Skip to main content
AðgengiFrétt

Aðgengisfulltrúar: Mikilvægur tengiliður inn í stjórnsýsluna

Guðjón á fundi um aðgengismál í Grindavík.

Hvað eru aðgengisfulltrúar, hvað gera þeir og hvers vegna eru þeir mikilvægir? Guðjón Sigurðsson pípulagningameistari er verkefnastjóri hjá ÖBÍ réttindasamtökum og hann er besti maðurinn í að útskýra það.

Guðjón sér um að fylgja eftir samkomulagi ríkis, sveitarfélaga og ÖBÍ réttindasamtaka um að til verði aðgengisfulltrúar í öllum sveitarfélögum og að sveitarfélögin nýti styrk ríkisins til að bæta aðgengi að sínum eignum með 50% styrk á móti þeim.

„Aðgengisfulltrúar eru mikilvægur tengiliður fyrir íbúa inn í stjórnsýsluna. Eða eins og segir í handbók þeirra:

Hlutverk

 1. Tekur við ábendingum íbúa um það sem betur má fara í aðgengismálum og ekki síður það sem vel er gert.
  2. Hefur frumkvæði að því að láta gera úttektir á aðgengi.
  3. Sveitarfélagið skal leita til aðgengisfulltrúa áður en ráðist er í byggingu húsnæðis á vegum þess.
  4. Skráir verkefnið.
  5. Sendir verkefnið á réttan aðila til úrlausnar.
  6. Fylgist með stöðu verkefnis og lætur vita um farsæl lok þess.

Lausn verkefna

 1. Aðgengisfulltrúi hefur aðgang að þeirri sérfræðiþekkingu sem þarf.
 2. Lætur gera verklýsingu og kostnaðaráætlun.
 3. Skilar kostnaðarmati til þess sem tryggir fjármögnun verksins. (Gæti fallið undir þegar fjármögnuð verkefni, viðhald sem dæmi).
 4. Aðstoðar við gerð umsókna um styrk til Jöfnunarsjóðs eða eftir atvikum til annarra styrktaraðila.
 5. Veitir ráðgjöf vegna framkvæmda verkefna hjá úrlausnaraðila.
 6. Tryggir að ábendingu sé svarað.

Enn er verið að tryggja að allstaðar verði aðgengisfulltrúar en þó eru langflest sveitarfélögin komin með fulltrúa. 97% þeirra eða 62 af 64. Þessi 62 sveitarfélög eru samanlagt með 99,8% íbúa á landinu,“ segir Guðjón.

Að sögn Guðjóns hafa fulltrúarnir nú þegar nýtt 222 milljónir króna af þeim 363 milljónum sem eru í boði til að bæta aðgengi hjá sínum sveitarfélögum. Von sé á frekari framlögum til viðbótar a árunum 2023-2024.

Framlögin hafa verið notuð til ýmissa verkefna. Má þar nefna uppsetningu á lyftum, rafmagnsopnanir á hurðir, halla niður af gangstéttum, lyftur við sundlaugar svo eitthvað sé nefnt. Til starfans hafa valist allar gerðir fólks sem sveitarfélögin velja. Sérstaklega ráðið til starfans eða sem er algengara að fólk bæti þessu á sig með öðru. Byggingafulltrúar, iðjuþjálfar og bæjarstjórar eru á meðal valdra fulltrúa,“ segir Guðjón.

En hver eru næstu skref í þessu ferli?

„Nú fer mestur tími í að hitta þetta ágæta fólk, hvetja til góðra verka og tryggja að þjálfun þeirra sé góð. Fyrst og fremst duglegt og jákvætt fólk sem raðað hefur sér í þessi hlutverk og bara tilhlökkun að vinna með þeim áfram.“