Skip to main content
Frétt

Aksturþjónusta fatlaðs fólks verður Pant

By 25. júní 2020No Comments
Framundan eru talsverðar breytingar á akstursþjónustu Strætó. Nú um mánaðamótin júní / júlí mun hún skipta um nafn og útlit. Akstursþjónustan mun framvegis heita Pant og heimasíðan verður pantakstur.is.  Sú heimasíða verður opnuð 1. Júlí n.k. og verða allar upplýsingar um breytingarnar framundan að finna á síðunni. 

Eftir útboð var tekið lægsta gilda tilboði í aksturinn sem var frá Hópbílum. Stefnt er að því að semja við Hópbíla um að sjá um aksturinn næstu 5-7 ár. Starfsfólk Hópbíla ættu að vera öllum hnútum kunnugt, en Hópbílar hafa séð um akstur rauðu og gulu bílanna undanfarin ár.

Samhliða þessum breytingum taka gildi nýjar reglur um ferðaþjónustuna.

Helstu breytingar þar eru:

 • Felld eru á brott ákvæði sem takmarka rétt á þjónustu, svo sem hjá þeim sem fá bílastyrk frá TR.
 • Ferðafjöldi er ekki takmarkaður
 • Pöntunartími þjónustuvers verður til kl 16 á virkum dögum, var áður til kl 18. Utan opnunartíma þjónustuvers er tekið við pöntun tilfallandi ferða og veitt neyðaraðstoð í gegnum síma til kl 22 alla daga vikunnar.
 • Aksturstími er styttur, verður til miðnættis, kl 24:00 í stað 1:00. Á föstudags- og laugardagskvöldum er ekið áfram til kl 1:00
 • Lengdur aksturstími er á stórhátíðardögum, verður nú til kl 24, nema aðfangadag og gamlársdag, þá er ekið til kl 22.
 • Sérstök stjórn akstursþjónustunnar verður skipuð í stað samráðshóps félagsmálastjóra.
 • Notendur þjónustunnar verða efldir til aukins sjálfsstæðis og frekari virkni í notknum almenningssamgangna, samhliða akstursþjónustu.

Aðrar breytingar sem verða eru þessar helstar:

 • Myndavélar verða í öllum sérútbúnum bílum. Þeim verður fjölgað um 15, í 45. Hópbílar hafa eitt ár til að ná þeim fjölda.
 • Notkun leigubíla mun aukast, í 30% ferða, eru 10% í dag. Samið verður við ákveðna bílstjóra/stöð um fastar ferðir.
 • Beintenging verður við aksturskerfið viðkomandi leigubílastöðvar.
 • Smáforrit (app) á að verða tilbúið til notkunar í október. Þar verður hægt að panta og afpanta ferðir og sjá yfirlit yfir ferðir. Strætó bs mun sjá um gerð fræðsluefnis vegna innleiðingar á notkun smáforritsins, og tryggja viðunandi aðlögunartíma vegna tæknilegra breytinga.

 

Allir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks munu fá bréf á næstu dögum, þar sem gerð verður grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á þjónustunni.