Skip to main content
Frétt

Aðalfundur skorar á þingmenn að rétta hlut fatlaðs fólks.

By 18. október 2021No Comments
Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins, haldinn 15. og 16. október s.l. var samþykkt ályktun þess efnis að skora á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks. Ályktunin er hér í heild sinni.

Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2021

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks.

Stór hluti fatlaðs fólks býr við efnislegan skort, þ.e. fátækt, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust.

Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi.
Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti.
Við erum tilbúin, hvað með ykkur?

Ekkert um okkur án okkar!

Aðalfundur samþykkti einnig aðra ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn. Ályktunin er svohljóðandi:

Ríkið lögfesti tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn.

Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur um leið og Alþingi kemur saman á 152. löggjafarþingi 2021.

Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur. Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu, nú síðast með dómi Landsréttar 7. október sl. þar sem borgari átti ekki rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) þrátt fyrir ákvæði samningsins, einkum 19. gr. hans.

Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa.

Ekkert um okkur án okkar!

Greinargerð:

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af hálfu íslenska ríkisins 30. mars 2007. Samningurinn var fullgiltur 23. september 2016 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 23. október sama ár, sbr. auglýsingu nr. 5/2016 í C-deild Stjórnartíðinda. Í þingsályktuninni sem samþykkt var af fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sagði:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.“

Í greinargerð með þingsályktuninni sagði um fullgildingu viðaukans:

„Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.“

Þegar ríki verður aðili Samningsins ber það skyldu til „að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“ (4. gr. Samningsins).

Íslenskir dómstólar hafa litið svo á að Samningurinn hafi ekki réttaráhrif á Íslandi fyrr en hann hefur verið lögfestur, þ.e. hann gerður að lögum frá Alþingi. Á Íslandi hefur fjöldi alþjóðlegra mannréttindasáttmála verið lögfestur og má sem dæmi nefna Mannréttindasáttmála Evrópu.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. október 2018 í máli nr. 106/2017 var skýrt kveðið á um að Samningurinn hefði ekki lagagildi og kvæði þannig ekki á um íslenskar lagareglur fyrr en við lögfestingu. Í dóminum sagði m.a.: „Eins og áður greinir hefur Ísland undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki leitt ákvæði hans í lög hér á landi. Þegar af þeirri ástæðu geta dómkröfur áfrýjenda í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur („Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis“) 30. nóvember 2017 sagði meðal annars:

„Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

Með þingsályktun Alþingis 3. júní 2019 var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu Samningsins. Í þingsályktuninni kom fram að frumvarp um lögfestingu Samningsins skyldi lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020. Ríkisstjórnin lagði ekki fram slíkt frumvarp á kjörtímabilinu og hefur ekki veitt skýringar eða fært fyrir því rök.

Með dómi Landsréttar 7. október 2021 í máli nr. 226/2021 kom skýrt fram sú afstaða að einstaklingur hefði ekki átt rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Í dómi Landsréttar er ekki minnst á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.