Skip to main content
Frétt

Af hverju eru konur nefndar sérstaklega í Samningi SÞ?

By 2. apríl 2019No Comments

Staða fatlaðra kvenna í heiminum er ekki sú sama og fatlaðra karla, ekki frekar en staða kynjanna tveggja almennt. Um þetta verður fjallað á málþingi Kvennahreyfingar ÖBÍ sem haldið verður á morgun, 3. apríl.

Sérstakur gestur málþingsins er Dr. Lucy-Ann Buckley, dósent í lögfræði við NUI Galway á Írlandi. Hún spyr: Hvers vegna eru konur nefndar sérstaklega í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks?

Það er mikill fengur í því að fá Dr. Lucy-Ann Buckley hingað til lands. Hún er dósent í lögfræði við National University of Ireland, Galway, þar sem hún starfar við „Center for Disability Law and Policy“. Dr Buckley sérhæfir sig í jafnréttislögum, einkum samtvinnun vinnu-, jafnréttis- og fjölskylduréttar. Skrif hennar þar sem hún fjallar um kynjajafnrétti í fjölskyldu- og vinnurétti, þ.m.t. samtvinnun mismununar á grundvelli kyns og fötlunar á vinnumarkaði, hafa birst víða.

Í væntanlegum skrifum beinir hún sjónum að alþjóðlegri nálgun á viðeigandi aðlögun í lögum um bann við mismunun. Dr Buckley er meðlimur í „Berkeley Comparative Equality and Anti-Discrimination Study Group“, þar sem hún er meðlimur í vinnuhópum um kynferðislega áreitni og um réttindi fatlaðs fólks. Í núverandi vinnu hennar fyrir þann hóp, leggur hún áherslu á áhrif #MeToo hreyfingarinnar á fatlaðar konur. Dr Buckley er virkur þátttakandi í alþjóðlegri stefnumótun.

Á undanförnum árum hefur hún unnið að sameiginlegri yfirlýsingu Joint Statement Towards Inclusive Social Protection Systems Supporting the Full and Effective Participation of Persons With Disabilities (2019), sem þróuð var af Alþjóðavinnumálastofnuninni í samráði við hagsmunaaðila. Hún starfar nú sem sérfræðingur og ráðgjafi ríkja Guernsey í tengslum við þróun nýrrar víðtækrar jafnréttislöggjafar.

Við hverjum öll sem geta til að mæta á málþing Kvennahreyfingar ÖBÍ. Það verður haldið á morgun, 3. apríl, kl. 13-17 á Grand hóteli. Málþinginu verður jafnframt streymt beint hér á vef ÖBÍ og á Facebook síðu ÖBÍ.