Skip to main content
FréttSRFF

Markmið samningsins að efla og tryggja full mannréttindi

By 1. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks markaði þáttaskil í réttindabaráttu fatlaðs fólks á marga vegu þegar hann var tekinn upp árið 2006. Ísland er aðili að samningum og hann hefur verið fullgiltur hér á landi en enn vantar að lögfesta hann. Einn helsti baráttumaður fyrir því innan Alþingis hefur verið Ágúst Ólafur Ágústsson. Hann telur að ef Ísland yrði fyrst til að lögfesta samninginn myndi það breyta miklu.

Þú hefur barist fyrir því í þinginu að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur hér á landi. Hvers vegna tókstu það mál upp á arma þína? „Fyrsta þingmálið mitt sem ég lagði fram á Alþingi eftir að ég var kjörinn á nýjan leik árið 2017 var lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með lögfestingunni yrði Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta samninginn og myndi það stórbæta réttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi,“ segir hann.

„Það vill svo til að síðasta þingmálið sem ég lagði fram áður en ég hætti á þingi 2009 og fékk samþykkt á Alþingi var að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna bæri að lögfesta. Ísland varð síðan eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta Barnasáttmálann. Og núna hefur þingmálið mitt um lögfestingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks verið samþykkt á Alþingi og er ekki sjálfsagt að ná þingmannamáli í gegnum Alþingi eins og alkunna er, hvað þá verandi í stjórnarandstöðu. Þetta er þingmál sem hefur mikla efnislega þýðingu fyrir mjög stóran hóp og mun bæta réttarstöðu hans, ekki einungis gagnvart stjórnvöldum heldur einnig gagnvart einkaaðilum.“

Fullgilding ekki sama og lögfesting

Nú hefur samningurinn verið fullgiltur. Hverju breytir lögfestingin? „Ísland hefur einungis „fullgilt“ samninginn en það er alls ekki það sama og „lögfesting“ hans. Í íslenskri lagatúlkun þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif. Þess vegna skiptir miklu máli að átta sig á muninum á lögfestingu alþjóðasamnings og fullgildingu. Samkvæmt íslenskri réttarskipan er ekki hægt að beita samningnum með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum, eins og hægt er að gera með almenn lög, nema samningurinn hafi verið lögfestur. Stangist ákvæði alþjóðasamnings, sem hefur einungis verið „fullgiltur“ eins og hér hefur verið gert, við íslensk lög víkja ákvæði samningsins. Sem dæmi má nefna að í nýlegum Hæstaréttardómi er sérstaklega nefnt að þar sem Ísland hafi einungis „fullgilt“ samning S.þ. um réttindi fatlaðs fólks en ekki „lögleitt“ samninginn gætu dómkröfur í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings.

Við höfum í raun einungis lögfest þrjá meginalþjóðasamninga og eru það Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu og EES-samningurinn. Nú verður samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks settur á þennan stall og því er ég afskaplega stoltur af þessu þingmáli.“

Samræmist viljanum til að gera vel

Nú má spyrja sig hvort lögfesting mannréttindasáttmála og samninga af þessu tagi breyti í raun einhverju. Snýst þetta ekki fyrst og fremst um að stjórnvöld hafi vilja til að gera vel við alla þegna sína og stuðla að jafnrétti á öllum sviðum? „Jú, einmitt, því markmið samningsins eru að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn. Mikilvægustu skilaboð samningsins eru að fatlaðir einstaklingar eigi fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að þeir eigi að fá að njóta sjálfstæðs lífs og einstaklingsfrelsis á við aðra. Þess vegna skiptir lögfestingin svo miklu máli,“ segir Ágúst Ólafur.

Hvað myndir þú vilja sjá gert í málefnum fatlaðs fólks? „Það þarf að vinna af miklu meiri krafti að samfélagi sem tekur tillit til allra hópa í samfélaginu, ekki síst til fatlaðra. Þá þarf að tryggja hagsmuni fatlaðs fólks í miklu meira samráði við þann hóp en sá hópur veit best hvar úrbóta er helst þörf. Að mínu mati er þessi samningur mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks og með lögfestingunni værum við að setja Ísland á verðugan stall þegar kemur að réttindamálum fatlaðra. “

Nú eru kosningar fram undan og landslagið á þinginu getur breyst mikið. Ertu bjartsýnn á að samningurinn verði lögfestur í náinni framtíð?„Nú hefur Alþingi, löggjafarvaldið, samþykkt þingmálið mitt um að það beri að lögfesta samninginn og því er ríkisstjórninni, framkvæmdarvaldinu, ekki stætt að hunsa það. Það er bara útilokað í mínu huga en samt virðist maður þurfa að halda áfram að berjast fyrir lögfestingunni. Mér finnst hreint út sagt dapurlegt ef ríkisstjórnin ætlar hunsa vilja löggjafans í þessu máli af öllum en lögfestingin átti að vera lokið fyrir tæpum tveimur árum. Þótt ég yfirgefi Alþingi núna mun ég halda áfram að berjast fyrir lögfestingunni þar til hún er í höfn,“ segir hann að lokum.

Nú má geta þess að Alþingi ályktaði á árinu 2016 að valkvæð bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skyldi einnig fullgilt fyrir árslok 2017. Það hefur enn ekki orðið en verði hún fullgilt getur fatlað fólk vísað umkvörtunarefnum, sem ekki hafa fengið þá niðurstöðu í íslensku réttarkerfi sem einstaklingurinn telur samræmast samningnum, til nefndarinnar sem starfar á grundvelli hans. Í slíkum málskotsrétti fælist mikil viðurkenning á réttindum fatlaðs fólks auk þess að stuðla að réttri túlkun samningsins.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir. Mynd: Hallur Karlsson.

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)