Skip to main content
Frétt

„Heppin að fá þetta tækifæri“

By 1. október 2021No Comments

Arna keppti fyrst Íslendinga í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra

Arna Sigríður Albertsdóttir handahjólreiðakona lenti 16 ára gömul í alvarlegu skíðaslysi og hlaut mænuskaða. Eftir áralanga endurhæfingu ákvað Arna að finna íþrótt sér til heilsuræktar og hreyfingar og hefur keppt í handahjólreiðum erlendis og var fyrst Íslendinga til að keppa í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra nú í haust (athugið að viðtalið var tekið í byrjun ágúst).

„Ég var ásamt nokkrum vinum mínum í skíðaæfingabúðum í Geilo í Noregi þegar slysið varð áramótin 2006/2007. Ég man lítið eftir deginum sjálfum og ekkert eftir slysinu, man bara eftir byrjuninni á deginum þegar ég var að koma mér af stað að skíða og aðeins í brekkunni. Hvað varðar slysið sjálft hef ég bara heyrt frá öðrum,“ segir Arna, sem í upphitun fyrir æfingu dagsins missti jafnvægið, lenti út af brautinni og á tré.

„Ég braut hrygginn þannig að ég fékk mænuskaða, braut rifbein og bringubein og fékk innvortis blæðingar, höfuðhögg og fleiri minni áverka. Áherslan var lögð á að stöðva fyrst innvortis blæðingar, þar sem ég var í hættu að fá fleiri, ósæðin var rispuð og því hætt við að mér hefði blætt út,“ segir Arna yfirveguð. Aðspurð um andlega líðan segist hún ekki hafa trúað að þetta væri að gerast. „Ég vaknaði á sjúkrahúsinu einum til tveimur sólarhringum eftir slysið, á sterkum verkjalyfjum, hálfrænulaus og illa brotin. Þetta var sjokk, ég var í afneitun og meðtók þetta ekki alveg strax.“

Eftir nokkurra daga dvöl á sjúkrahúsi í Ósló kom Arna heim, fyrst á gjörgæslu á Landspítalanum og síðan á Barnaspítala Hringsins þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Síðan tók við endurhæfing á Grensás í um átta mánuði. „Raunveruleikinn fór að síast hægt inn eftir að ég kom á Grensás, þegar ég þurfti að byrja að læra hvernig ætti að fara í hjólastólinn, upp í rúmið. Áður hafði mér verið pakkað í dún einhvern veginn þar sem allt var gert fyrir mig. Ég hefði kannski verið útskrifuð fyrr af Grensás ef ég hefði getað komið á dagdeildina, en ég var að fara í frí vestur sem lengdi tímann.“

Arna er fædd og uppalin á Ísafirði ásamt eldri bróður og búa foreldrar þeirra þar ennþá. Hún segist hafa verið heppin með barnæskuna og ljúft og öruggt að alast upp þar, og á hún enn góðar vinkonur síðan úr grunnskóla. Auk þess var stutt í skóla og íþróttir sem Arna stundaði af kappi. „Ég æfði sund, var í fótbolta og byrjaði átta ára að æfa skíði, enda fjölskylda mín mikið í skíðum. Ég var byrjuð að keppa á unglingalandsmótum 13 ára og kannski ein af fáum sem hélt því áfram því margir hætta í íþróttum á þessum aldri.“

Andlegar afleiðingar erfiðari

Aðspurð um hvernig andlega líðanin hafi verið á þessum tíma þegar lífið gjörbreyttist í einu vetfangi og hvernig hún tókst á við þær segir Arna: „Ég held að andlegu afleiðingar hafi verið meiri en þær líkamlegu, ég var 16 ára og hélt svolítið að ég væri ósigrandi eins og örugglega allir unglingar. Þetta var mikið áfall og erfitt fyrstu árin og að átta sig á stöðunni. Ég fékk áfall við slysið, svo annað þegar ég kom á Grensás og sá hvað ég gat ekki gert, svo kom ég vestur í mínar aðstæður og allt í einu komst ég ekki inn í húsið eins og áður og gat ekki gert neitt eins og áður. Við þurftum að flytja í annað húsnæði sem hentaði mér.“

Arna segir að henni hafi verið boðin einhver aðstoð, en ekki mikil eða markviss auk þess sem hún hafi í byrjun ekki verið tilbúin til að þiggja hjálpina. „Ég fékk einhverja sálfræðiaðstoð á Grensás en var ekkert opin fyrir því og komst bara upp með það. Eftir endurhæfinguna hefur engin regluleg aðstoð verið boðin, og ég held maður þurfi frekar að halda á henni þegar einhver tími er liðinn frá slysi. Í byrjun var ég ekki búin að átta mig á hlutunum og hefði ekki getað nýtt mér aðstoðina vel. Ég hef talað við sálfræðing af og til síðan, en ég held það hefði gert mér gott að hitta sálfræðing reglulega þegar ég var komin heim á Ísafjörð.“

Útskrifuð með háskólagráðu

Arna var búin með eina önn í framhaldsskóla þegar slysið varð og segist hafa reynt að halda áfram síðar, en ekki gengið vel. Hún hafi því aðallega varið tíma sínum í endurhæfingu.

„Ég er ekki með stúdentspróf, en tók fjarnám hægt og rólega til að klára áfanga sem ég þurfti fyrir frekara nám. Í vor útskrifaðist ég með BS í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Mér fannst erfitt að halda áfram í skóla eftir slysið og höfuðhöggið hefur haft smávegis áhrif, en það er samt lítið mál að læra. Fannar Karvel sem er styrktarþjálfarinn minn kennir í náminu og Ingi Þór sem er hjólaþjálfarinn minn er einn af kennurunum í náminu og hann hvatti mig til að fara í námið og hélt áfram að hvetja mig í náminu, og þegar ég var byrjuð sá ég ekki eftir því,“ segir Arna. „Mig langaði að læra meira um íþróttir bæði fyrir mig og aðra. Mér finnst vanta íþróttir fyrir hreyfihamlaða og ég hef þurft að leita sjálf að mörgu fyrir mig. Mér finnst vanta tengingu frá Grensás yfir í íþróttir fyrir hreyfihamlaða og fatlað fólk og það er eitthvað sem ég vil skoða. Fólk þarf að finna svolítið út sjálft hvað það vill gera en leiðin þarna á milli mætti vera auðveldari og að fólk hafi tæki eða tól, viti hvar það getur farið að æfa, hvað það getur gert og prófað. Það eru líka margir með stoðkerfisvandamál, fólk sem fær mænuskaða er gjarnt á að þyngjast mikið, af því brennslan minnkar um helming en matarlystin helst svipuð, þannig að mjög eðlilegt að fólk þyngist mikið og þá verður allt mun erfiðara. Það er enginn (kannski alveg einhver eins og sjúkraþjálfarnir en það mætti vera meira og markvissara) að hjálpa fólki að finna góðar styrktaræfingar eða koma sér í hreyfingu. Útivist og hreyfing er svo ótrúlega góð og líka fyrir andlega heilsu.“

Arna nefnir að Íþróttasamband fatlaðra sé að gera góða hluti, en líkt og henni fannst geti öðrum fundist erfitt að fara þar inn eftir slys. Henni finnst einnig vanta almenningsíþróttir fyrir hreyfihamlaða. „Margar líkamsræktarstöðvar eru aðgengilegar, en aðrar ekki. Ég held að fólk sem er í sömu stöðu og ég þætti óþægilegt að fara inn á slíka stöð innan um alla aðra. Þó að það sé gott aðgengi inn á stöðina, þá er þröngt á milli tækjanna og maður kemst ekki þar á milli, hvað get ég gert, næ ég í lóðin? Þetta er allt miklu meira mál. Langflestir sem stunda líkamsræktarstöðvar fara í hóptíma eða þjálfun sem er gaman og þægilegt, og ekkert vesen eða kvíðavaldandi, fólk með mænuskaða getur oftast ekki farið í hóptíma.“

Mikill kostnaður við hjálpartæki og búnað háir einnig mörgum, og búnaður ætlaður til íþróttaiðkunar er hvorki greiddur né niðurgreiddur hjá Sjúkratryggingum Íslands. „Fólk þarf oft að breyta húsnæðinu sem það býr í eða flytja, hætta í vinnu tímabundið eða alfarið, alls konar svona hlutir. Svo er íþróttabúnaður sem þarf að panta á netinu fyrir kannski eina milljón sem er ekki hægt að prófa áður og maður skilur að það eru ekki allir í aðstöðu til þess. Það er mikill búnaður sem fylgir mér, skíðastóll, hjólið og fleira og þetta er búnaður sem kostar um hálfa til eina milljón og örörkubætur eru mjög lágar.“

Fann hjólið bókstaflega

Arna flutti til Reykjavíkur árið 2011 og byrjaði þá í einkaþjálfun hjá Fannari Karvel, sem þjálfar hana enn í dag. Hægt og rólega fór hún að finna æfingu sem hentaði henni og segir það hafa gerst á hennar eigin forsendum.

„Fyrst eftir slysið talaði fólk við mig um íþróttir fatlaðra, en ég var ekki tilbúin í neitt þá. Svo hafði ég fordóma gagnvart Íþróttasambandi fatlaðra og fannst ég ekki eiga heima þar. Mig langaði að prófa að hjóla, pantaði mér hjól og Fannar bjó til æfingaáætlun fyrir mig. Það er erfitt að finna úthaldsæfingu þegar maður er í hjólastól, en að komast út að hreyfa sig er svo frábært þegar maður er með hreyfihömlun. Það er erfitt og þreytandi að ýta sér á hjólastólnum, en auðvelt og þægilegt að vera á hjólinu, fá vind í andlitið og æfingu. Það hafði góð áhrif á mig að komast út og æfa.“

Fyrsta hjólið sem Arna pantaði sér var almennt hjól sem hægt að stilla. Hjólið sem hún er á núna er hins vegar sérsmíðað fyrir hana erlendis. „Maður verður bara að taka sénsinn á að það passi manni, það er eina sem er í boði, ekki nema maður fari utan og sé hreinlega þar meðan tækið er smíðað. Hjólið kostar frá milljón upp í tvær og virðisaukaskattur fæst endurgreiddur, en það er það eina. Maður þarf að greiða rest og þetta er rosalega dýrt. Ég hef ekki sótt um neina endurgreiðslu, ég veit að það kemur bara neitun. Það er alltaf verið að tala um lýðheilsu og hvað er gott að hreyfa sig, fólki með hreyfihömlun eða fötlun er bara sleppt úr þeirri umræðu, mér finnst lýðheilsa aðeins vera fyrir sérstakan hóp. Mér finnst þetta jafnréttismál meðan einn getur keypt hjól á hundrað þúsund en ég þarf að kaupa það á milljón, fólk í minni stöðu er oft verr sett og er á örorkubótum sem eru mjög lágar. Ég er ekki að segja að hreyfihamlaðir eða fatlaðir eigi að fá tækin frítt, en í það minnsta ættum við að geta keypt þau á sama verði og aðrir,“ segir Arna.

Á veturna æfir Arna inni á „trainer“ og er með góða aðstöðu. „Vegna lömunarinnar virkar hitastjórnunin ekki alveg hjá mér. Þess vegna fer ég snemma inn á haustin og seinna út á vorin en aðrir hjólarar svo það hafi ekki vond áhrif á mig að vera úti í langan tíma.“

Arna byrjaði hægt og rólega að keppa árið 2015, en er ein í íþróttinni hér heima og engar keppnir haldnar hérlendis. „Fyrst tók ég þátt í hálfmaraþoni og maraþoni með hlaupurum og það var ótrúlega gaman og mjög vel tekið á móti mér þar. Hraðinn hjá mér er akkúrat milli hlaupara og hjólara,“ segir Arna sem er búin að keppa víða erlendis síðan árið 2017. „Ég hef keppt svona þrisvar á ári síðan þá. Ég á alveg langt í land með að ná bestu konunum í mínum flokki, en þær sem eru bestar í handahjólreiðum eru 10-20 árum eldri en ég og búnar að æfa lengi. Þetta er úthaldssport sem tekur langan tíma að byggja upp.“

Aðspurð um hennar flokk segir Arna að flokkar í íþróttum fatlaðra séu aðeins flóknari en ella og allt gert svo að hver og einn geti keppt á jafningagrundvelli. „Það eru fötlunarflokkar í öllum íþróttum fatlaðra, ég er til dæmis með mænuskaða í brjósthrygg þannig að ég get notað hendurnar en ég get ekki notað kvið- eða bakvöðva. Þannig að ég get ekki setið bein, ég þarf alltaf að halla mér eða sitja við stólbak. Svo er annar flokkur fyrir konur sem geta notað kviðvöða, og annar fyrir konur sem eru ekki með fulla hreyfigetu í höndunum, þannig að þú ert alltaf að keppa við þá sem eru á svipuðum stað og þú.“

Ólympíuleikarnir stórt markmið

Þegar viðtalið er tekið er Arna á fullu í undirbúningi fyrir Ólympíumót fatlaðra sem fóru fram í Tókýó í Japan 25. ágúst til 5. september og fór hópurinn út miðjan ágúst, allt í allt um 20 manns, sex keppendur ásamt aðstoðarfólki.

„Ég er að fara í fyrsta sinn til Japan og verð í sérstöku hjólaþorpi, ekki í Ólympíuþorpinu sjálfu og leikarnir verða líklega öðruvísi vegna COVID. En það verður gaman að upplifa Ólympíumótið og ég held að þetta verði sögufrægir leikar,“ segir Arna sem hefur haft leikana sem stórt markmið í nokkur ár. „Það var draumur fyrir löngu að komast á Ólympíumótið og að komast þangað hefur verið stórt markmið sem hvetur mig áfram. Að þetta sé að fara að gerast er rosalega stórt og óraunverulegt. Ég vona að þetta verði fyrsta en ekki síðasta Ólympíumótið sem ég fer á. Eins og ég sagði áður tekur langan tíma að þjálfa úthaldið og ég er ekki á eins góðum stað og ég hefði viljað fyrir Ólympíumótið núna. Bæði var erfitt að stunda æfingar á kórónuveirutímanum, ég vissi ekkert hvað var í gangi, hvort maður kæmist yfirhöfuð út í keppnir og var bara stressuð að fara út úr húsi. Ólympíumótið verður góð upplifun, og ég fæ þá hugmynd um hvernig mótið er og get reynt að fara aftur eftir þrjú ár.“

Arna segir fáa Íslendinga með mænuskaða keppa í íþróttum, engar slíkar keppnir séu hér heima, en erlendis séu þær margar og keppendur mun fleiri. „Ég átti ekki von á að komast inn á Ólympíumótið núna í ár, ég vann mér ekki inn sæti, heldur fékk boð um að keppa. Ég er heppin að fá þetta tækifæri, að vera sú fyrsta í handahjólreiðum frá Íslandi á Ólympíumótinu og gaman að sýna öðrum að þetta sé hægt.“

Hvernig undirbýrðu þig fyrir Ólympíumót? „Þetta hefur verið skrýtið tímabil vegna kórónuveirunnar, ég hef ekki keppt úti mjög lengi af því ég vildi ekki taka neina sénsa. Ég var hins vegar að koma heim frá æfingabúðum á Spáni og ég tek 2-3 æfingar á hverjum degi. Svo er alls konar pappírsvinna, mörg COVID-próf og heilsutékk og alls konar slíkt sem er í gangi. Hvað æfingarnar sjálfar varðar æfi ég bara svipað og venjulega. Ég fer á styrktaræfingu kl. 9 í klukkutíma, tek svo æfingu kl. 13 eða 14, og svo stundum aðra seinna. Síðan hvíli ég mig á milli og stússast í því sem þarf að klára áður en ég fer til Japans,“ segir Arna.

Sumarið hefur farið í undirbúning fyrir leikana, en að þeim loknum stefnir Arna á að vinna í eitt ár og fara síðan til útlanda í mastersnám. „Mig langaði að fara í nám í haust, en vegna COVID og að ég kem heim frá Ólympíumótinu í byrjun september ákvað ég að geyma námið í eitt ár. Vonandi get ég unnið við eitthvað þjálfunartengt og þjálfað fólk með mænuskaða og það var hugmyndin að vera með hópþjálfun fyrir þennan hóp, sem myndi þá felast í styrktarþjálfun,“ segir Arna sem er nýlega hætt í stjórn SEM-samtakanna, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra. „Samtökin hafa verið mikið í jafningafræðslu og hitt þá sem eru á Grensás.“

Arna hefur einnig lagt stund á svig- og gönguskíði. Hún segir nauðsynlegt að hreyfihamlaðir finni sér einhverja hreyfingu til heilsuræktar, það þurfi hins vegar ekki allir að keppa í íþróttum. „Það þarf bara að finna eitthvað sem hentar, eins og mér finnst gönguskíði mjög þægileg íþrótt, auðvelt að læra á þau og íþrótt sem fer vel með mann og hægt að stunda með fjölskyldunni, íþrótt sem eykur lífsgæði manns mjög mikið. Ég tel að hreyfing hafi góð andleg áhrif og geti verið upphafið að félagsskap og geri einstaklinga sjálfstæðari og komi þeim jafnvel í vinnu. Sem dæmi er rannsókn sem sýnir að hreyfihamlaðir einstaklingar sem spila hjólastólarúbbí (-rugby) séu sjálfstæðari, en jafningjar þeirra sem ekki stunda íþróttina. Þú ert með jafningjum þínum, lærir af þeim og leggur á þig að gera eitthvað sem gerir þig sjálfstæðari.“

Er kerfið í dag betra en á þeim tíma þegar þú slasaðist? „Það er ekkert rosalega mikið í boði í dag, en þegar ég slasaðist var örugglega eitthvað í boði sem ég var ekki tilbúin til að nýta mér. Það sem hefur breyst í dag eru hlutir eins og samfélagsmiðlar og jafningjafræðsla SEM. Það er ekkert mál að gúgla einhvern hjólara og setja sig í samband við hann hvar sem hann býr í heiminum og sjá hvað aðrir eru að gera. Slíkt hvetur mann áfram og fyrst aðrir geta þetta þá hlýt ég að geta það líka. En hér heima er ekki mikið í boði, því miður, og ekkert sem ég fann mig í og ég hugsa að þeir sem slasast í dag og eru á sama aldri og ég var þegar ég slasaðist, séu svolítið í sömu sporum og ég var í,“ segir Arna. „Það er líka þetta aðstöðuleysi eins og er á Grensás, en það er gott fólk sem vinnur þar sem ég þekki og ég get alltaf leitað til. Ég held að þetta sé alls staðar sama vandamálið eða ég ímynda mér það. Í dag eru íþróttafræðingar farnir að vera á fleiri stöðum á Landspítalanum sem er mjög gott. Það eru margar rannsóknir sem sýna fram á að alveg sama hvaða sjúkdóm eða fötlun einstaklingur er með þá skiptir máli að virkja viðkomandi og búa til rútínu sem hentar honum. Og það ætti að búa slíka einstaklingsmiðaða rútínu til strax í endurhæfingu á spítala. Síðan eru margir fastir í gamalli rútínu, og það þarf að opna augu fólks og sýna þeim nýjar leiðir.“

Hópmynd af Ólympífuförum

Arna býr í Lundi í Kópavogi og æfir sig mikið þar í kring. Hún segist finna mun á því að æfa hér heima eða erlendis, bæði hvað aðgengi varðar og viðmót annarra. „Erlendis er maður bara á götunni eins og aðrir hjólarar, en allir taka engu að síður tillit til manns og þykir ekkert eðlilegra. Hér heima er ég mikið á hjólastígum í kringum heimilið og er öruggust þar þótt ég sé hægari en aðrir hjólarar. En um leið og þarf að grafa eða gera eitthvað við stígana eru þeir óaðgengilegir og jafnvel illa og seint gengið frá,“ segir Arna sem segist einnig vekja nokkra athygli. „Á Mallorca, þaðan sem ég er nýkomin, eru allir mjög þolinmóðir og vilja manni vel. Kannski af því að hjólarar eins og ég eru algengari sjón erlendis. Hér heima er alltaf einhver sem rekur upp stór augu þegar ég hjóla fram hjá.“

Ólympíumót fatlaðra fór fram í Tókýó dagana 24. ágúst til 5. september. Þeir sem kepptu fyrir Íslands hönd voru:

Patrekur Andrés Axelsson, frjálsar íþróttir, Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsar íþróttir, Róbert Ísak Jónsson, sund, Már Gunnarsson, sund, Thelma Björg Björnsdóttir, sund, Arna Sigríður Albertsdóttir, handahjólreiðar. Ljósmynd: Jón Björn Ólafsson

Texti: Ragna Gestsdóttir. Myndir: Hákon Davíð Björnsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)