Skip to main content
Frétt

Aðstoðarkona Obama heimsækir ÖBÍ

By 13. febrúar 2018No Comments

Leah Katz-Hernandez, bandarísk baráttukona fyrir réttindum og málefnum fólks með fötlun kom í heimsókn í höfuðstöðvar ÖBÍ ásamt föruneyti í dag. Leah starfaði fyrir Barack Obama í forsetatíð hans og forsetafrúna Michelle.

Leah er hér á landi í boði Félags heyrnarlausra til að ræða við fólk um málefni fatlaðs fólks, stefnumál og aðferðarfræði, aðgengismál og verkefni sem styðja við táknmál. Hún átti góðan fund með forystu ÖBÍ.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, tók á móti henni, ásamt Halldóri Sævari Guðbergssyni, varaformanni ÖBÍ, Bergi Þorra Benjamínssyni, gjaldkera ÖBÍ og Lilju Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra ÖBÍ.

Þegar Leah Katz-Hernandez starfaði fyrir Barack Obama, þá var skrifstofa hennar skammt frá skrifstofu forsetans og inn á þá skrifstofu fór enginn án þess að koma við hjá henni fyrst.  

Hún tjáir sig með táknmáli og hafði túlk sér til aðstoðar í starfinu, bæði í samskiptum augliti til auglitis og eins í gegnum síma.

Hún starfaði einnig sem aðstoðarkona Michelle Obama, forsetafrúar. Hún sagði nýlega í viðtali við BBC að Barack Obama kynni örlítið í bandarísku táknmáli. En í sjálfu sér væri það ekki mikið, forsetinn væri svo önnum kafinn.

Fundurinn í höfuðstöðvum ÖBÍ var mjög góður að sögn viðstaddra, en meðal þess sem var rætt var hvernig íslenskt táknmál var með lögum gert að opinberu tungumáli hér á landi árið 2011.

 

Leah ásamt Þuríði Hörpu fyrir miðri mynd.

Þau voru á fundinum í dag: Lilja Þorgeirsdóttir,Bergur Þorri Benjamínsson, Helga Magnúsdóttir, Halldór Sævar Guðbergsson, Leah Katz-Hernandez, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Emily Cintora, Hildur Sigurðardóttir og Sigríður Vala Jóhannsdóttir.