Skip to main content
Frétt

Áhyggjur af fjármálaáætlun stjórnvalda!

By 12. júní 2019No Comments

Opið bréf frá formanni ÖBÍ til stjórnvalda

Ágætu ráðherrar og þingmenn. 

Ég hef áhyggjur af málaflokkum sem varða fatlað fólk í endurskoðaðri fjármálaáætlun. Ljóst er að þessa endurskoðun á að keyra hratt í gegnum þingið, svo hratt að engar upplýsingar fást um það hvernig raunveruleg útfærsla lítur út. Gengur það gegn 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveður á um að náið samráð skuli haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess í allri ákvarðanatöku.  Talað er nú um endurmat á gæðum og eftirliti, að farið verði kerfisbundið yfir samspil tilfærslukerfa við önnur úrræði með það að leiðarljósi að bæta nýtingu fjármuna og auka skilvirkni. Markmiðið verði að beina einstaklingum í rétt úrræði og gera þá sem fyrst aftur virka í samfélaginu og tryggja sjálfbærni kerfanna. Hvað sem það þýðir.
 
Ekki er hægt að álykta annað en að hér eigi að taka upp mjög stífa stefnu í átt að því að endurhæfa fjölda fólks út á vinnumarkaðinn, eða þannig að færri hafa möguleika á örorkulífeyri.  Ég er sannarlega ekki á móti því að fatlað fólk fái góða endurhæfingu njóti tækifæra til jafns við aðra samfélagsþegna til allskonar starfa. Ég sé hinsvegar hvergi gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun að aukið fjármagn verði sett í það að bæta aðgengi fatlaðs fólks að störfum, hvorki hjá hinu opinbera né í einkageiranum. Vonandi er gert ráð fyrir þessu í nánari útfærslum sem enn hafa ekki verið gerðar opinberar. Þá hef ég miklar áhyggjur af því að stjórnvöld hækki ekki örorkulífeyri. Að fatlað fólk muni áfram búa við alltof lága framfærslu sem skapar því sannarlega ekki aðgang að samfélaginu, og verður ekki til að valdefla fatlað fólk.
 
Ég hef nú setið í tvo daga á ráðstefnu aðildarríkja að samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Hér er aðal þemað „Inclusive society“ –  sem er eitt inngilt samfélag, þar sem enginn er skilinn eftir og á það sér skýra samsvörun í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hér hefur verið rætt um þær hindranir sem standa í vegi fyrir fötluðu fólki vítt og breytt í samfélaginu, svo sem aðgengi í víðustum skilningi allt frá ungum börnum til eldri borgara. Spurningin sem sett er fram er hvernig gerum við samfélög okkar aðgengileg? Hvað þarf að gera til að fatlað fólk njóti tækifæra til jafns við aðra? Hvað skal gera til þess að fatlað fólk búi við raunverulegt jafnrétti?
 
Við á Íslandi höfum verk að vinna þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks. Við verðum að vera framsýn og með opin huga og setja markmiðið skýrt; að fatlaður einstaklingur fái þau verkfæri  sem hann þarf til að taka þátt í samfélaginu, en það þarf að vera á hans forsendum og samráð verður að vera virkt. Fatlaður einstaklingur á að ráða sínu lífi eins og aðrir. Við þurfum virkilega að bæta okkur á mörgum sviðum og stjórnvöld eru að vinna að því. Á næsta ári er áætlað að Alþingi lögfesti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Hins vegar verða stjórnvöld að bera gæfu til þess að taka fatlað fólk með í vegferðina, því án þess verður ferðalagið til einskis. Fólk hættir ekki að slasast, veikjast eða fæðast fatlað. Endurhæfing út í samfélagið, eins og stjórnvöld vinna að, inn á vinnumarkað eru ágæt markmið í sjálfu sér. Ég hinsvegar hef áhyggjur af því að fólk sem er fatlað til framtíðar fái ekki tækifæri til jafns við aðra. Að þessi skilvinda sem starfsgetumatið er, útiloki fatlað fólk í raun meira frá tækifærum til þátttöku í samfélaginu. Ég hef áhyggjur af því að þeir sem ekki er hægt að endurhæfa til 100% atvinnuþátttöku verði skildir eftir. Ég hef áhyggjur af því að örorkulífeyrir verði ekki hækkaður og að skerðingar verði ekki afnumdar, ég hef áhyggjur af því að fatlað fólk verði enn fátækara en það er nú þegar. Ég hef áhyggjur af því að stjórnvöld skilji fatlað fólk eftir í vegferð sinni til að spara ríkinu örorkulífeyri. Ég vona svo innilega að áhyggjur mínar sem byggðar eru á grunsemdum en ekki vegna þess að ég hafi séð nánari útfærslur, séu bara vitleysa, enda eiga þær ekki við rök að styðjast.
 
Í dag þegar ríkin tala um jafnrétti, aðgengi og þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum, þar á meðal erum við Íslendingar, er það alvörumál að fatlað fólk sé ekki útilokað frá því að geta notið mannsæmandi lífs til jafns við aðra. Enginn fatlaður einstaklingur nýtur þess réttar á örorkulífeyri upp á 212.000 krónur á mánuði. Brýnt er að tryggja að fatlað fólk hafi mannsæmandi framfærslu, til að það hafi raunveruleg tækifæri til að taka þátt í samfélaginu, það hlýtur að vera eitt aðal verkefni stjórnvalda, til þess ætlast ég sem fötluð manneskja að orð séu virt, að enginn sé skilinn eftir.

12. júní 2019, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ