Skip to main content
Frétt

Aðalfundur ÖBÍ 2021

By 17. janúar 2022No Comments
Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Hilton Reykjavík Nordica 15. október 2021, kl. 16:00-19:00, og 16. október 2021, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:05 og bauð fundargesti í sal sem og á Zoom hjartanlega velkomna. Formaður brýndi fyrir gestum að huga vel að sóttvörnum vegna Covid-19.

Á síðasta aðalfundi árið 2020 var í fyrsta sinn kosið með rafrænu kosningakerfi sem gekk vonum framar og því var ákveðið að nota það einnig í ár.

Á starfsárinu var ráðist í mikla stefnumótun hjá bandalaginu og einnig var unnin greining á virkni á skipulagi skrifstofu ÖBÍ og tillögur gerðar um breytingar. Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ til síðustu 13 ára var kvödd og við starfi hennar tók Eva Þengilsdóttir.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Ríkey Jóna Eiríksdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Helga Guðmundsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju væri fulltrúum málefnahópa, stjórnar og hreyfinga ÖBÍ boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2020 til 2021. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-35) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Heimsfaraldur Covid 19 setti mark sitt á starf bandalagsins á þessu ári líkt og á árinu 2020. Segja mætti að aðlögunarhæfni gæti verið orð ársins, að minnsta kosti hvað varðar starfsemi ÖBÍ. ÖBÍ leitaði allra leiða til þess að halda baráttumálum þess hátt á lofti og nýtti til þess ýmsa miðla, auglýsti, skrifaði, talaði og hélt fjarfundi. Þau málefni sem hæst báru á starfsári bandalagsins voru kjaramál, aðgengismál og geðheilbrigðismál.

Bandalagið varð 60 ára á árinu. Heimsfaraldurinn kom í veg fyrir hátíðarhöld á sjálfan afmælisdaginn 5. maí en ÖBÍ minntist þó dagsins á áberandi hátt. Fjórblöðungur ÖBÍ, þar sem athyglinni var beint að því hve miklir eftirbátar við Íslendingar erum hinum Norðurlandaþjóðunum í velferðarmálum, fylgdi Fréttablaðinu og barst inn um lúgur landsmanna 8. maí. Þó nokkur umræða skapaðist í kjölfarið á þessum bæklingi ásamt skýrslu Stefáns Ólafssonar um íslenska lífeyriskerfið í samanburði við hin norrænu kerfin. Þann 5. september var haldinn afmælisfögnuður. Forseti Íslands var heiðursgestur og Sif Holst, varaformaður dönsku systursamtaka ÖBÍ, hélt fyrirlestur. Veittar voru 18 viðurkenningar til baráttufélaga sem unnið hafa fyrir bandalagið í áratug eða meira. Guðríður Ólafs Ólafíudóttir fékk heiðursviðurkenningu fyrir langt og mikilvægt starf í þágu fatlaðs fólks.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar gerðist það að örorkulífeyrir varð lægri en atvinnuleysisbætur og munar nú tæpum 50.000 kr. ÖBÍ lagði áherslu á hækkun örorkulífeyris í öllum samskiptum við stjórnvöld og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna, sem sagt að verulega yrði dregið úr skerðingum vegna tekna öryrkja. Þar að auki kallaði ÖBÍ eftir tímasettri áætlun frá stjórnvöldum um hækkun örorkulífeyris til jafns við lágmarkslaun.

Stór áfangi náðist þegar örorku- og endurhæfingargreiðslur hækkuðu 1. janúar 2021 hjá rétt um 7.800 manns um 8.000 kr. umfram vísitöluhækkun. Strax og ríkisstjórnin hafði kynnt aðgerðir sínar um hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris til þeirra sem engar aðrar tekjur hafa var ljóst að þrýsta þyrfti á að tekjuviðmið yrðu hækkuð í kjölfarið til að hækkanirnar hyrfu ekki í vasa sveitarfélaganna. ÖBÍ, ASÍ og BSRB leiddu saman hesta sína og vöktu athygli stjórnvalda á þessu. Þetta leiddi til þess að við lokaafgreiðslu fjárlaga var samþykkt að hækka húsnæðisbætur um 250 milljónir. Auk þess var um 100 milljón kr. tímabundin hækkun framlags til húsnæðisbóta samþykkt. Þetta þýddi að hækkun örorkulífeyris eftir áramót hafði ekki þau kveðjuverkandi áhrif að lækka húsaleigubætur eða sérstakar húsaleigubætur. Ómetanlegt er að hafa stuðning launahreyfingarinnar í kjarabaráttunni.

Á árinu var farið í mótun á heildarstefnu fyrir ÖBÍ. Ráðgjafafyrirtækið Arcur sá um stefnuþing ÖBÍ og stefnumótunina en vinnunni lauk með kynningu fyrir stjórn ÖBÍ í ágúst. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við aðildarfélög og fulltrúa í málefnahópum ÖBÍ ásamt stjórn. Undir lokin var unnin greining á virkni og skipulagi skrifstofu ÖBÍ og tillögur gerðar um breytingar.

Tillaga stefnuþings og niðurstaða vinnu ráðgjafa er að stefna ÖBÍ verði byggð upp í kringum níu meginmarkmið: Skilvirk heilbrigðisþjónusta, öflug atvinnuþátttaka, nám fyrir alla, gott aðgengi, sjálfsögð réttindi, góð lífskjör, merkingarbært samráð, sterk jákvæð ímynd og víðtæk þátttaka. Hvert og eitt þessara meginmarkmiða á að stuðla að langtíma umbótum og jákvæðum breytingum. Á grunni hvers meginmarkmiðs eru kynntar áherslur stefnunnar sem varða götuna fram á við í sértækum málefnum. Áherslurnar eiga að geta stutt við og veitt leiðsögn um fjölmörg verkefni bæði á vettvangi málefnahópa en einnig til verkefna innan aðildarfélaga.

Aðgengismál fengu talsverða athygli í samfélaginu, bæði hjá stjórnmálamönnum og almenningi. Í maí 2021 undirrituðu formaður ÖBÍ, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og barnamálaráðherra og formaður og framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga samkomulag um stórátak um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Í kjölfarið réð ÖBÍ verkefnisstjóra til starfa sem er tengiliður aðgengisfulltrúa sveitarfélaganna og mun vinna með þeim að áríðandi verkefnum. Verkefnið er tímabundið til loka ársins 2022 og verður metið í lokin hvort því verði haldið áfram. Meðal verkefna sem unnið hefur verið að eru endurbætur á strætóbiðstöðvum og eins var sett upp hjólastólalyfta á Bessastöðum.

ÖBÍ lagði sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál á starfsárinu og hefur þrýst mjög á innleiðingu og fjármögnun á sálfræðiþjónustu. Í ljósi þess að andleg veikindi hrjá um 40% af ungu fólki þá er það fjárfesting til framtíðar að niðurgreiða sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk. ÖBÍ vakti athygli á málinu með greinaskrifum og auglýsingaherferð.

ÖBÍ vakti einnig athygli á því að þegar börn fatlaðs fólks ná 18 ára aldri og eru ekki í skóla fellur heimilisuppbót niður og því neyðast margir til að reka börn sín að heiman. Ráðherra breytti þessari reglugerð þannig að börn mega nú búa heima til 25 ára aldurs án þess að sú búseta hafi áhrif á heimilisuppbót foreldris, séu þau í fullu námi. ÖBÍ vinnur að því breyta þessu þannig að orðalagið fullt nám verði fellt úr reglugerðinni.

Stærstu áfangasigrarnir í hagsmunabaráttunni virðast ekki nást nema með atbeina dómstóla. Fjöldi mála er annaðhvort í undirbúningi til málshöfðunar eða nú þegar í meðförum dómstóla.

Vorið 2021 var samið við Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um að gera spurningakönnun um fjárhagsstöðu fatlaðs fólks, heilsu þess, líðan og þátttöku á vinnumarkaði. Mikilvægt er að meta stöðu öryrkja og þeirra sem þiggja örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri.

Að lokum sagði formaður frá því að ljóst væri að baráttan mun halda áfram þar sem fjölmörg hagsmunamál bíða úrlausnar. Hún þakkaði starfsmönnum, aðildarfélögum og málefnahópum fyrir góð störf á árinu og hvatti alla til þess að „vera breytingin“.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar og nokkrar fyrirspurnir og ábendingar bárust meðal annars í sambandi við aðgengismál og dómsmál. Ennfremur var bent á að alzheimer sjúklingar falla oft á milli sveitarfélaganna og félagslega kerfisins. Spurt var hvort það væri fötlun að greinast með heilabilun og hvort ÖBÍ sjái fyrir sér að þessi hópur falli undir bandalagið? Formaður taldi ljóst að alzheimer væri fötlun og alzheimer sjúklingar ættu klárlega heima hjá ÖBÍ.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2020 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur ÖBÍ 2020).

Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2020. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.

Endurskoðandi fór yfir helstu meginatriði ársreikningsins:

Rekstrartekjur ársins 2020 voru 921,5 milljónir í stað rúmlega 706 milljónir árið 2019.

Rekstrargjöld ársins 2020 voru svipuð og árið áður, eða 322,1 milljónir 2019 í stað 322,2 milljónir árið 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2020 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 599,4 milljónir, en var tæplega 384 milljónir árið 2019

Rekstrarafkoma ársins 2020, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum, var jákvæð um 78 milljónir, í stað ríflega 4,6 milljóna halla árið áður.

Efnahagshluti reikningsins breyttist ekki mikið á milli ára. Varanlegir fastafjármunir voru 309,6 milljónir 2020 samanborið við 317,5 milljónir árið áður og jukust langtímakröfur úr 207 milljónum árið 2019 í 214 milljónir árið 2020. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.

Fastafjármunir samtals voru því 523 milljónir 2020 í stað 525 milljóna árið áður.

Veltufjármunir voru 275 milljónir 2020 í stað 304 milljóna 2019 og voru eignir því samtals 798 milljónir árið 2020, í stað 829 milljóna 2019.

Eigið fé og skuldir voru samtals 798 milljónir árið 2020 í stað 829 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 686 milljónir 2020 í stað 608 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 112 milljónir 2020 í stað 221 milljón árið 2019. Helsta skýring á lækkun skulda milli ára er lækkun skammtímaskulda vegna þess að í lok árs 2019 var ekki búið að gera upp við Brynju hússjóð en uppgjörið 2020 við Brynju fór fram fyrir árslok.

Handbært fé í árslok 2020 var því 175,6 milljónir, í stað 227,6 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í greinargóðar skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 11-20 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Jón Heiðar Jónsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir.

Jón Heiðar Jónsson gjaldkeri sagði að Covid hefði m.a. haft áhrif á það að rekstrargjöld hafa sveiflast til. Kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu og rannsókna hefur hækkað á meðan kostnaður vegna funda, ráðstefna, auglýsinga og kynninga lækkaði.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2020 var samþykktur samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2020-2021 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 40-46 og 67). Formenn málefnahópa kynntu sig og klöppuðu fundargestir fyrir þeim og starfi málefnahópanna.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 49-54) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Flóki Ásgeirsson staðgengill formanns stjórnar Brynju var til svara. Nokkrar fyrirspurnir bárust. Spurt var um málarekstur Brynju við Reykjavíkurborg og svaraði Flóki því til að dómsmál væri rekið á milli þessara aðila og að niðurstöðu væri að vænta á næstu vikum.

Bent var á að skv. ársreikningi Brynju sést að mikil aukning hefur verið í óráðstöfuðu eigin fé Brynju. Er það hlutverk Brynju að safna hagnaði fremur en að kaupa íbúðir? Flóki svaraði því að það sé svo sannarlega hlutverk Brynju að fjárfesta í íbúðum en það ferli sé hins vegar langt og tímafrekt. Uppsöfnun hefur orðið en stefnt er að því að fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir þá hópa sem þurfa. Mikilvægt er að hafa í huga að Brynja getur ekki keypt hvaða húsnæði sem er, huga þarf að aðgengismálum, staðsetningu og mörgu fleiru.

Að lokum barst fyrirspurn frá íbúa í Hátúni hvort fyrirhugað væri að halda íbúafund á milli Brynju húsfélags og íbúa Hátúns. Flóki mun koma ábendingunni áleiðis.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara, ein fyrirspurn barst varðandi framlög Vinnumálastofnunar (VMST) til Örtækni og hvort að fjölgun hefði orðið á störfum á vegum Örtækni. Þorsteinn svaraði því til að gert hefur verið samkomulag á milli VMST og sveitarfélaganna. Samkomulagið er mjög óljóst sem gerir það að verkum að mikil togstreita er á milli þessara aðila. Framlög til Örtækni hafa verið þau sömu síðustu 6 árin.

Þuríður Harpa, formaður, þakkaði Þorsteini sérstaklega fyrir mjög vel unnin störf í gengum langan og farsælan starfsferil (28 ár) og óskaði honum alls hins besta um ókomna tíð.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

TMF – Tölvumiðstöð (d)

Rúnar Björn Herrera, stjórnarformaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (f)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn ÍG, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefna og starfsáætlun stefnuþings (5)

Á árinu var farið í mótun á heildarstefnu fyrir ÖBÍ og sá ráðgjafafyrirtækið Arcur um stefnumótunina og stefnuþing ÖBÍ, sem haldið var í apríl 2021. Vinnunni lauk með kynningu á stefnu fyrir stjórn ÖBÍ í ágúst. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við aðildarfélög og fulltrúa í málefnahópum ÖBÍ ásamt stjórn. (Stefnuskjal ÖBÍ var sent út til fundarfulltrúa fyrir fundinn, fskj. nr. 20.)

Arnar Pálsson, ráðgjafi hjá Arcur, sagði frá vinnu stefnuþings, sem að þessu sinni var rafrænt vegna Covid. Lögð var fram framtíðarsýn ÖBÍ og tillögur að áherslum og markmiðum bandalagsins til næstu ára. Næstu skref eru að málefnahóparnir noti þessa framtíðarsýn og áherslur í starfi sínu.

Framtíðarsýn ÖBÍ er að standa vörð um réttindi fatlaðra einstaklinga og aðstandenda þeirra í kraftmiklu samstarfi við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila. Stefna ÖBÍ 2020-2022 er byggð upp i kringum níu meginmarkmið:

  1. Skilvirk heilbrigðisþjónusta
  2. Öflug atvinnuþátttaka
  3. Nám fyrir alla
  4. Gott aðgengi
  5. Sjálfsögð réttindi
  6. Góð lífskjör
  7. Merkingarbært samráð
  8. Sterk jákvæð ímynd
  9. Víðtæk þáttaka

Leiðarstef þessara meginmarkmiða er líf til jafns til aðra. Þau hafa verið tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem og Samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk. Á stefnuþingi 2021 voru 6 forgangsáherslur samþykktar út frá þessum 9 meginmarkmiðum og munu málefnahóparnir vinna eftir þeim og hjálpa til við að velja réttu verkefnin og ná markmiðunum.

Fundarstjóri bauð upp á fyrirspurnir og umræður en engar urðu.

Gengið var til kosninga um áherslur stefnuþings. 101 (99%) samþykkti áherslurnar.

Á stefnuþingi var kosið um hvaða málefnahópar eigi að vera fastir málefnahópar bandalagsins næstu árin. Tillagan er eftirfarandi:
  1. Málefnahópur um heilbrigðismál
  2. Málefnahópur um kjaramál
  3. Málefnahópur um húsnæðismál
  4. Málefnahópur um málefni barna
  5. Málefnahópur um aðgengismál

Breytingartillaga barst frá stjórn ÖBÍ og hljóðar hún svo:

Stjórn ÖBÍ leggur til að tillögu stefnuþings um fasta málefnahópa næstu ára verði breytt þannig að málefnahópur um atvinnu- og menntamál verði áfram fastur málefnahópur í stað þess að tímabundinn málefnahópur um málefni barna verði gerður að föstum málefnahópi.

Fastir málefnahópar verða því:
  1. Málefnahópur um heilbrigðismál
  2. Málefnahópur um kjaramál
  3. Málefnahópur um húsnæðismál
  4. Málefnahópur um atvinnu- og menntamál
  5. Málefnahópur um aðgengismál

Fundarstjóri bauð uppá umræður um tillögurnar. Líflegar umræður urðu og spurt var af hverju málefnahópur um málefni barna ætti ekki að vera fastur. Formaður svaraði því til að ÖBÍ vildi leggja áherslu á fullorðið fólk þar sem meginþorri félagsmanna væru fullorðið fólk. Varaformaður bætti við að hópurinn muni starfa áfram þótt hann verði ekki fastur málefnahópur.

Gengið var til kosninga um breytingartillögu stjórnar. 82 samþykktu eða 85,42% fundarmanna og 9 sögðu nei eða 9,38%. Breytingartillagan telst því samþykkt.

Því næst var tillagan um það hverjir fastir málefnahópar ÖBÍ eigi að vera á næstu árum borin fram aftur með áorðnum breytingum. Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu. Gengið var til kosninga og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (91%).

Ákvörðun aðildargjalda (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Fundarstjóri tilkynnti jafnframt að ef engin mótmæli væru liti fundarstjóri svo á að tillagan væri samþykkt. Engin mótmæli voru og telst því tillagan samþykkt.

Þóknun fyrir stjórnarsetu (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði eftirfarandi:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er 2.502 kr. á hverja einingu, miðað við apríl 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Ein fyrirspurn barst varðandi einingakerfið á bak við tillöguna. Framkvæmdastjóri svaraði og útskýrði hugmyndina að baki einingakerfisins. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða.

Kl. 18:44 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 16. október 2021.

Laugardagur 16. október 2021 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:12.

Kosningar í stjórn

Yfirlit yfir aðalfundarfulltrúa var sent út í fundargögnum og liggur á borðum fundarmanna í sal (fskj. nr. 7) ásamt yfirliti yfir framboð (fskj. nr. 8).

Formaður kjörnefndar Jón Þorkelsson greindi frá starfi nefndarinnar. Starfið gekk vel og náðist að finna fólk í öll laus embætti.

Formaður (8)

Þuríður Harpa Sigurðardóttir frá Sjálfsbjörg lsh. gaf kost á sér til næstu 2ja ára (fskj. nr. 9). Ekki bárust fleiri framboð til formanns og var Þuríður Harpa því sjálfkjörin sem formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Varaformaður (9)

Kosið verður 2022.

Gjaldkeri (10)

Kosið verður 2022.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Kosið var um formenn fastra málefnahópa sem samþykktir voru undir lið 5 (fskj. nr. 10-13).

Málefnahópur um aðgengismál: Bergur Þorri Benjamínsson frá Sjálfsbjörg lsh. var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um aðgengismál.

Málefnahópur um atvinnu-og menntamál: Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands var ein í framboði og var því sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál.

Málefnahópur um heilbrigðismál: Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um heilbrigðismál.

Málefnahópur um kjaramál: Atli Þór Þorvaldsson frá Parkinsonsamtökunum var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um kjaramál.

Málefnahópur um húsnæðismál: María Pétursdóttir frá MS félagi Íslands var ein í framboði og var því sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um húsnæðismál.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára. Sjö höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 14 a-g).

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Hjördís Ýrr Skúladóttir, MS félagi Íslands, 85 atkvæði (21,85%)
  • Albert Ingason, SPOEX, 70 atkvæði (17,99%)
  • María M.B. Olsen, Gigtarfélagi Íslands, 56 atkvæði (14,4%)
  • Fríða Rún Þórðardóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, 55 atkvæði (14,14%)
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu, 55 atkvæði (14,14%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh., 37 atkvæði (9,51%)
  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 31 atkvæði (7,97%)

Þar sem Fríða Rún og Guðrún Barbara hlutu jafnmörg atkvæði þurfti að skera úr um hvor fær sætið. Samkvæmt lögum ÖBÍ skal hlutkesti ráða, nema tillaga komi fram um annað. Fundurinn vildi kjósa og var niðurstaða kosninganna sú að Fríða Rún Þórðardóttir hlaut kosningu (53%) og var því kjörin stjórnarmaður.

Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2021-2023: Albert Ingason, Fríða Rún Þórðardóttir, Hjördís Ýrr Skúladóttir og María M.B. Olsen.

Varamenn (13)

Engin framboð til varamanna bárust fyrir fundinn. 2 sæti voru laus og bauð fundarstjóri áhugasömum fundarmönnum 5 mínútur til að skila inn framboðum á fundinum.

4 framboð bárust og skiptust atkvæðin á eftirfarandi hátt:

  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 37, atkvæði (18,5%)
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu, 92 atkvæði (46%)
  • Herbert Snorrason, ADHD samtökunum, 32 atkvæði (16%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh., 39 atkvæði (19,5%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Guðrún Barbara Tryggvadóttir og María Óskarsdóttir hlutu kosningu sem varamenn til næstu tveggja ára.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Fimm buðu sig fram í embætti aðalmanna í kjörnefnd (fskj. nr. 15 a-g):

  • Albert Ingason, SPOEX
  • Dagný Erna Lárusdóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands
  • Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands
  • Sigurbjörg Ármannsdóttir, MS félagi Íslands
  • Sigrún Birgisdóttir, Einhverfusamtökunum

Tveir buðu sig fram til embættis varamanna í kjörnefnd:

  • Dóra Ingvadóttir, Gigtarfélagi Íslands
  • Einar Þór Jónsson, HIV Íslandi.

Ekki bárust fleiri framboð í kjörnefnd og voru því áðurnefndir aðilar sjálfkjörnir.

Laganefnd (15)

Sex framboð bárust til aðalmanna í laganefnd (fskj. nr. 16 a-f). Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Herbert Snorrason, ADHD samtökunum, 62 atkvæði ( 14,76%)
  • Jóhann Guðvarðarson, Gigtarfélagi Íslands, 76 atkvæði (18,1%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg Ish., 68 atkvæði (16,19%)
  • Ólafur Árnason, Parkinsonsamtökunum, 51 atkvæði (12,14%)
  • Ragnar Davíðsson, Nýrri rödd, 78 atkvæði (18,57%)
  • Sævar Guðjónsson, Heilaheillum, 83 atkvæði (19,76%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Herbert Snorrason, Jóhann Guðvarðarson, María Óskarsdóttir, Ragnar Davíðsson og Sævar Guðjónsson hlutu kosningu sem aðalmenn í laganefnd til næstu tveggja ára.

Fimm framboð bárust til varamanna í laganefnd. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • María Pétursdóttir, MS félaginu, 36 atkvæði (18,56%)
  • Ólafur Árnason, Parkinsonsamtökunum, 20 atkvæði (10,31%)
  • Ásta Þórdís Skjalddal, Sjálfbjörg lsh., 52 atkvæði ( 26,8%)
  • Eiður Welding, CP á Íslandi, 40 atkvæði (20,62%)
  • Sigurður Helgason, Hjartaheillum, 46 atkvæði (23,71%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Ásta Þórdís Skjalddal og Sigurður Helgason náðu kjöri sem varamenn í laganefnd til næstu tveggja ára.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Tvö framboð bárust til skoðunarmanna reikninga (fskj. nr. 17 a-b):

  • Árni Sverrisson, Alzheimersamtökunum á Íslandi
  • Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands

Tvö framboð bárust til varamanna skoðunarmanna reikninga:

  • Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg lsh.
  • Guðmundur Rafn Bjarnason, Blindrafélaginu

Ekki bárust fleiri framboð og voru áðurnefndir aðilar því sjálfkjörnir.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 18 og lagabreytingar í fskj. nr. 19 a-c).

Formaður laganefndar, Bergþór Heimir Þórðarson, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar. Í byrjun starfsársins ákvað laganefnd að leggja áherslu á lagfæringar og einföldun á lögum bandalagsins og eru lagabreytingarnar afurð þeirrar vinnu. Laganefnd fór einnig yfir lögin með tilliti til áhrifa stefnumótunarvinnunnar.

Fundarstjóri útskýrði fyrirkomulag kosninga. Hver liður verður borinn upp til kosninga, síðan verður tillagan í heild borin upp til samþykktar. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum.

Formaður laganefndar kynnti 1. tillögu, sem er tiltekt á lögum í 8 liðum (fskj. nr. 19a). Tilgangur tillögunnar er tiltekt í félagslögum ÖBÍ. Tillögunni er meðal annars ætlað að fella á brott úreltar greinar, samræma orðalag og innleiða fyrstu skref til samræmingar við ný lög um félög til almannaheilla.

1.liður. Breyting á 7. grein um úrsögn úr bandalaginu:
a. Orðin „meira en“ falla úr greininni.

b. Bráðabirgðaákvæði greinarinnar fellur brott.

Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

2.liður. Breyting á 8. grein um brottvikningu félags:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2.málslið greinarinnar kemur „greiddra atkvæða“.

Fyrirspurn barst varðandi ⅔ regluna og hvort að ekki væri ákvæði í lögunum sem fjallar um kosningar og hvernig þær skulu fara fram. Formaður laganefndar svaraði því til að hvergi væri skilgreint á einum stað hvað aukinn meirihluti er.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða.

3. liður. Breyting á 12. grein um kjörgengi og atkvæðagreiðslur:

Á undan orðunum „aðal- og varafulltrúar“ í 2. málslið, 1. málsgreinar kemur orðið „lögráða“.

Fundinum barst breytingartillaga frá Svavari Kjarrval varðandi 3. lið lagabreytingartillögunnar og lagði Svavar til að eftirfarandi málsliður myndi bætast aftan við 1. mgr. 12. gr:

Framangreind krafa um lögræði á ekki við um kjörgengi í laganefnd og kjörnefnd.

Fundarstjóri óskaði eftir stuðningsmanni við tillögu Svavars sem barst. Óskuðu fundargestir eftir skýringu á tillögu laganefndar sem og breytingartillögu Svavars. Nokkrar umræður urðu um málið. Ástæða tillögu laganefndar er sú að lög bandalagsins séu í samræmi við lög um félög til almannaheilla. Ástæða tillögu Svavars er að bæði laganefnd og kjörnefnd eru vinnuhópar og hafa ekkert lagalegt vald.

Gengið var til atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Svavars og var hún samþykkt með 53% greiddra atkvæða.

Kosið var um tillöguna í heild sinni með áorðnum breytingum og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða (77,78%).

4. liður. Breyting á 13. grein um framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar:
a. Í stað orðanna „einum mánuði“ í 2. málslið, 1. gr. kemur „fjórum vikum“.

b. Aftan við 2. málslið, 4. mgr. á eftir orðinu „aðalfundar“ bætist við „með ⅔ hluta greiddra atkvæða“.

Fundinum barst breytingartillaga frá Höllu Þorkelsdóttur:

Í stað „með að minnsta kosti ⅔ hluta greiddra atkvæða“ komi „með meirihluta greiddra atkvæða“.

Umræður voru um tillögurnar áður en gengið var til atkvæða. Breytingartillagan var samþykkt með 61,29% greiddra atkvæða.

Kosið var um tillöguna í heild sinni með áorðnum breytingum og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða (82,65%).

5. liður. Breyting á 14. grein um lagabreytingar:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2. mgr. 14. gr. kemur „hluta greiddra atkvæða“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,7%).

6. liður. Breyting á 15. grein um ályktanir aðalfundar:
a. Orðin „í síðasta lagi fjórum vikum“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
b. Í stað orðanna „eigi síðar en tveimur vikum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur „eins fljótt og kostur er“.

c. 2. mgr. orðast svo: „Tillögum sem berast eftir að fundur er hafinn er hægt að koma á dagskrá aðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 greiddra atkvæða.“

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (96,81%).

7. liður. Breyting á 28. grein um slit bandalagsins:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2. málslið 28. greinar kemur „greiddra atkvæða“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (96,84%).

8. liður. Breyting á bráðabirgðaákvæði um kosningu stjórnarmanna:
a. Orðin „um kosningu stjórnarmanna“ falla brott úr fyrirsögn ákvæðisins.
b. 1. og 2. málsgrein bráðabirgðaákvæðisins falla brott.
c. 3. málsgrein orðist svo: „Tímabil það sem nefnt er í 4. mgr. 12. gr. gildir frá aðalfundi 2015 hvað varðar stjórnarsetu skv. 18. gr. A.“

d. 4. málsgrein orðist svo: „Tímabil þau sem nefnd eru í 4. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 23. gr. gilda að öðru leyti frá aðalfundi 2017.“

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,74%).

Gengið var til kosninga um 1. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (97,75%).

Formaður laganefndar kynnti 2. tillögu, í 2 liðum, sem ætlað er að bæta úr vanköntum í lögum ÖBÍ sem flækja óþarflega rekstur skrifstofu bandalagsins (fskj. nr. 19b).

Fundarstjóri lagði til að kosið væri um 2. tillögu í heild sinni (1. og 2. lið saman) til að spara tíma en mótmæli bárust úr sal. Því var kosið um hvorn lið fyrir sig.

1. liður. Breyting á 4. mgr. 18. gr. A um stjórn:

Á eftir 3. málsl. 4. mgr. bætist nýr málsliður við sem orðast svo: „Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (97,85%).

2. liður. Breyting á 20. grein um framkvæmdastjóra:

Orðin „sem háðir eru samþykki stjórnar“ í lok síðasta málsliðar greinarinnar falla brott.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (93,81%).

Gengið var til kosninga um 2. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (94,62%).

Formaður laganefndar kynnti 3. tillögu, í 2 liðum, sem ætlað er að stytta og einfalda 23. gr. um málefnahópa. Í þess stað kemur skylda stjórnar að setja reglur um hópana (fskj. nr. 19c).

1. liður. Breyting á 23. grein um málefnahópa:

a. Í stað orðanna „einn formann málefnahóps“ í 5. málsl. 1. mgr. 23. gr kemur „tvo formenn málefnahópa kjörna á aðalfundi“.

Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar og umræður varðandi 1. lið a í tillögu 3. Nokkrar umræður urðu um fjöldatakmörkun á fjölda formanna málefnahópa hvers aðildarfélags. Í kjölfarið barst breytingartillaga:

  • Setningin „Hvert félag getur átt mest tvo formenn málefnahópa kjörna á aðalfundi á hverjum tíma“ myndi detta út.

Mótmæli bárust úr sal og var tillagan dregin tilbaka.

b. 2. mgr. 23. gr. fellur brott.

c. Allt sem kemur á eftir orðunum „Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn“ í 3. mgr. 23. gr fellur brott.

Breytingartillaga barst úr sal um að fella út c lið, þ.e.: „Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn“. Fundarstjóri óskaði eftir stuðningsmanni við tillöguna sem fékkst. Gengið var til kosninga og var breytingartillagan samþykkt með 68,42% greiddra atkvæða.

d. 4. mgr. 23. gr. fellur brott.

e. Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi: „Stjórn skal setja reglur um málefnahópa, t.d. um skipan þeirra, fjölda fulltrúa, lengd setu og skýrslugjöf, sbr. 27. gr. laganna. Stjórn hefur heimild til að skipa tímabundna málefnahópa og skulu reglurnar einnig ná yfir þá hópa.“

Kosið var um 1. lið í heild sinni með áorðnum breytingum og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (90,22%).

2. liður. Breyting á bráðabirgðaákvæði um kosningu stjórnarmanna:

Orðin „og 2. mgr. 23. gr.“ í 4. málsgrein falla brott.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (90,43%).

Gengið var til kosninga um 3. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (92,39%).

Að endingu var gengið til kosninga og kosið um lögin í heild sinni með áorðnum breytingum. Lögin voru samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,7%).

Bergþór þakkaði fráfarandi laganefnd fyrir samvinnuna og óskaði nýrri stjórn laganefndar velfarnaðar í komandi starfi.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en tvær ályktanir bárust fyrir fundinn á tilskyldum tíma og óskaði fundarstjóri leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir og var það samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (84,62%).

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti fyrri ályktunina, (fskj. nr. 21) svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2021

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks.

Stór hluti fatlaðs fólks býr við efnislegan skort, þ.e. fátækt, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust.

Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi.

Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti.

Við erum tilbúin, hvað með ykkur?

Ekkert um okkur án okkar!

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Ein fyrirspurn barst varðandi hversu hátt hlutfall fatlaðs fólks býr við efnislegan skort. Þuríður svaraði að hlutfallið væri um það bil 35%.

Gengið var til kosninga og ályktunin samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,74%).

Formaður kynnti seinni ályktunina (fskj. nr. 22), svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2021

Ríkið lögfesti tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn.

Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur um leið og Alþingi kemur saman á 152. löggjafarþingi 2021.

Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur. Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu, nú síðast með dómi Landsréttar 7. október sl. þar sem borgari átti ekki rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) þrátt fyrir ákvæði samningsins, einkum 19. gr. hans.

Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa.

Ekkert um okkur án okkar!

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina en enginn tók til máls.

Gengið var til kosninga og var ályktunin samþykkt með afgerandi meirihluta (96,77%).

Önnur mál (20)

A

Eiður Welding frá CP félaginu hvatti aðildarfélög ÖBÍ til þess að styrkja ungmennastarf sitt og benti á að enginn gæti tjáð sig um málefni barna án þess að vera í virku samstarfi við þau.

B

Einn fundargesta þakkaði fyrir frábæran fund og benti á að margir fundargesta tilheyri einnig hópi eldri borgara. Hann hvatti alla til þess að berjast fyrir réttindum beggja hópa. Einnig talaði hann um mikilvægi þess að minna TR og SÍ á að borga allt sem þessir hópar eiga rétt á.

C

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, vakti athygli á því að 3 formenn málefnahópa létu nú af störfum vegna sólarlagsákvæðis og bauð þau velkomin í pontu. Þökkuðu þau meðlimum málefnahópanna fyrir gott og gefandi starf og hvöttu sem flesta til þess að taka þátt í vinnu málefnahópanna.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði aðalfundarfulltrúum fyrir fundarsetuna og bauð nýtt fólk hjartanlega velkomið til starfa. Um leið þakkaði hún fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf og óskaði þeim velfarnaðar og kvaðst hlakka til að sjá þau áfram í baráttunni. Hún þakkaði einnig traustið fyrir að kjósa sig aftur sem formann. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf, sem og starfsfólki ÖBÍ.

Formaður sleit fundi kl. 16:33.


Fylgiskjöl:

  1. Dagskrá aðalfundar ÖBÍ 15. og 16. október 2021
  2. Ársskýrsla ÖBÍ 2020 til 2021
  3. Ársreikningur ÖBÍ 2020
  4. Ársreikningur fyrirtækja 2020
  5. a) Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins
  6. b) Örtækni
  7. c) Hringsjá
  8. d) Fjölmennt
  9. Ákvörðun aðildargjalda
  10. Þóknun fyrir stjórnarsetu
  11. Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ
  12. Yfirlit yfir framboð til embætta 2021
  13. Kynning frambjóðanda til formanns (1)
  14. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um aðgengismál (1)
  15. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál (1)
  16. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um heilbrigðismál (1)
  17. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um kjaramál (1)
  18. a) til g) Kynningar frambjóðenda til stjórnar (7)
  19. a) til g) Kynningar frambjóðenda til kjörnefndar (7)
  20. a) til f) Kynningar frambjóðenda til laganefndar (6)
  21. a) til b) Kynningar frambjóðenda til skoðunarmanna reikninga (2)
  22. Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 3. október 2020
  23. a) til c) Lagabreytingatillögur laganefndar (3)
  24. Stefnuskjal ÖBÍ
  25. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2021, áskorun á þingmenn
  26. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2021, lögfesting SRFF

(Kynningum frambjóðenda er raðað eftir stafrófsröð ef framboð eru fleiri en eitt)