Skip to main content
Frétt

Alþingi þarf að muna eftir fötluðum konum

By 5. febrúar 2018No Comments

„Ég vil brýna stjórnvöld til að muna eftir fötluðum konum í vinnu sinni að breyttu samfélagi og í því sem við sem samfélag getum gert til að bregðast við #metoo-byltingunni. Mér finnst ekki síður mikilvægt að brýna okkur á Alþingi í störfum okkar til að styðja við fatlaðar konur. Lög sem eru samþykkt á Alþingi geta nefnilega haft áhrif á öryggi fatlaðra kvenna,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona VG, í umræðum á  Alþingi  fyrir helgi.

Hún ræddi #metoo byltinguna og benti á að ýmsir hópar kvenna hefðu stigið fram og birt frásagnir af áreitni og ofbeldi. Síðast hafi það verið konur af erlendum uppruna sem birt hefðu frásagnir af obeldi.

„En það er einn hópur kvenna sem hefur hingað til ekki treyst sér til að gera sögur sínar opinberar og það eru fatlaðar konur. Þær búa líkt og konur af erlendum uppruna við margþætta mismunun og sumar eru hreinlega í þeirri stöðu að þurfa að reiða sig á þann sem beitir þær ofbeldi um aðstoð í daglegu lífi,“ sagði Steinunn  Þóra.

Hún nefndi jafnframt lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem nú eru til umfjöllunar í velferðarnefnd þingsins. „Sjáum til þess að fræ #metoo-byltingarinnar nái að spíra alls staðar í samfélaginu og nái til allra kvenna, líka til þeirra kvenna sem hingað til hafa ekki treyst sér til þess að stíga fram og segja sögu sína.“ 

Sögurnar eru til

Freyja Haraldsdóttir ræddi nýlega um ofbeldi gegn fötluðum konum í viðtali við  Rúv. „Fyrir fatlaðar konur þá er þetta flóknara, því bæði búum við í rosalega litlu samfélagi og við erum margar mjög auðþekkjanlegar þannig að það að gefa nafnlausa sögu er ekki endilega eitthvað sem tryggir okkar einkalíf. Ofbeldisverkin og gerendurnir eru líka mjög oft kannski í hópi fatlaðra kvenna fólk sem hefur rosa mikið vald yfir lífi okkar, kannski lækna okkar, einhver sem er að aðstoða okkur eða einhverjir í fjölskyldunni og við erum kannski algjörlega háðar þeim, þannig að við getum bara ekki sagt frá því án þess að lífið fari bara í rúst.“

Freyja segir að fatlaðar konur séu oftar sviptar kynvitund sinni. „Á grunni þess, stundum beittar kynferðisofbeldi eða einhvers konar kúgun eða þöggun sem hefur mjög mikil áhrif á okkar kynfrelsi, t.dþ hefur sagan sýnt okkur þvingaðar ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar á fötluðum konum.“

Freyja segir að í Tabú-hreyfingunni sé boðið upp á mikla fræðslu. Þar er fötluðu fólki gefið tækifæri til að ræða sína reynslu í öruggu rými og þar komi sögurnar fram. „Þó að sögurnar heyrast ekki út á við þá þýðir það ekki að þær séu ekki sagðar, þýðir ekki að þær séu ekki til. Þær eru kannski bara ekki þar sem flestar sögurnar sem við erum að heyra akkúrat núna eru.“