Öryrkjabandalag Íslands bauð til samstöðufundar við Alþingishúsið kl. 13 í dag að frumkvæði málefnahóps ÖBÍ um kjaramál. Þar voru þingmönnum afhent skrín með óskum frá málefnahópum ÖBÍ um hvað leggja ætti áherslu á við gerð fjárlaga fyrir árið 2017. Þingmenn úr öllum flokkum tóku á móti óskaskrínunum og ræddu við þátttakendur á samstöðufundinum.
Í óskaskríni hvers þingmanns var ein ósk frá hverjum af málefnahópunum fimm sem eru:
- Málefnahópur um aðgengi
- Málefnahópur um atvinnu- og menntamál
- Málefnahópur um heilbrigðismál
- Málefnahópur um kjaramál
- Málefnahópur um sjálfstætt líf
Hver málefnahópur lagði fram þrjár óskir til þingmanna.
Aðgengi:
- Ég óska þess að virkt eftirlit verði með aðgengi að mannvirkjum.
- Ég óska þess að skylt verði að texta allt íslenskt sjónvarpsefni.
- Ég óska þess að tryggt verði að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða hindrunarlaust.
Atvinnu- og menntamál:
- Ég óska þess að fatlað fólk fái viðeigandi stuðning og hafi jöfn tækifæri á við aðra innan skólakerfisins.
- Ég óska þess að fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu hafi sömu tækifæri og aðrir á vinnumarkaði.
- Ég óska þess að fatlað fólk geti stundað það nám sem það kýs, á eigin forsendum.
Heilbrigðismál:
- Ég óska þess að heilbrigðisþjónusta á Íslandi verði endurgjaldslaus og aðgengileg fyrir alla.
- Ég óska þess að hver og einn langveikur einstaklingur og allt fólk með skerta starfsgetu hafi sinn eigin heimilislækni til að auka yfirsýn og bæta utanumhald.
- Ég óska þess að litið verði á hjálpartæki sem sjálfsagðan hlut, hvort sem er á heimili, á vinnustað eða úti í samfélaginu.
Kjaramál:
- Ég óska þess að óskertur örorkulífeyrir almannatrygginga verði að lágmarki 390 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2017, þannig að ég eigi möguleika á að lifa mannsæmandi lífi.
- Ég óska þess að tekjur undir 310 þús. kr. á mánuði verði ekki skattlagðar, þannig að ég geti mögulega átt fyrir helstu nauðsynjum.
- Ég óska þess að „krónu á móti krónu“ skerðing verði afnumin þannig að ég njóti ávinnings af öðrum tekjum.
Sjálfstætt líf:
- Ég óska þess að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest án tafar.
- Ég óska þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði lögfestur án tafar.
- Ég óska þess að félagslega túlkunarsjóðnum verði tryggt fjármagn til þess að fólk, sem þarf á táknmálstúlkun að halda, geti notið réttar síns til samfélagsþátttöku til jafns við aðra.