Skip to main content
AðildarfélögAlmannatryggingarFréttKjaramál

Alma Ýr endurkjörin, þrjú ný aðildarfélög og skorað á stjórnvöld

By 4. október 2025nóvember 21st, 2025No Comments

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, hlaut endurkjör á aðalfundi ÖBÍ sem haldinn er á Grand hótel í Reykjavík í dag. Alma var ein í framboði, en hún náði fyrst kjöri árið 2023.
„Ég er hjartanlega þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt. Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem fram undan eru og að fá samfélagið allt í lið með okkur í sinni víðtækustu mynd. Saman munum við halda áfram að berjast fyrir réttindum alls fatlaðs fólks. Tryggja þarf að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda á öllum sviðum samfélagsins,“ segir Alma.

Auk formannskjörs voru kosnir formenn málefnahópa ÖBÍ, sem eiga jafnframt sæti í stjórn.

Jón Gunnar Benjamínsson úr Sjálfsbjörgu var kjörinn formaður aðgengishóps, Hrönn Stefánsdóttir úr Gigtarfélagi Íslands formaður atvinnu- og menntahóps, Sindri Viborg úr Tourette samtökunum formaður barnamálahóps, Telma Sigtryggsdóttir úr Heyrnarhjálp formaður heilbrigðishóps, María Pétursdóttir úr MS félaginu formaður húsnæðishóps og Geirdís Hanna Kristjánsdóttir úr ADHD samtökunum formaður kjarahóps.

Þá voru kjörnir til stjórnarsetu þeir Ólafur Jóhann Borgþórsson úr Parkinsonsamtökunum, Rúnar Björn Herrera úr SEM samtökunum og Stefán Magnússon úr Gigtarfélagi Íslands.

Þrjú ný aðildarfélög ÖBÍ réttindasamtaka

Þrjú ný hagsmunafélög voru samþykkt inn í ÖBÍ réttindasamtök á aðalfundi á Grand hótel í Reykjavík í dag. Eru aðildarfélög ÖBÍ því orðin 43 talsins.

Félögin nýju eru eftirfarandi:

Átak, félag fólks með þroskahömlun

Hlutverk Átaks er að vinna að sjálfstæði fólks með þroskahömlun, svo að það hafi raunverulegt vald yfir eigin lífi. Félagið er eina hagsmunafélag fatlaðs fólks á landinu sem er stýrt af fólki með þroskahömlun.

HD samtökin á Íslandi

Tilgangur samtakanna er að vinna að auknum lífsgæðum og velferð þeirra sem haldnir eru Huntington sjúkdómnum (HD) með því að veita þeim og aðstandendum þeirra stuðning og stuðla að öflugri félags- og fræðslustarfsemi.

PCOS samtök Íslands

Tilgangur samtakanna er meðal annars að fræða almenning og fagstéttir um PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni). Berjast fyrir bættum réttindum, aðgengi að greiningu og meðferðarúrræðum til einstaklinga með PCOS, óháð búsetu.

ÖBÍ réttindasamtök skora á stjórnvöld að leysa víxlverkunarvandann

Aðalfundur ÖBÍ réttindasamtaka skoraði í dag á stjórnvöld að leysa úr vandanum sem fylgir svokallaðri víxlverkun á milli greiðslna frá TR og lífeyrissjóðum svo sá hópur lífeyristaka sem fékk hækkun við gildistöku laga um breytingu örorkulífeyriskerfisins missi hækkunina ekki alla  til baka í nóvember

Ályktun aðalfundarins er svohljóðandi:

„ÖBÍ réttindasamtök skora á ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að örorkulífeyristakar verði af þeim kjarabótum sem breytt örorkulífeyriskerfi boðaði. Hjá stórum hópi lífeyristaka mun engin kjarabót eiga sér stað þar sem nauðsynlegar breytingar á greiðslum örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum hafa ekki verið gerðar.

Svokölluð „víxlverkun“ á milli þessara tveggja kerfa, þýðir að greiðslur sem stór hópur fær frá lífeyrissjóðum munu lækka um jafnháa upphæð og örorkulífeyrir almannatrygginga hækkar.

Það er löngu tímabært að finna viðeigandi lausn á víxlverkuninni til framtíðar svo koma megi í veg fyrir frekari  kjararýrnun og röskun á högum lífeyristaka. Fram til þessa hafa lífeyristakar endurtekið verið sviknir um kjarabætur. Þá áréttar ÖBÍ að lausnin megi ekki fela það í sér að etja saman örorku- og ellilífeyristökum. ÖBÍ krefst þess að ríki og lífeyrissjóðirnir axli ábyrgð og tryggi lausn hið fyrsta.“

Greinargerð

Þótt helsta markmiðið með þeim breytingum sem urðu á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga 1. september síðastliðinn hafi ekki verið hækkun lífeyris urðu þær samt sem áður til þess að lífeyrisgreiðslur til stórs hóps lífeyristaka hækkuðu að einhverju marki. Þessum hækkunum hömpuðu stjórnmálamenn mjög og ÖBÍ lýsir ánægju með þær, þótt betur megi ef duga skal.

Hins vegar hefur enn ekki verið greitt úr svonefndri víxlverkun á milli annars vegar greiðslna frá Tryggingastofnun og hins vegar frá lífeyrissjóðum. Þetta þýðir einfaldlega að í nóvember næstkomandi, við næsta útreikning lífeyrissjóðanna, mun þessi sami hópur og fékk hækkun 1. september byrja að lækka og einhverjir missa hana alla. Greiðslur frá lífeyrissjóðum munu skerðast um sömu upphæð og greiðslur frá TR hækkuðu.

Ekki tókst að koma frumvarpi sem girða átti fyrir þetta í gegnum þingið fyrir sumarfrí. Fötluðu fólki og eldri borgurum var att saman í umræðunni, eins og það væri ekki hægt að bæta kjör annars hópsins án þess að það þýddi skerðingu fyrir hinn. Það er vitaskuld ekki rétt.

ÖBÍ réttindasamtök kalla einum rómi eftir því að stjórnvöld og lífeyrissjóðir finni lausn á víxlverkuninni án tafar. Skammur tími er til stefnu áður en áhrifa víxlverkunarinnar gætir og því brýnt að hafa hraðar hendur.

Örorkulífeyristakar eru enn sá hópur samfélagsins sem býr við hvað lökust kjör. Hver rannsóknin rekur aðra sem sýnir fram á óásættanlega stöðu, vaxandi fátækt og óviðunandi lífskjör. Leysa verður úr víxlverkuninni án tafar og halda svo áfram að bæta kjör fatlaðs fólks.