Skip to main content
Frétt

Alma Ýr kjörin formaður á aðalfundi

By 7. október 2023október 20th, 2023No Comments

Aðalfundi ÖBÍ réttindasamtaka lauk í dag, laugardag. Fundurinn var vel sóttur og vel heppnaður. Fjölmargt var á dagskrá fundarins.

Alma Ýr Ingólfsdóttir var kjörinn nýr formaður í æsispennandi kosningum. Alma Ýr hlaut 57 atkvæði en Rósa María Hjörvar 56. Auðu skilaði 1 fulltrúi.

Alma Ýr er því réttkjörinn formaður ÖBÍ réttindasamtaka. Þuríður Harpa Sigurðardóttir lætur af störfum eftir sex ár á stóli formanns. Voru henni færðar miklar þakkir fyrir góð störf í þágu fatlaðs fólks.

Þá voru kjörin í stjórn þau Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, María M. B. Olsen og Ólafur Jóhann Borgþórsson. Einnig var kjörinn varamaður Halla B. Þorkelsson.
Aðalfundur samþykkti eftirfarandi ályktun:

Ályktun aðalfundar ÖBÍ réttindasamtaka 2023

Aðalfundur ÖBÍ hvetur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að bregðast með afgerandi hætti við vaxandi fátækt fatlaðs fólks og hækka örorkulífeyri um 12,4% án tafar.

Matarkarfan hefur nú hækkað um 12,4%, húsnæðiskostnaður eykst stöðugt og hækkanir á lífeyri ná varla að halda í við verðbólgu, hvað þá meira. Þau tekjulægstu í íslensku samfélagi verja stærstum hluta tekna sinna í nauðsynjar, miklum mun stærri en aðrir hópar. Það er því hófsöm krafa ÖBÍ réttindasamtaka að lífeyrir verði hækkaður um þessi sömu 12,4%.

Verðbólga ársins er nú 8% en ekki 5,6% eins og fjárlagafrumvarp þessa árs gerði ráð fyrir. Kjarasamningar eru framundan og því allar líkur á að verðbólga haldist há næsta ár og standist ekki verðbólguspá þá sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu upp á 4,9%.

Ríkisstjórnin er minnt á eigin stjórnarsáttmála, en í honum segir: ,,Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa“. Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld standi við orð sín og tekjulægsti hópur samfélagsins fái lífsnauðsynlega kjarabót.

Greinargerð

Lagt er til að örorkulífeyrir verði hækkaður um 12,4 prósent þann 1. janúar 2024 í stað 4,9 prósenta eins og áætlað er í frumvarpi til fjárlaga. Sú hækkun ætti að stemma stigu við hækkun matar og drykkjar sem er samkvæmt Hagstofu Íslands um 35% af ráðstöfunartekjum tekjulægstu hópa samfélagsins.

Langvarandi verðbólga hefur leikið allflesta Íslendinga grátt en hún bitnar mest á tekjulágum, svo sem fólki með fötlun. Fólk sem nær varla eða ekki endum saman ræður mun síður við hækkandi matarverð, húsnæðiskostnað og annan kostnað sem verðbólgan veldur.

Samkvæmt upplýsingum um verðlag sem Hagstofan birti fyrir septembermánuð hefur matarkarfan hækkað um 12,4 prósent undanfarið ár. Það sem áður kostaði 10.000 kr. kostar nú 12.400 kr.

Verð á húsnæði, hita og rafmagni hefur hækkað um 8,9 prósent, sem gerir tekjulágu fólki enn erfiðara fyrir. Stýrivextir standa í 9,25 prósentum en samkvæmt seðlabankastjóra er allt eins líklegt að stýrivextir verði hækkaðir takist ekki að koma böndum á verðbólguna.

Hækkanir á lífeyri halda ekki í við verðbólgu, sem þýðir að kaupmáttur örorkulífeyristaka hefur rýrnað. Þessu þarf að snúa við. Búa verður fólki með fötlun þau kjör að það geti lifað með reisn.

Dæmi um vandann má sjá í nýrri starfsskýrslu Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir starfsárið 2022-2023. Þar kemur fram að 2.438 hafi leitað til Hjálparstarfsins samanborið við 2.175 starfsárið á undan. Þar af eru örorkulífeyristakar rúmur þriðjungur.

„Á nýliðnu starfsári kom skýrt í ljós að sem fyrr eru það einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur sem verst standa þegar kemur að fátækt á Íslandi,“ segir í skýrslunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Umboðsmanni skuldara er fatlað fólk sá hópur sem hefur minnst svigrúm til að mæta óvæntum kostnaði sem fylgt getur áföllum og verðlagshækkunum.

Boðuð 4,9 prósent hækkun lífeyris myndi þýða hækkun að lágmarki um 16.092 kr. og að hámarki 21.483 kr. Til samanburðar var þingfararkaup hækkað um 33.140 kr. í ár. Sá hópur stríðir þó ekki við tekjuvanda og finnur mun síður fyrir hækkandi verðlagi og vöxtum.

Hófleg krafa ÖBÍ um 12,4 prósent hækkun þýðir að lífeyrir myndi hækka að lágmarki um 40.722 kr. og að hámarki um 54.365 kr. Þannig má snúa vörn í sókn, vega upp á móti dýrtíðinni og standa við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að bæta kjör þeirra sem lakast standa.