Skip to main content
AðgengiFrétt

Áframhaldandi samstarf í aðgengismálum

By 10. febrúar 2025No Comments

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa undirritað samkomulag um áframhaldandi fjárstuðning við samstarf um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Verkefnið hefur því verið framlengt út árið 2026 og verður alls  464 milljónum kr. veitt í styrki gegn helmings mótframlagi sveitarfélaga.

Átaksverkefninu var ýtt úr vör vorið 2021 og hefur nú verið framlengt til ársloka 2026. Verkefnið felst í því að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, m.a. í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.

„Við verðum að tryggja að fatlað fólk um allt land hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Samstarfið við ÖBÍ um þetta verkefni hefur verið farsælt og árangurinn með ágætum. Það eru víða brýnar áskoranir og mikilvægt að taka höndum saman um úrbætur í samvinnu við sveitarfélögin í landinu en öll úrbótaverkefni eru fjármögnuð í samvinnu við þau,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Við erum afar vongóð um að þetta verkefni muni halda áfram að skila bættu aðgengi að manngerðu umhverfi í sveitarfélögum landsins. Þetta er mikilvæg vitundarvakning og stuðlar að auknum skilningi á mikilvægi góðs aðgengis. Við bindum vonir við að verkefnið reynist hvatning til sveitarfélaga til að gera enn betur í aðgengismálum,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.