Skip to main content
Frétt

Afléttum aðskilnaðarstefnunni

By 4. desember 2019No Comments
3. desember árið 1998 á alþjóðlegum degi fatlaðra birti Öryrkjabandalagið grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Afléttum aðskilnaðarstefnunni. Nú 21 ári síðar, er forvitnilegt að lesa hana aftur, með hliðsjón af þeim baráttumálum sem hæst bera í dag, og hvað hefur áunnist. Hér sannast að baráttan er langhlaup, eins og Þuríður Harpa Sigurðardóttir kom inn á í ræðu sinni við afhendingu Hvatningarverðlauna ÖBÍ í ár. Því er greinin hér endurbirt.

Ávarp Öryrkjabandalags Íslands á degi fatlaðra 1998

MEÐ mannréttindasáttmálum höfum við Íslendingar skuldbundið okkur til að tryggja að hver einstaklingur eigi kost á fullri þátttöku í menningar- og mannlífi þjóðarinnar. Þegar við nú fögnum hálfrar aldar afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er við hæfi að líta ögn í eigin barm og spyrja: Hvernig höfum við staðið við okkar hlut? Vart þarf að fara mörgum orðum um að þeim öryrkja sem einungis getur reitt sig á bætur almannatrygginga er í reynd haldið frá eðlilegri þátttöku í mannlífinu. Hann má kallast góður ef hann þarf ekki að leita á náðir hjálparstofnana, en tölur sýna að rúmur helmingur skjólstæðinga Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða krossins er öryrkjar ­ fólk sem vegna fötlunar og veikinda hefur ekki til hnífs og skeiðar. Þetta ástand hefur Hjálparstofnun kirkjunnar gagnrýnt og skorað á íslensk stjórnvöld að bæta svo net almannatrygginga að þeir sem þurfi á því að halda geti skapað sér mannsæmandi líf. Aðskilnaðarstefna á grundvelli fötlunar Til viðbótar við þessar lágu bætur er hér á landi beitt ýmsum stjórnvaldsaðgerðum sem sporna gegn atvinnuþátttöku öryrkja, menntun og fjölskyldulífi. Hér er fyrst og fremst um að ræða jaðarskatta og tekjutengingar sem gagnvart öryrkjum ná út fyrir öll réttlætis- og skynsemismörk. Má í því sambandi minna á að bæði prestastefna og umboðsmaður fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum hafa gagnrýnt það að hér á landi skuli tekjutrygging öryrkja háð tekjum maka þeirra, gagnstætt því sem viðgengst um atvinnuleysisbætur og aðrar tryggingabætur. Það vekur því óneitanlega nokkra furðu að á sama tíma og stjórnmálamenn hafa hvað mestar áhyggjur af stöðu fjölskyldunnar og háum jaðarsköttum skuli þeir ekki hefjast handa þar sem gróflegast er grafið undan fjölskyldum og jaðarskattar koma harðast niður.

Ljóst er að þótt það eigi ekki að heita svo að hér séu í gildi sérreglur um borgararéttindi öryrkja, þá er það svo í reynd. Það er líka ljóst að ef eitthvert annað ríki færi svona með fólk á grundvelli litarháttar myndum við kalla það aðskilnaðarstefnu, mótmæla á alþjóðavettvangi og taka þátt í viðskiptabanni. Hér er með öðrum orðum um aðskilnaðarstefnu að ræða ­ aðskilnaðarstefnu sem grundvölluð er á fötlun. Í dag vill enginn kannast við að hafa kært sig kollóttan um kynþáttamisrétti og hér á landi hefur skilningur á jafnrétti kynjanna aukist svo mjög að segja má að þegar talað er um jafnréttismálin þá detti okkur varla annað í hug en átt sé við jafnrétti karla og kvenna. Í allri kvenfrelsisumræðunni, sem vitaskuld hefur verið gríðarlega mikilvæg fyrir allt okkar samfélag, er eins og það hafi farið framhjá stjórnmálamönnum að jafnrétti er hvergi eins gróflega brotið og gagnvart öryrkjum. Þeir ráðamenn sem ákvarða öryrkjum jafn lágar bætur og raun ber vitni verða að fara að horfast í augu við þá staðreynd að með því eru þeir að útiloka þá frá eðlilegri þátttöku í samfélaginu, að með því eru þeir að framfylgja aðskilnaðarstefnu. Lífseigir fordómar En hvers vegna virðast ráðamenn ekki skynja alvöru málsins? Því miður verður ekki framhjá því horft að allt of stór hluti svarsins felst óhjákvæmilega í þeirri staðreynd að þorri stjórnmálamanna á enn of langt í land með að bera fulla virðingu fyrir fötluðum, á m.ö.o. við of mikla fordóma að stríða. Og þegar talað er um fordóma er rétt að taka það skýrt fram að fordómar eru okkur í fæstum tilfellum með öllu sjálfráðir eða meðvitaðir, og oftar sprottnir af lítilsigldu sjónarhorni en illum hvötum. Þetta má glöggt sjá hjá ýmsum þeim sem telja sig hafa fullan skilning á réttindabaráttu öryrkja en afhjúpa sífellt hug sinn með tungutakinu einu, tala til dæmis um samúð í stað samstöðu og mannúð í stað mannréttinda, tala um þá sem minna mega sín og jafnvel sína minnstu bræður. Við minnumst þess stundum með óhug hve stutt er síðan lögin um vistarbandið voru afnumin, síðan konur fengu kosningarétt, og að ekki skuli vera nema mannsaldur síðan svokallaðir sveitarómagar ­ sem gjarnan var annað nafn yfir öryrkja ­ fengu kosningarétt. Eins víst er að eftir einungis aldarfjórðung muni börn okkar og barnabörn krefja okkur skýringa á því hvernig á því hafi staðið að allt til loka tuttugustu aldarinnar hafi í reynd verið hér í gildi sérreglur um borgararéttindi öryrkja, aðskilnaðarstefna sem grundvölluð var á fötlun. Þá munum við þurfa að viðurkenna að ekki hafi fyrirfundist siðmenntuð velmegunarþjóð sem eyddi eins litlu broti þjóðartekna sinna í tryggingabætur til öryrkja. Þá munum við þurfa að viðurkenna að við kærðum okkur kollótt um þá meðferð sem fatlaðir voru látnir sæta, meðferð sem átti ekki sinn líka meðal nágrannaþjóðanna. Siðferðisbrestur ráðamanna Sú öld sem nú er senn á enda var í upphafi öld sjálfstæðisbaráttu. Síðar tóku við verkalýðsbarátta og loks kvenfrelsisbarátta. Þótt enn megi bæta um betur á öllum þessum sviðum blasir við að mannréttindi öryrkja verða eitt stærsta málefnið sem stjórnmálamenn næstu ára þurfa að takast á við, kynna sér og taka afstöðu til. Þá mun til þess verða tekið hverjir það verða sem fyrstir ganga fram fyrir skjöldu og þegar upp verður staðið munu sagnfræðingar halda því til haga hvað hver og einn gerði og hvað hann lét ógert. Öryrkjabandalag Íslands hefur vakið athygli á því að á síðustu fimm árum hafa örorkulífeyrir og tekjutrygging einungis hækkað um þriðjung þess sem lágmarkslaun hafa hækkað á sama tíma. Öryrkjabandalagið hefur einnig vakið athygli á því að ekkert nágrannaríkja okkar ver eins litlu broti þjóðartekna sinna til öryrkja og umhugsunarvert hvort ekki sé löngu orðið tímabært að bandalagið kynni þessa þjóðarsmán fyrir helstu samstarfsríkjum okkar á vettvangi Norðurlandanna og Evrópu, kynni þetta a.m.k. fyrir þeim erlendu gestum og blaðamönnum sem hingað koma.

Biskup Íslands og landlæknir hafa hvor á sinn hátt gengið fram fyrir skjöldu til að vekja athygli á þeim siðferðisbresti sem endurspeglast í bótaupphæðum almannatrygginga. Landlæknir hefur að auki fært rök fyrir því að sú fátækt sem stjórnvöld ákvarða öryrkjum auki á veikleika og veki upp nýja sjúkdóma sem kosta samfélagið veruleg fjárútlát, sé með öðrum orðum alvarlegt heilbrigðisvandamál. En rannsóknir hafa sýnt að þegar fjárhagsvandræði bætast við langvarandi veikindi og fötlun leiðir það gjarnan til mikillar andlegrar vanlíðunar, þunglyndis, félagslegrar einangrunar og einmanaleika. Á hinn bóginn má benda á að með hækkun örorkubóta um nokkra tugi þúsunda myndi ríkissjóður fá rúman helming til baka í einu eða öðru formi, og eru þá ótalin ýmis óbein útgjöld sem slík ráðstöfun myndi spara þjóðfélaginu. Gjá milli þings og þjóðar Það gleymist gjarnan að með hinum lágu bótaupphæðum er ekki aðeins verið að lítilsvirða öryrkjann, heldur einnig börn hans. Þeim gengur misvel að skilja að fátæktin sem þeim er gert að búa við á rætur að rekja til fötlunar móður eða föður, hvað þá að þau geti skilið þann hug sem býr að baki hinum lágu bótum ­ hugsunarhátt þeirra manna sem gera börnum ókleift að taka þátt í félags- og tómstundastarfi með jafnöldrum sínum, fara með þeim í ferðalög, læra á hljóðfæri, æfa íþróttir o.s.frv. Hvort heldur okkur líkar það betur eða verr verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að framganga íslenskra ráðamanna í málefnum öryrkja endurspeglar ekki aðeins alvarlegan siðferðisbrest, heldur er hún óhagkvæm og skammsýn ­ sáir fræjum fordóma og grefur undan þeim siðferðisgildum sem við viljum gjarnan trúa að hér hafi verið höfð að leiðarljósi í bráðum þúsund ár. Nýlega birti Félagsvísindastofnun Háskólans niðurstöður umfangsmestu könnunar sem gerð hefur verið á viðhorfum Íslendinga til velferðarmála. Einhver afdráttarlausasta niðurstaða þeirrar könnunar var sú að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er búinn að fá nóg af því hvernig farið er með öryrkja í þessu ríka landi. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill að tryggingabætur öryrkja verði hækkaðar. Þetta gengur þvert á þá forgangsröðun sem ráðamenn hafa fylgt og sýnir að hér hefur almenningur orðið fyrri til að átta sig á hve röng og siðlaus stefna stjórnvalda er í málefnum öryrkja. Sú gjá sem þarna er staðfest milli þings og þjóðar sýnir að meðal hins óbreytta almennings er að verða hugarfarsbreyting, að daunillt loft fordómanna er þar á verulegu undanhaldi. Áskorun til Alþingis Um leið og Öryrkjabandalag Íslands þakkar þeim fjölmörgu aðilum, kirkjunnar mönnum, landlækni, fjölmiðlum og almenningi, þann stuðning sem auðfundinn hefur verið á síðustu vikum, skorar bandalagið á Alþingi að aflétta því neyðarástandi sem ríkir í tryggingamálum öryrkja og búa svo um hnúta að bætur dragist aldrei aftur úr þróun launavísitölu. Bandalagið skorar á Alþingi að viðurkenna hina margvíslegu sérstöðu öryrkja með því að hækka grunnlífeyri sérstaklega og mest hjá þeim sem verða fyrir varanlegri örorku á æskuárum. Hafa ber í huga að hér er um að ræða fólk sem ekki hefur átt þess kost að ávinna sér lífeyrissjóðsrétt, eignast húsnæði og njóta þeirra launa og lífsfyllingar sem heilbrigðri starfsævi fylgir. Þvert á móti hefur það, oft frá unglingsaldri, búið við þrengstu fjárhagsskorður sem þekkjast og borið margvíslegan kostnað af fötlun sinni. Að síðustu skorar Öryrkjabandalag Íslands á stjórnvöld að afnema þegar í stað skerðingu bóta vegna tekna maka og létta til muna jaðarsköttum af því fólki sem harðast verður fyrir þeim. Baráttan gegn aðskilnaðarstefnu íslenskra stjórnvalda er hvorki kjarabarátta né mannúðarbarátta. Hún er mannréttindabarátta.