Skip to main content
FréttKjaramál

Afkomuöryggi fatlaðs fólks rætt á fundi með forsætisráðherra

By 21. febrúar 2023No Comments
Stjórnarráðshúsið.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, átti ásamt formönnum landssamtakanna Þroskahjálpar og Geðhjálpar fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag. Fundurinn var haldinn haldinn í kjölfar ályktunar sem samtökin sendu frá sér um mánaðarmótin sem varðaði afkomuöryggi fatlaðs fólks.

„Það var gott að fá þennan fund með forsætisráðherra, sem tók vel í erindi okkar og ætlar að taka það upp við ríkisstjórnarborðið,“ segir Þuríður Harpa. Á fundinum var rætt um viðvarandi verðbólgu, hækkandi húsnæðiskostnað og matvöruverð og að lífeyrir almannatrygginga verði að fylgja þeim hækkunum sem hafa verið samþykktar á almennum vinnumarkaði.

Texta ályktunarinnar sem ÖBÍ réttindasamtök, Geðhjálp og Þroskahjálp sendu frá sér á dögunum má sjá hér að neðan:

Ályktun um afkomuöryggi fatlaðs fólks

ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp og Landssamtökin Geðhjálp lýsa þungum áhyggjum af framfærsluvanda fatlaðs fólks sem flest býr við svo bág kjör að ógerlegt er að láta enda ná saman. Ekkert lát er á verðbólgunni sem nú mælist um 10%. Matvara, lyf og sérstaklega húsnæðiskostnaður hefur hækkað umfram þolmörk. Staðan er bág!

Stór hluti launþega hefur gert skammtímasamninga sem hækka laun þeirra afturvirkt frá 1. nóvember. Fatlað fólk, sem fyrir er með lakari kjör en sem nemur lágmarkslaunum, dregst því enn meira aftur úr og bilið milli launa og örorkulífeyris eykst. Frá 2008 hefur kjaragliðnun orðið ár frá ári, þar sem laun hækka meira en greiðslur almannatrygginga. Í dag munar 80.000 – 150.000 kr. á lægstu óskertu greiðslum almannatrygginga og launatöxtum sé miðað við launatöflur SGS.

Skiljum engan eftir

Það er ekki aðeins réttlætismál að kjör fatlaðs fólks fylgi launaþróun í landinu, það er lífsspursmál. ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp og Landssamtökin Geðhjálp skora á ríkisstjórnina að leiðrétta lífeyrisgreiðslur og hækka um að minnsta kosti 42.000 kr.