Skip to main content
Frétt

Fötlunarfræðin mikilvægt baráttutæki

By 1. október 2021No Comments
Rannveig Traustadóttir er prófessor emerita og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

Hún hefur komið víða við í málefnum fatlaðs fólks í þau meira en 50 ár sem hún hefur tengst málaflokknum. Upphaflega menntuð sem þroskaþjálfi starfaði hún með fötluðu fólki og kenndi við Þroskaþjáfaskóla Íslands. Jafnframt því stundaði hún nám við Háskóla Íslands í félagsfræði og heimspeki. Í kjölfarið fór hún til Bandaríkjanna og lauk doktorsprófi í fötlunarfræði og kynjafræði frá Syracuse-háskóla árið 1992. Að námi loknu sneri Rannveig heim og hóf kennslu við Háskóla Íslands. Þar hefur hún kennt fjömargar greinar s.s. kynjafræði, eigindlega aðferðafræði, fjölmenningarfræði, hinsegin fræði og fötlunarfræði. Hún er í dag best þekkt sem brautryðjandi í fötlunarfræðum enda hafa þau fræði alltaf verið miðlæg í hennar kennslu og rannsóknum.

Fyrsta spurningin til Rannveigar er: Hvað er fötlunarfræði? Hún svarar því til að fötlunarfræði hafi félagslegan skilning á fötlun og fötluðu fólki. „Fötlunarfræðin beinir sjónum að félagslegum aðstæðum fatlaðs fólks með áherslu á að greina þá þætti sem skapa og viðhalda fötlun og hindra þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.“ Um upphaf fötlunarfræða segir Rannveig að þetta sé ein yngsta fræðigreinin í hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. „Það eru ekki nema um þrír áratugir síðan fyrstu ritin kennd við fötlunarfræði litu dagsins ljós en síðan þá hafa fötlunarfræði einkennst af mikilli grósku og örri þróun.“

Hún segir fötlunarfræði eiga sér bæði póltískar og fræðilegar rætur. „Róttækar og gagnrýnar hugmyndir fötlunarfræða má margar hverjar rekja til baráttuhreyfinga fatlaðs fólks á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en það tímabil einkenndist af miklu pólitísku umróti, andófi og mannréttindabaráttu ýmissa þjóðfélagshópa.“ Hún bætir við að margt fatlað fræðafólk sem hafi verið og er í dag leiðandi innan fötlunarfræði eigi rætur í slíkri í baráttu og aktívisma.

„Fötlunarfræðin er ein af þeim nýju fræðigreinum sem snúa að samfélashópum sem búa við mismunun og jaðarsetningu. Aðrar greinar af sama toga eru kynjafræði, hinsegin fræði og fræði um þjóðernisminnihluta. Þessi fræði eiga það sameiginlegt að beina sjónum að valdatengslum og jaðarsetningu og afla þekkingar sem stuðlar að félagslegu réttlæti. Fötlunarfræðin eru því, eins og aðrar greinar af þessum meiði, baráttufræði sem einkennast af því að afla þekkingar fyrir fatlað fólk, ekki bara um það.“

Ný sýn á fötlun

Spurð um hvað sé nýtt við fötlunarfræði segir Rannveig að það sé í sjálfu sér ekki nýtt að rannsaka fötlun og fatlað fólk, hins vegar sé nýtt með hvaða hætti fötlunarfræði skilgreinir og nágast viðfangsefnið. „Þegar fötlunarfræði kom til sögunnar var sá skilningur ríkjandi að fatlað fólk væri gallað, afbrigðilegt og sjúkt, og að það væri persónulegur harmleikur að vera fötluð manneskja. Þessi sýn byggði á læknisfræðilegum og líffræðilegum skilgreiningum. Fötlunarfræði hafna þessum skilningi og benda á að erfiðleikar fatlaðs fólks stafi oft fyrst og fremst af samfélagslegum hindrunum sem koma í veg fyrir að fólk með ýmis konar skerðingar hafi sama aðgang að samfélagsþátttöku og aðrir, meðal annars menntun, atvinnu, fjölskyldulífi og almennri þátttöku í daglegu lífi.“ Rannveig bendir á að þessar hindranir felist í manngerðu umhverfi, neikvæðum staðalmyndum, fordómum og mörgu fleiru. „Iðulega eru það þessar samfélagslegu og menningarlegu hindranir, fremur en skerðing einstaklingsins, sem skapa fötlun fólks,“ segir hún.

Í upphafi þótti þessi félagslegi skilningur afar róttækar enda gekk hann þvert á ríkjandi og einhliða læknisfræðilega sýn á fötlun sem galla eða fráviki. „Í dag hefur þessi félagslegi skilningur á fötlun öðlast víðtæka viðurkenningu og var grundvöllurinn að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem tók gildi 2008.“ Spurð nánar út í mannréttindasáttmálann segir Rannveig hann vera ákaflega mikilvægan fyrir fatlað fólk. „Þar er skýrt kveðið á um að líta beri á fatlað fólk sem hluta af mannlegum margbreytileika, ekki sem frávik. Þar er líka kveðið skýrt á um að allt fatlað fólk skuli njóta mannréttinda til jafns við aðra á öllum sviðum samfélagsins. Samningurinn er í grundvallaratriðum samningur um jafnrétti og bannar mismunun á grundvelli fötlunar. Íslensk stjórnvöld hafa fullgilt samninginn og stefna að því að lögfesta hann.“

Öflugt og fjölbreytt fræðastarf

Um stöðu fötlunarfræða hér á landi segir Rannveig að greinin hafi þróast svipað og víðast annars staðar. „Fyrsta námskeiðið var haldið árið 1994 þegar ég var beðin að kenna valnámskeið um fatlað fólk í Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Ég var nýkomin heim úr doktorsnámi og var himinlifandi að geta kennt mín fræði, sem voru svo ný að þau höfðu ekki enn fengið heiti á íslensku. Í stuttu máli þá var fötlunarfræðum afar vel tekið innan HÍ, bæði meðal fræðafólks og nemenda. Síðan 1994 hafa alltaf verið kennd námskeið í fötlunarfræði við HÍ. Fræðin þróuðust hratt og árið 2004 var stofnuð sérstök námsbraut í fötlunarfræðum innan Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.“ Rannveig bætir við að nú sé einnig verið að kenna fötlunarfræði við nokkra framhaldsskóla.

Árið 2006 var Rannsóknasetur í fötlunarfræðum stofnað og starfar það í nánum tengslum við námsbrautina. „Setrið hefur verið mikilvægur samstarfsvettvangur fyrir okkur sem vinnum að rannsóknum á sviði fötlunarfræða,“ segir hún. „Nú er svo komið að margt fræðafólk beitir fötlunarfræðilegu sjónarhorni í kennslu og rannsóknum innan Háskóla Íslands. Auk námsbrautar í fötlunarfræðum eru kennd námskeið í fötlunarfræðum við aðrar greinar innan Félagsvísindasviðs og á Menntavísindasviði HÍ er öflugur hópur fræðafólks á sviði fötlunarfræða.“ Rannveig nefnir jafnframt að það sé vaxandi eftirspurn eftir því að fræðafólk frá fötlunarfræðum komi sem gestakennarar í námskeið á Heilbrigðisvísindasviði. „Það má því með sanni segja að fötlunarfræðin blómstri hér á landi,“ segir Rannveig.

Samstarf við fatlað fólk og samtök þess

Rannveig telur það styrk fötlunarfræða að hafa þróast í samspili við daglegt líf fatlaðs fólks og pólitíska baráttu þess. Hún tekur fram að bæði Rannsóknasetrið og námsbrautin hafi frá upphafi lagt áherslu á samstarf við fatlað fólk og baráttuhreyfingar þess. „Þetta samstarf hefur meðal annars falist í sameiginlegum málþingum, ráðstefnum og fyrirlestrum. Fatlað fólk hefur einnig tekið þátt í rannsóknum, bæði sem rannsakendur, ráðgjafar og þátttakendur, og einnig komið að kennslu innan námsbrautarinnar. Rannsóknasetrið hefur unnið rannsóknir í samstarfi við samtök fatlaðs fólks og veitt ráðgjöf til einstaklinga og samtaka fatlaðs fólks sem hafa leitað til okkar um fræðileg rök og rannsóknir sem styðja málstað þess og baráttu.“

„Við í fötlunarfræðinni höfum reynt að leggja okkar af mörkum í réttindabaráttunni, til dæmis með því að setja fram álit og umsagnir um frumvörp og þingsályktanir. Við höfum líka á köflum verið í beinu samstarfi við samtök fatlaðs fólks, tekið þátt í samráðshópum, lagt á ráðin um leiðir og aðgerðir, og fundað með stjórnvöldum ásamt fulltrúm fatlaðs fólks. Fyrir mig hefur þetta starf verið einkar gefandi og ákaflega ánægjulegt að hægt sé að beita fræðunum sem tæki í baráttunni. Þetta samstarf hefur einnig haldið fötlunarfræðinni í góðu jarðsambandi við daglegt líf og lífsbaráttu fatlaðs fólks.“

Að lokum er Rannveig spurð að því hvort það að kenna fötlunarfræði hafi breytt einhverju. „Já, ég tel svo vera,“ segir Rannveig. „Fötlunarfræðin ruddu braut hér á landi fyrir félagslegan skilning á fötlun, sem er grunnur að nútímamannréttindaráttu fatlaðs fólks. Fötlunarfræðin hafa líka lagt sitt af mörkum við að skapa fræðilegan grunn fyrir baráttu fatlaðs og langveiks fólks fyrir jafnrétti og samfélagsþátttöku. Rannsóknir og kennsla í fötlunarfræðum innan háskólasamfélasins hefur gert fötlun sýnilegri og aukið vitund um fötlun og aðstæður fatlaðs fólks,“ segir Rannveig að lokum.

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Mynd: Kristinn Ingvarsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)