vantaði lífeyrisþega 32,8% til að örorkulífeyrir dygði til lágmarksframfærslu og staðan heldur skárri hjá láglaunafólki. Þróunin til ársins 2011 var svo sú að laun á láglaunavinnumarkaði dugðu ekki til framfærslu og 20,6% vantaði upp á að óskertur örorkulífeyrir dygði til lágmarksframfæslu 2011.“

Er norræna velferðarmódelið goðsögn?

Harpa segir niðurstöður rannsóknar hennar, Fátækt á Íslandi, hafa sýnt fram á að Ísland var á pari við önnur Norðurlönd varðandi velferðarútgjöld í kringum 1950, sérstaklega Noreg og Finnland. „Það hélst nokkurn veginn til 1960 en Svíþjóð og Danmörk vörðu umtalsvert meiru til velferðarkerfisins. Ísland hafði dregist mikið aftur úr öðrum Norðurlöndum árið 1980 og hélst sá munur. Um miðjan 10. áratuginn og til ársins 2003 drógust svo útgjöld til velferðarmála umtalsvert saman hjá Svíþjóð, Noregi og Finnlandi en Danir héldu sínu framlagi. Það sama gilti um framlag til barnafjölskyldna í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi en Danmörk hélt framlagi sínu vegna barnafjölskyldna nokkurn veginn. Frá 1993 til 2017 drógust útgjöld Svíþjóðar til velferðarmála saman um hátt í 16% af VLF. Allt eru þetta staðreyndir um norræna velferðarkerfið. Af þessum tölum er ljóst að breytingar eru og hafa verið í gangi varðandi norræn velferðarkerfi.“

Er norræna velferðarkerfið ef til vill goðsögn? „Framansagt styður það að svo geti verið. Norræna velferðarkerfið er ekki eins gjöfult í dag og það var áður. Ljóst er að tekjutenging og ýmiss konar skerðingar hafa í auknum mæli verið teknar upp á öðrum Norðurlöndum. Þar hefur framlag til velferðarkerfisins verið skorið niður og einnig framlag þessara landa til barnafjölskyldna, að Danmörku undanskilinni. Það vekur áleitnar spurningar. Ljóst er að Noregur og Svíþjóð hafa allt frá árinu 1993 skorið mjög niður útgjöld til velferðarmála. Það er talað frjálslega um að öryrkjar í þeim löndum geti bætt við sig ómældum tekjum á vinnumarkaði og haldið örorkulífeyri að fullu. Samkvæmt mínum rannsóknum og nýlegum gögnum, eru öryrkjar háðir lágum frítekjumörkum og allhörðum skerðingum í Noregi vegna vinnu og viðbótartekna. Þannig að já, margt bendir til þess að norræna velferðarmódelið sé goðsögn í dag. Það er þó í nánari rannsókn og vinnslu.“

„Grunnlífeyrir síðasta hálmstráið sem öryrkjar njóta enn, með harðri baráttu“

Að sögn Hörpu hefur Ísland skráð sig úr norræna velferðarmódelinu. En hvers vegna og hvernig þá? „Þetta er sagt í tilefni þess að grunnlífeyrir aldraðra var lagður niður. Með breytingu á lögum um almannatryggingar 2016 var grunnlífeyrir sameinaður tekjutryggingu í einn bótaflokk, sem skerðist að fullu við mjög lág frítekjumörk. Grunnlífeyrir er nánast eini þáttur lífeyris sem kenna má við norrænt velferðarmódel, þ.e. allir hafa fengið þessa greiðslu burtséð frá efnahag.

Á tyllidögum hafa stjórnmálamenn haldið því fram að við fylgjum norræna velferðarmódelinu, það sé fyrirmyndin en við höfum verið langt frá þeirri fyrirmynd.“

Harpa segir norræna velferðarmódelið hafa átt að vera yfirgripsmikið kerfi sem næði jafnt til allra, þ.e. með almannatryggingum, barnabótum og fleiru. „Það byggist á „altækum réttindum.“ Þ.e. að allir borgarar eigi sama rétt til lífeyris, t.d. vegna aldurs, örorku, barnabóta og fleiru, burtséð frá stöðu og efnahag. Á Norðurlöndum voru barnabætur greiddar jafnt með öllum börnum, burtséð frá efnahag foreldra. Það getum við borið saman við barnabætur á Íslandi árið 2000 en þá fengu 11,4% einstæðra foreldra óskertar barnabætur og 3,3% hjóna og sambúðarfólks. Þar var, og er, hörðum skerðingum beitt og lágum frítekjumörkum. Í dag er farið að beita skerðingum víðar. Ég hef sagt að Íslendingar hafi horfið frá norræna velferðarmódelinu, ef þeir hafa þá nokkurn tíma verið þar. Grunnlífeyrir er síðasta hálmstráið sem öryrkjar njóta enn, með harðri baráttu. Það er mín niðurstaða eftir ítarlegar rannsóknir.“

Hún segir Íslendinga eiga meira sameiginlegt með frjálslyndisstefnu og skilyrtri velferð. „Þar á aðstoðin að vera í lágmarki og miðað við skilyrta aðstoð, lágar lífeyrisgreiðslur, háar skerðingar og lág frítekjumörk ef einhverjar krónur bætast við, þá eru lífeyrisgreiðslur skornar niður. Útgjöld til velferðarmála eiga að vera í lágmarki. Þar er áherslan – að fólk geti leitað til góðgerðarstofnana eftir ölmusu. Ég tel að þetta sé vel þekkt hér á landi og hef haldið því fram að velferðarkerfið á Íslandi eigi meira skylt við frjálslyndisstefnu og skilyrta aðstoð en norræna velferð. Ísland hefur í raun stefnt lengra og lengra í þá átt frá því í byrjun 10. áratugarins. Þá voru almannatryggingar teknar til endurskoðunar, mjög harðar skerðingar komu inn og lág frítekjumörk. Öryrkjar héldu nánast engu eftir af lífeyrisgreiðslum ef fólk vildi og hafði heilsu til að fara í hlutastarf á vinnumarkaði. Það er nánast óbreytt! Á 10. áratugnum rak neyðin fólk til Hjálparstarfs kirkjunnar. Í úttekt minni á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar 1998 og 1999 voru öryrkjar 65,7% skjólstæðinga Hjálparstarfsins. Það var bein afleiðing af frjálslyndisstefnunni, lágum lífeyri, hörðum skerðingum og lágum frítekjumörkum. Lífeyrisgreiðslur eru svo lágar að þær duga ekki til lágmarksframfæslu. Þessi staða öryrkja hefur verið viðvarandi allar götur síðan. Benda skal á harðar skerðingar lífeyris öryrkja og eldri borgara og frítekjumörk hafa ekki hækkað frá 1. janúar 2009, það er í 12 ár,“ segir Harpa ákveðin. „Það er einnig staðreynd, að það er sama hvaða flokkar hafa verið í ríkisstjórn; þar er sömu aðferðum beitt: Skilyrtri velferð. Það var undirstrikað þegar innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar tók til starfa í ársbyrjun 1998 að það starf ætti ekki að vera framlenging á félagsþjónustu og velferðarkerfi. Ölmusukerfi. Þetta er látið viðgangast af stjórnvöldum. Það er smánarblettur á íslensku velferðarkerfi og samfélagi.“

Fólk dæmt til fátæktar

Harpa segir að einnig hafi starfsgetumati verið komið á í auknum mæli á Norðurlöndum í stað örorkumats. Hvað felst í því? „Jú, sparnaður á ríkisútgjöldum. Það er staðreynd að vinnumarkaðurinn í þessum löndum hefur hvorki hlutastörf né önnur störf í boði. Afleiðingin er bein ávísun á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þangað verður fólk að leita – eftir styrk og ölmusu. Fólk er dæmt til fátæktar. Þessi tilfærsla í velferðarkerfinu veldur gífurlegu álagi á heilsuskert fólk. Við höfum fylgst með harðfylgi stjórnvalda til að koma öryrkjum á Íslandi í starfsgetumat og ýmislegt bendir til að stofnanir séu farnar að praktísera án laga. Það virðist sama árátta stjórnvalda og var allt fram á 10. áratuginn, þegar 30% öryrkja voru metnir styrkþegar með 50-74% örorku. Það átti að láta reyna á það hvort fólk kæmist til heilsu og út á vinnumarkað. Við höfum dæmin, og ég mætti fjölda kvenna í þessari stöðu í starfi mínu hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, með 50.000 kr. örorkustyrk til framfærslu, þ.e. á núvirði. Farsælast væri að öryrkjar gætu bætt við sig ásættanlegum tekjum á vinnumarkaði og borgað sinn skatt. Þá kæmi í ljós hversu margir geta fengið vinnu.

Hvernig getum við nálgast almannatryggingar samanborið við Norðurlöndin? „Ég held að gott væri að byrja á að skoða mismunandi nálgun, framkvæmd og framkomu hér hjá Tryggingastofnun ríkisins og t.d. í Noregi og víðar. Ljóst er að vantraust á Tryggingastofnun er allt of mikið. Fólk er alið á því að lögin um almannatryggingar séu svo flókin að ekki sé hægt að skilja þau. Ég er ekki sammála því. Það skortir gegnsæi og klára lýsingu á afgreiðslu mála, útskýringu á því á hvaða forsendum afgreiðsla umsóknar er byggð. Samkvæmt breytingu á lögum um almannatryggingar (nr. 8/2014), eru sett skýr ákvæði og reglur um skyldur lífeyrisþega og jafnframt skyldur Tryggingastofnunar. Ég fæ ekki séð að Tryggingastofnun uppfylli sínar skyldur í ýmsum tilvikum gangvart langveiku fólki og öryrkjum. T.d. fólki í endurhæfingu sem ábyrgir aðilar hafa nýlega fjallað um og bent á. Tryggingastofnun ber að fylgja fólki eftir og að fólki sé tryggð farsæl niðurstaða og öryggi ef það kemst ekki til heilsu. Öryrkjar og langtímaveikt fólk þarf að skila inn fjölda pappíra til að sanna að það eigi rétt á einhverjum greiðslum. Tryggingastofnun ber, samkvæmt áðurnefndum lögum, að kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum. Jafnframt að skýra niðurstöður fyrir fólki. Tryggingastofnun mætti taka systurstofnun sína í Noregi og fleiri sér til fyrirmyndar. Þar er fólki skilað skriflegu svari og upplýsingum um rétt sinn, afgreiðslu á máli og á hvaða forsendum mál viðkomandi fær þessa afgreiðslu. Fólk heldur á niðurstöðu í hendi sér, t.d. vegna umsóknar um örorku. Undir þetta skrifa tveir starfsmenn. Afgreiðslan er gegnsæ og liggur fyrir. Þetta er til fyrirmyndar og Tryggingastofnun mætti taka upp. Fólk kvartar sáran. Það er erfitt að fá upplýsingar við beinum spurningum. Þótt starfsfólk sé allt af vilja gert virðast upplýsingar óaðgengilegar. Það verður að skrifa og senda inn fyrirspurn. Það er staðreynd að í mörgum tilvikum þarf veikt fólk að hafa mann með sér til að sinna sínum málum hjá Tryggingastofnun og ég hef séð sláandi dæmi um það nýlega. Hér er talið að vandaðri afgreiðsla mála, þar sem gegnsæi er og forsendur afgreiðslu eru aðgengilegar og stafsmenn geta miðlað til skjólstæðinga Tryggingastofnunar, væri til mikilla bóta og mikilvægt að byrja þar.“

Sýnileiki er mikilvægur

Harpa segir það vera staðreynd að ungt fólk með fötlun sem sé að mennta sig fái ekki tækifæri til atvinnuþátttöku og íþróttaiðkunar. Það sé ljóst að viðhorfsbreytingu þurfi til að breyta því. „Stjórnvaldsstofnanir sem fara með ábyrgð í málaflokknum ættu að vera í fararbroddi og útvega fötluðu fólki störf við hæfi. Þarna er ég að tala um opinberar stofnanir og ráðuneyti sem ættu að sinna þessu sem sérstöku átaksverkefni. Það þarf sýnileika og það þarf að búa til fyrirmyndir og möguleika. Það á bæði við um opinber fyrirtæki og almenn sem vilja vera í fararbroddi og bjóða fötluðu fólki störf. Það væri einnig hvetjandi fyrir fatlað fólk og valdeflandi að fá möguleika til þátttöku í samfélaginu og vera metnir að verðleikum. Sýnileiki er mikilvægur. Í okkar samfélagi er margbreytileikinn í hávegum hafður og mikilvægur. Við eigum að vinna að því á öllum sviðum að fólk fái að njóta hæfileika sinna. Það auðgar samfélagið og gefur betra líf.“

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir. Myndir: Hallur Karlsson. 

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)