Skip to main content
Frétt

Hvað finnst fulltrúum stjórnmálaflokkanna?

By 1. október 2021No Comments
Nýlega kom út skýrsla Stefáns Ólafssonar og Stefáns Andra Stefánssonar fyrir Eflingu-stéttarfélag, Kjör lífeyrisþega – Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna. Þar kemur meðal annars fram að skerðingar í almannatryggingakerfinu á Íslandi séu óhóflegar. Miklar skerðingar koma meðal annars fram í því að útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna eru óvenju lág eða þau fimmtu lægstu meðal OECD-ríkjanna. Önnur afleiðing er að á bilinu 25 til 50% íslenskra lífeyrisþega glíma við lágtekjuvanda, eftir því hvar lágtekjumörkin eru dregin.

Í ljósi þessarar skýrslu spurðum við fulltrúa stjórnmálaflokkanna hvað þeim fyndist um að örorkulífeyrir sé 100 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun og að þeir sem hafa framfæri sitt af örorkulífeyri hafi enga möguleika til að bæta hag sinn. Fyrirsagnir og millifyrirsagnir eru blaðsins.

Halldóra Mogensen, Pírötum:

„Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa“

„Staðan í velferðarmálum í dag er skýrt dæmi um skort á framsýni og heildstæðri stefnumótun um hvernig samfélag við viljum byggja. Ég vil trúa því að við Íslendingar sjáum ávinning þess að leysa úr læðingi þann gífurlega mannauð sem við búum yfir. Til þess þarf að skapa jöfn tækifæri og auka frelsi einstaklingsins til að blómstra innan samfélagsins.

Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa heldur sjálfsagður réttur allra í samfélaginu. Réttur sem gerir þeim sem ekki geta unnið kleift að lifa þrátt fyrir atvinnuleysið. Réttur sem veitir þeim sem geta unnið, eða vilja reyna að vinna, nauðsynlegt öryggi ef heilsan bregst.

Ætti að vera 60% hærri

Síðan lög um almannatryggingar voru uppfærð árið 1997 hefur lífeyrir örorku ekki haldið í við launaþróun, þrátt fyrir að skýrt sé kveðið um það í lögunum. Ef lífeyrir hefði haldið í við almenna launaþróun væri hann nú nær 60% hærri í dag. Á kjörtímabilinu hefur lífeyrir skerst um því sem nemur einu ári af launahækkunum á almennum vinnumarkaði og munar um minna. Enn fremur fengu lífeyrisþegar almannatrygginga ekki að fylgja með í lífskjarasamningunum sem ríkisstjórnin gerði fyrir lægst launuðu hópa samfélagsins.
Það er algerlega óviðunandi að framfærsla miðist ekki við lægstu laun, sem væri nærri lagi ef lífeyrir hefði fylgt launaþróun undanfarna tvo áratugi. Núverandi fyrirkomulag lífeyris almannatrygginga er hins vegar flókið skerðingarkerfi þar sem fátæktargildrur er að finna hvernig sem fólk reynir að bjarga sér.

Kostnaðurinn færist bara annað

Skerðingar leiða ekki af sér viðunandi framfærslu heldur draga úr virkni fólks. Skerðingar klippa gat á öryggisnet sem þjónaði varla tilgangi sínum fyrir. Viðunandi framfærsla léttir hins vegar á því yfirþyrmandi álagi sem fylgir því að vera veikur. Álagi sem eykur veikindi íslenskra öryrkja. Við vitum jú öll hvaða áhrif óöryggi og streita hefur á heilsu fólks.
Að auka álagið á fólk, í stað þess að veita því frelsi til að lifa sómasamlegu lífi á eigin forsendum, þjónar hvorki einstaklingum né samfélaginu í heild. Það hefur þær einu afleiðingar að færa til kostnað í kerfinu. Flytja hann úr almannatryggingakerfinu yfir í heilbrigðiskerfið.

Stefna sem er tekin á grundvelli sparnaðar á einum stað í kerfinu án heildstæðrar yfirsýnar er því mikil skammsýni. Skynsamlegasta og skilvirkasta leiðin til að hjálpa fólki á örorku að ná bata, og þar með minnka kostnað í almannatryggingakerfinu, er með því að efla efnahagslegt og félagslegt frelsi einstaklinga í samfélaginu. Hættum þessari skammsýni og eflum hvert annað til að lifa hér sómasamlegu lífi. Það er raunsætt og framsýnt, en næst aðeins með því að kjósa það.“

Inga Sæland, Flokki fólksins: 

„Þetta er hneyksli“

„Flokkur fólksins telur að örorkulífeyrir eigi aldrei að vera lægri en lágmarkslaun. Það er brot gegn 76. gr. stjórnarskrárinnar um félagsleg réttindi og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar þegar öryrkjum er ekki tryggð lágmarksframfærsla til jafns við fólk á vinnumarkaði.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram þingmál sem hafa það markmið að tryggja öryrkjum 350.000 króna lágmarksframfærslu, skatta og skerðingalaust. Við höfum einnig ítrekað mælt fyrir þingmálum sem hafa það markmið að tryggja að réttindi almannatrygginga fylgi launaþróun. Alþingi hefur ítrekað hunsað skýr fyrirmæli laga um að árlega skuli hækka fjárhæðir til samræmis við launaþróun. Þetta er hneyksli.

Ekki refsa fyrir vinnu

Við viljum taka af allan vafa og tryggja að launavísitalan verði lögð til grundvallar þegar fjárhæðum almannatrygginga er breytt ár hvert. Þá höfum við einnig lagt mikla áherslu á það að draga úr skerðingum í almannatryggingarkerfinu. Við teljum að það eigi ekki að refsa öryrkjum fyrir að reyna að hefja störf á vinnumarkaði. Við viljum að öryrkjar fái að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í 2 ár án þess að verða fyrir tekjuskerðingum og án þess að eiga hættu á því að missa réttindi vegna þess að örorka er endurmetin. Ef við náum þessum breytingum í gegn geta öryrkjar reynt fyrir sér á vinnumarkaði án þess að eiga á hættu á því að verða fyrir verulegum tekjuskerðingum ef þeir þurfa að láta af störfum vegna heilsu. Fólkið fyrst, svo allt hitt!“

Katrín Jakobsdóttir, Vinstri grænum: 

„Okkar bíður enn það stóra verkefni að gera löngu tímabærar endurbætur“

„Verkefnið er í mínum huga tvíþætt. Annars vegar að tryggja viðunandi framfærslu öryrkja í gegnum almannatryggingakerfið og samspil þess við aðrar tekjur og hins vegar öflugt réttlátt velferðarkerfi sem tryggir félagslegt öryggi og jöfnuð.

Við höfum á þessu kjörtímabili stigið mikilvæg skref. Dregið hefur verið úr innbyrðis skerðingum í almannatryggingakerfinu til þess að bæta hag örorkulífeyrisþega. Þannig var í upphafi árs 2019 hin alræmda krónu á móti krónu skerðing afnumin í örorkulífeyriskerfi almannatrygginga og hafa nú 65% af skattskyldum tekjum örorkulífeyrisþega áhrif við útreikning á sérstakri framfærsluuppbót í stað 100% áður. Í upphafi árs 2020 var svo gerð breyting sem gagnaðist tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum sérstaklega þegar 95% tekjutryggingar kom til frádráttar við útreikning á sérstakri uppbót í stað 100% áður.

Núverandi kerfi allt of stagbætt

Það er í mínum huga hins vegar alveg ljóst að okkar bíður enn það stóra verkefni að gera löngu tímabærar endurbætur á örorkulífeyri almannatrygginga. Núverandi kerfi er allt of stagbætt og flókið og þjónar ekki nægilega vel ólíkum þörfum þess fjölbreytta hóps sem örorkulífeyrisþegar eru. Við þurfum að koma hér á réttláttu, skilvirku almannatryggingakerfi sem tryggir betri afkomu þeirra sem veikast standa og hafa ekki aðra afkomumöguleika en er á sama tíma nægilega sveigjanlegt til þess að allir þeir sem hafa getu til þátttöku á vinnumarkaði hafi til þess möguleika og fái til þess hvatningu og stuðning. Ég tel að þær tillögur sem unnar voru á þessu kjörtímabili sem byggja á hugmyndafræði sveigjanlegra starfa séu áhugaverðar og eitthvað sem við eigum að horfa til að þróa áfram. Allar breytingar sem gerðar verða þarf hins vegar að undirbúa vel, skapa atvinnutækifæri og byggja samhliða upp stuðningskerfi og þjónustu við atvinnuþátttöku öryrkja. Þá þarf að skoða með hvaða hætti megi styðja betur við tekjulægri foreldra ungmenna til að tryggja að þau geti búið með foreldrum sínum á meðan þau stunda nám.

Verkefninu hvergi nærri lokið

Hinn hluti afkomunnar og hins félagslega öryggis snýr að þáttum eins og húsnæðisöryggi, heilbrigðisþjónustu, menntun og öruggri þjónustu og framfærslu fyrir börn. Þetta eru allt atriði sem hafa afgerandi áhrif á kjör og lífsgæði og eru forsenda þess að hér sé gott, réttlátt samfélag þar sem allir hafa tækifæri til virkrar samfélagsþátttöku á eigin forsendum. Það er viðvarandi verkefni að byggja upp slíkt samfélag og við getum og eigum alltaf að gera betur. Ég tel að á þessum sviðum höfum við víða gert mikilvægar breytingar á þessu kjörtímabili sem bæta verulega stöðu tekjulægri hópa og auka ráðstöfunartekjur fólks. Hér má einkum nefna þær breytingar sem gerðar voru á tekjuskattskerfinu með innleiðingu þrepaskiptingar sem dregur úr skattbyrði tekjulægri einstaklinga. Þá hefur barnabótakerfið verið styrkt og dregið úr beinni greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni sem er mjög mikilvægt til að tryggja jafnt aðgengi og jöfnuð í þeim efnum. Þá verð ég einnig að nefna umbætur á húsnæðiskerfinu sem að verulegu leyti hafa snúið að því að auka húsnæðisöryggi og draga úr húsnæðiskostnaði tekjulægri hópa m.a. með öflugri uppbyggingu á almenna íbúðakerfinu og nýjum hlutdeildarlánum. Í þessum aðgerðum öllum felast verulegar kjarabætur fyrir tekjulægra fólk. Því verkefni er þó hvergi nærri lokið og mikilvægt að á næsta kjörtímabili þarf að leggja höfuðáherslu á að bæta áfram framfærslu tekjulægstu hópanna.“

Logi Einarsson, Samfylkingunni:

„Við viljum snúa vörn í sókn“

„Það er dapurlegt að öryrkjar búi við svo skert kjör og beinlínis skammarlegt fyrir ríkt samfélag eins og Ísland, að við skulum ekki vera komin lengra í hugsun og verki gagnvart samferðafólki sem býr við skerta starfsorku.

Allt of margir falla á milli kerfa, festast í fátæktargildru eða lifa í einsemd og einangrun, þurfa að óttast um lífsafkomu sína, neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu, nauðsynleg lyfjakaup eða að alast upp í fátækt.

Samfylkingin vill stórbæta kjör öryrkja. Þeir hafa dregist langt aftur úr í lífskjörum á síðustu árum og hvergi eru skerðingar í almannatryggingum skarpari en á Íslandi. Nú er tímabært að breyta þessu og það vill Samfylkingin gera með því að stíga stór skref strax í haust og leiða heildarendurskoðun almannatrygginga.

Hækka árlega í samræmi við launaþróun

Við viljum snúa vörn í sókn. Almenningur á skilið sterka almenna velferðarþjónustu að norrænni fyrirmynd, víðtækar félagslegar tryggingar sem tryggja lífsafkomu okkar gegn áföllum og fátækt, jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, myndarlegan stuðning við börn og foreldra, aðstoð þegar aðstoðar er þörf, húsnæðisöryggi, mannréttindi og síðast en ekki síst virðingu.

Greiðslur almannatrygginga eiga að sjálfsögðu að tryggja mannsæmandi framfærslu og hækka árlega í samræmi við raunverulega launaþróun í landinu. Þess vegna leggjum við í Samfylkingunni áherslu á að elli- og örorkulífeyrir hækki í samræmi við hækkanir lífskjarasamningana.

Draga úr flækjum

Við viljum ráðast af krafti gegn of háum jaðarsköttum og vinnuletjandi skerðingum í almannatryggingakerfinu en einnig vegna barnabóta, sem byrja nú að skerðast við lægstu laun.

Við leggjum sérstaka áherslu á að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja, því markmiðið er að sem flestir geti verið í vinnu við hæfi. Kerfið má ekki halda aftur af fólki þannig að það festist í fátæktargildru.

Raunar teljum við í Samfylkingunni nauðsynlegt að ráðast í algjöra endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Við viljum endurskoða það í heild sinni með það fyrir augum að móta betra og réttlátara kerfi. Draga úr flækjum og gera kerfið manneskjulegra og skiljanlegra. Þjónustuna betri.

Aðalatriðið er að vinda ofan af kjaragliðnun undangenginna ára með því að hækka lífeyrisgreiðslur en einnig er þörf á að draga úr ýmsum þeim hindrunum, skerðingum, skilyrðingum og bið eftir réttum greiðslum, sem gerir almannatryggingakerfið of þunglamalegt.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokknum:

Skerðingar gríðarleg hindrun

„Lágmarkslaun á Íslandi eru það lág að það er ekki gott að sjá hvernig fólk getur framfleytt sér af slíkum launum ef annað kemur ekki til. Örorkulíferyrir sem er 100 þúsund krónum lægri en það dugar því hvergi nærri til.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að kerfið verði í fyrsta lagi að tryggja viðunandi framfærslu í þessu velmegandi en dýra landi og að þurfi að vera til staðar jákvæðir hvatar sem veita fólki sem hefur tök á tækifæri til að bæta hag sinn og þar með samfélagsins.
Skerðingar, eins og þær hafa þróast á Íslandi, eru orðnar gríðarleg hindrun, þær eru ósanngjarnar gagnvart einstaklingunum sem fyrir þeim verða og skaða auk þess þjóðarhag.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn:

„Eðlilegt að skerðingum vegna launatekna verði hætt“

„Það er alveg skýrt í stefnu Viðreisnar að enginn eigi að fá minna í heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Við í Viðreisn leggjum ríka áherslu á virkni og þátttöku, og hjálp til sjálfshjálpar. Okkur finnst því eðlilegt að skerðingum vegna launatekna verði hætt og að þeir sem hafa framfæri sitt af örorkulífeyri fái þannig aukna möguleika á að bæta hag sinn.

Þá er það einfaldlega lýðheilsumál og þjóðhagslega hagkvæmt að tryggja virkni fólks með skerta starfsgetu enda dregur virkni úr líkum á félagslegri einangrun og frekari stoðkerfisvanda. Hins vegar skortir á raunverulegar leiðir svo tryggja megi virkni fólks með skerta starfsgetu. Brýnt er að auka sveigjanleika á vinnumarkaði sem raunverulega tekur tillit til þarfa öryrkja.

Það sem svo mestu máli skiptir er að tryggja alvöru framtíðarsýn í þessum mikilvæga málaflokki. Allt of lengi hefur verið talað um mikilvægi grundvallarbreytinga – en því miður er minna um aðgerðir.

Viðreisn hefur lagt áherslu á að efnahags- og velferðarmál séu samofin. Öllu máli skiptir að tryggja raunverulegar forvirkar aðgerðir til að koma í veg fyrir langtímavandamál og tryggja öllum mannsæmandi líf.

Ráðast að rótum í stað þess að plástra vandamál

Við verðum að finna leiðir til að draga úr nýgengi örorku þar sem það er hægt og tryggja fyrsta flokks þjónustu til þeirra sem þurfa á stuðningi kerfisins að halda. Við segjum það ekki aðeins í orði heldur líka á borði. Við lögðum til dæmis fram frumvarp um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu sem var samþykkt á einróma á Alþingi. Ríkisstjórnin hefur þó ekki enn tryggt fjármagn í niðurgreiðsluna en um forgangsmál væri að ræða hjá Viðreisn ef flokkurinn tæki sæti í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili.

Í allt of langan tíma hefur verið gripið til þess ráðs að plástra vandamálin með tímabundnum átökum í stað þess að ráðast að rótum þeirra, sem veldur því bæði að minna er lagt til málanna og að peningarnir nýtast verr. Ábyrgðin á því liggur hjá þeim stjórnmálaflokkum sem hafa farið með völd í samfélaginu okkar meira og minna frá lýðveldisstofnun.

Eigum að geta gert betur

Þá lítur Viðreisn á það sem þjóðhagslega nauðsyn að tryggja gott og öflugt velferðarkerfi. Að verja fjármunum í forvarnir, heilsueflingu og velferð bætir hagsæld þjóðarinnar og getur einnig sparað ríkinu töluverða fjármuni til lengri tíma.

Aukið aðgengi að þjónustu og einfaldara kerfi er lykilatriði í stefnu Viðreisnar. Í því samhengi teljum við að það kerfi sem öryrkjar búa við í dag sé allt of flókið og þunglamalegt. Kerfið þarf að verða sveigjanlegra, manneskjulegra og notendavænna. Þarfir einstaklingsins eiga alltaf að vera í forgrunni og kerfið á að geta lagað sig að þeim þörfum.

Þá er ótalið allt sem ekki er metið til fjár. Ísland er lítið land og öflugt og hér er gott samfélag. Við eigum að geta gert betur í þessum efnum.“

María Pétursdóttir, Sósíalistaflokki Íslands:

„Ekki réttlætanlegt fyrir eitt ríkasta land í heimi“

„Það er gjörsamlega óboðlegt að öryrkjar á Íslandi skuli búa við eins miklar skerðingar og raun ber vitni en segir allt um viðhorf yfirvalda til þeirra. Öryrkjar geta fæstir stundað vinnumarkaðinn en þeim sem það vilja og geta er gert ófært að ná sér upp úr hjólförum fátæktar.

Það að búa við langvarandi línudans í kringum fátæktarmörkin skuldsetur fólk smám saman auk þess sem það neitar sér um heilbrigðisþjónustu sem oft er lífsnauðsynleg þessum sama hópi. Börn öryrkja búa oft við óþarflegan skort og verða af tómstundaiðkun. Það er dýrt fyrir samfélagið að halda fólki í fátækt því hún leiðir af sér meiri veikindi, snemmbæra örorku og félagsleg vandamál auk annars kostnaðar. Þá er ekki réttlætanlegt fyrir eitt ríkasta land í heimi að fara svona illa með þann hóp sem þarf á hvað mestum stuðningi að halda.

Fátækt fólk er látið bíða réttlætisins

Nú er almennt þekkt að kostnaður fólks vegna veikinda eða fötlunar getur verið allt upp í 40% meiri en þeirra sem heilbrigðir eru og því klárlega galið að örorkulífeyrir sé um 100 þúsundum króna lægri en lágmarkslaun. Það verður að hækka örorkulífeyri í takt við vísitölu og verðlagshækkanir en við öryrkjar höfum ekki fylgt launþegum í kjarabótum síðasta áratug. Þess má geta að bensínstyrkur hreyfihamlaðs öryrkja hefur hækkað um 17% síðan fyrir 12 árum á meðan bensínlítrinn hefur hækkað um 70% á sama tíma. Þá hefur skattafrádrátturinn aukist um 25%. Útborguð laun öryrkja ættu því samkvæmt launavísitölu hagstofunnar að vera orðin 130 þúsund krónum hærri en þau eru í dag. Til samanburðar hefur þingfarakaup hækkað um 690 þúsund krónur á þessum sömu 12 árum. Keisarinn er því gjörsamlega fatalaus og fátækt fólk er látið bíða réttlætisins.

Þá er okkur gert að hafa „kostnaðarvitund“ kirfilega innprentaða hvað varðar læknis- og lyfjakostnað eins og meðvitund um fötlun eða sársauki sé ekki nóg.

Beita sér fyrir kærleiksríku hagkerfi

Sósíalistaflokkurinn hafnar skattlagningu á fátækt og vill beita sér fyrir kærleiksríku hagkerfi í stað auðvaldskerfis þar sem hugsað er vel um þá veikustu en þess eru engin dæmi í mannkynssögunni að samfélög hafi tortímt sér með því að styðja um of við hin veiku, fæða hin fátæku eða reisa við hin föllnu.

Það verður að snúa við af þeirri skammarlegu vegferð sem farin hefur verið með nýfrjálshyggju síðustu áratugi og hætta að moka undir auðvaldið en rétta við hlut lífreyrisþega og þeirra sem verst standa. Það er nóg til enda ekki spurt um peninga þegar kemur að skattlagningu efnamesta fólksins, lækkun veiðigjalda eða fjáraustri í sitjandi þingflokka. Skattkerfið okkar á að duga sem jöfnunartæki þannig að bætur séu flatari og skerðingar úr sögunni. Þá viljum við einnig bæta kjör fólks í gegnum öflugt félagslega rekið húsnæðiskerfi og í gegnum menntakerfi sem ekki mismunar fólki þótt það sé orðið eldra en 25 ára eða búi við örorku. Við viljum jöfnuð fyrir alla en ekki bara suma því líf okkar mun aðeins blómstra innan lífvænlegs samfélags byggt á samkennd og virðingu.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki:

„Markmiðið er að sem flestir geti verið virkir á vinnumarkaði“

„Við erum stöðugt að leita leiða til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir og einfalda stuðningskerfi við öryrkja. Á undanförnum árum höfum við meðal annars stigið skref í þá átt að auka möguleika öryrkja á að bæta hag sinn með þátttöku á vinnumarkaði, en ég tel slíkt eitt mikilvægasta verkfærið í átt að betri kjörum öryrkja.

Þó má minna á að stuðningur við öryrkja er ekki alfarið bundinn við örorkulífeyri. Þannig eru til dæmis greidd mæðra- og feðralaun til öryrkja sem eru einstæð foreldri, bifreiðastyrkir til kaupa á bifreiðum og stuðningur við rekstur bifreiða, auk greiðsluþátttöku í kostnaði og læknishjálp.

Atvinnuþátttaka hefur jákvæð áhrif

Það er viðvarandi verkefni ríkisins að leita leiða til að tryggja framfærslu öryrkja og jafnframt að tryggja það að þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar sé sem best varið til þess að bæta stöðu þeirra sem þurfa aðstoð sér til framfærslu. Þannig er leitast við að verja sem mestu til sem minnst hafa en þeir sem búa við betri kjör eru taldir þurfa á minni stuðningi að halda.

Ríkisstjórn Íslands hefur frá upphafi kjörtímabils haft það á stefnuskrá sinni að gera breytingar á greiðslukerfi í tengslum við örorku með það að markmiði að skapa sátt um einföldun kerfisins, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Markmiðið er að sem flestir geti verið virkir á vinnumarkaði hvort sem er að hluta til eða öllu leyti, enda hafa rannsóknir sýnt að atvinnuþátttaka hefur jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan fólks, jafnvel þó það sé að glíma við sjúkdóma, afleiðingar slysa eða fötlun.

Á undanförnum árum hafa verið stigin skref í þá átt að draga úr tekjutengingum vegna atvinnutekna, einmitt í þeim tilgangi að auka möguleika öryrkja á að bæta hag sinn með því að stunda atvinnu.

Halda áfram að auka sveigjanleika

Þannig voru gerðar breytingar á reglum um útreikning framfærsluuppbótar til hinna tekjulægstu á árunum 2019 og 2020. Þær breytingar fela í sér að nú teljast 65% tekna öryrkja til tekna við útreikning uppbótarinnar í stað 100% áður. Þá telst 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar nú til tekna í stað 100% áður.

Þessar breytingar, sem kosta um 3,7 milljarða króna á ári, koma verst setta hópi öryrkja að mestu gagni og hækka ráðstöfunartekjur þeirra umtalsvert. Stóru verkefnin fram undan eru svo að halda áfram að auka sveigjanleika og möguleika öryrkja til virkni á vinnumarkaði.“

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki:

„Við þurfum að losna úr rörsýn á bætur og skerðingar“

„Í spurningunni felst fullyrðing sem er ekki lýsandi fyrir stöðu allra örorkulífeyrisþega. Við höfum sýnt í verki mikinn metnað til að bæta stöðu fólks og félagslegt öryggisnet hefur verið styrkt verulega. Taka þarf með í reikninginn þau fjölbreyttu úrræði sem til staðar eru og spyrja um heildarstuðninginn, t.d. í formi stuðnings vegna leigu, barnabóta og heimilisuppbótar. Auk þess hafa skattalækkanir síðustu áramóta gagnast tekjulágum best allra.

Í dæmaskyni má nefna að barnlaus einstæðingur sem metinn er öryrki 24 ára og hefur ekki aðrar tekjur en frá TR fær 366 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt, en við það bætast svo eftir atvikum önnur stuðningskerfi. Í tilfelli einstæðs foreldris með tvö börn nemur upphæðin um 514 þúsund krónum á mánuði.

Ekki bera saman epli og appelsínur

Þróunin í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur öll verið í sömu átt. Milli áranna 2017 og 2020 hækkuðu örorkubætur um 30 þúsund krónur á mánuði á hvern örorkulífeyrisþega. Þá eru undanskildar breytingar síðustu áramóta sem skila tekjulægsta fólkinu að auki mánaðarlegri heildarhækkun upp á tæplega 20 þúsund krónur. Með þessum áherslum og með ábyrgri stjórn efnahagsmála munum við geta haldið áfram á sömu braut.

Hvað varðar útgjöld í alþjóðlegu samhengi má hins vegar ekki bera saman epli og appelsínur. Hér eru lífeyrisgreiðslur að stórum hluta greiddar úr starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignasparnaði en ekki ríkissjóði. Þess vegna verða útgjöld til velferðarkerfisins lægri en í löndum þar sem meirihluti lífeyrisgreiðslna er fjármagnaður með skatttekjum á hverjum tíma.  

Þeim sem vilja einblína á útgjöld má þó benda á að framlög til velferðarmála hafa vaxið mest hér á landi af Norðurlöndunum milli 2015 og 2019. Að baki búa m.a. umfangsmiklar kerfisbreytingar sem ráðist var í fyrir ellilífeyrisþega árið 2017 og stóraukin framlög til heilbrigðismála. Þriðjungi útgjalda ríkisins er nú varið til félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Aldrei hefur jafnmikið verið lagt í útgjöld til málefna öryrkja, en í fjárlögum fyrir 2021 var enn gefið í milli ára. Útgjöldin nema tæpum 84 milljörðum og eru 8% hærri en í fjárlögum 2020.

Hugsa kerfið upp á nýtt

Næstu misseri tel ég að við eigum að ganga lengra í að hugsa kerfið upp á nýtt. Öryrkjar eru fjölbreyttur hópur hæfileikaríks fólks sem vill fullnýta hæfileika sína, en er margt hvert fast í viðjum flókins kerfis sem hvetur ekki nægilega til atvinnuþátttöku. Við eigum að einblína á kraftinn sem býr í fólki og hvað fólk getur, frekar en hvað það getur ekki. Við þurfum að losna úr rörsýn á bætur og skerðingar og leggja meiri þunga á endurkomu fólks á vinnumarkað, allt eftir getu hvers og eins, með viðeigandi hvötum og stuðningi.“

Umsjón: Jón Þór Víglundsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)