Skip to main content
Frétt

50 þúsund króna eingreiðsla, og breytingar um áramót.

By 20. nóvember 2020No Comments
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, aðgerðir til að koma til móts við örorkulífeyrisþega. Nú í desember verður greidd út 50 þúsund króna eingreiðsla til allra þeirra sem eiga rétt rétt á lífeyri á árinu. Greiðslan er ekki skattskyld, og veldur því ekki skerðingum annars staðar í kerfinu.

Þá samþykkti ríkisstjórnin að gera breytingar á almannatryggingakerfinu frá og með 1. janúar n.k. á þann hátt að örorkulífeyrir þeirra sem engar atvinnutekjur hafa, og búa á Íslandi, hækkar umfram þá 3.6% hækkun sem fyrirhuguð er í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga en dregið verður úr innbyrðis skerðingum sem mun skila tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum tæplega 8.000 króna viðbótarhækkun á mánuði umfram fyrirhugaða hækkun uppá 3,6% sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Heildarhækkun bóta almannatrygginga til tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna verður því tæpar 20 þúsund krónur um áramót.

Þegar tillit hefur verið tekið til skattkerfisbreytinga sem einnig taka gildi um áramótin, munu ráðstöfunartekjur þessa hóps aukast rétt um 21.000 krónur á mánuði.

Hér er verið að nýta þá fjárheimild sem til staðar var, og var ætluð í kerfisbreytingar. Öryrkjabandalagið hefur kallað eftir því í langan tíma hvernig annars vegar þessi fjárheimild, sem var ónýtt á því ári sem nú er að líða, verði nýtt, og hvort og þá hvernig samsvarandi fjárheimild yrði nýtt á næsta ári.

Breytingarnar núna eru því mjög ánægjulegar, þó ljóst sé að þær nái ekki til allra, þá ná þær til þeirra sem engar tekjur hafa haft og því minnst úr að moða.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ: „Það er okkur mikil ánægja að þetta sé nú í höfn, og ljóst að hér er góður áfangasigur. Það er jafnframt ljóst að mikið verk er enn óunnið, og baráttunni er hvergi nærri lokið. En þetta er góður dagur“

Eingreiðslan verður greidd út sérstaklega í fyrir 18. desember, til viðbótar við desemberuppbót, sem verður 61.000 kr. fyrir þá sem búa einir, en 46.000 kr. fyrir aðra, sem jafnframt er greidd út í desember, en vænta má að mánaðarlega hækkunin taki gildi strax 1. janúar á nýju ári og munu ná til um 7.500 einstaklinga.