Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2022

By 10. október 2022No Comments

ÖBÍ réttindasamtök lýsa áhyggjum af framfærsluvanda vaxandi hóps fatlaðs fólks á Íslandi og skorar á stjórnvöld að bregðast við án tafar. Þetta er á meðal þess sem segir í ályktun sem aðalfundur ÖBÍ samþykkti á Grand hótel í Reykjavík dagana 7. og 8. október.

„Aðalfundur lýsti miklum áhyggjum af vaxandi framfærsluvanda fatlaðs fólks og skoraði á stjórnvöld að bæta úr án tafar. Það vantar aðgerðir strax til að stemma stigu við þeirri fátækt sem við erum að sjá raungerast á hverjum einasta degi. Sérstaklega núna þegar verðbólgan er eins og hún er,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Ályktun aðalfundar

Aðalfundur ÖBÍ lýsir þungum áhyggjum af vaxandi framfærsluvanda fatlaðs fólks og skorar á stjórnvöld að hækka örorkulífeyri, draga úr skerðingum vegna atvinnuþátttöku og hækka tekju- og eignamörk.

Lágtekjuvandi fatlaðs fólks hefur lengi verið ærinn, en í verðbólgu sem nú geisar er staðan orðin grafalvarleg. Lífeyrir er allt of lágur og hvati til atvinnuþátttöku lítill. Brotið er á mannréttindum fatlaðs fólks, sem býr við algjöran framfærsluvanda. Það sést meðal annars á því að fatlað fólk er nú 42% þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara og hefur fjölgað hratt í þeim hópi frá 2019.

Við krefjumst þess að það sem út af hefur borið síðustu áratugi verði leiðrétt. Ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmálanum að endurskoða eigi málefni fatlaðs fólks með að markmiði að bæta lífskjör þeirra og lífsgæði, afkomu og möguleika til atvinnuþátttöku. Þetta eru falleg orð en nú þarf aðgerðir sem bæta stöðuna strax

– fatlað fólk getur ekki beðið lengur!

ÖRLÖGIN eru í ykkar höndum stjórnvöld

Greinargerð

Ein skýrasta birtingarmynd vaxandi tekjuvanda stækkandi hóps fatlaðs fólks er hversu hátt hlutfall umsækjenda hjá Umboðsmanni skuldara (UMS) eru örorkulífeyristakar. Samkvæmt upplýsingum frá UMS var hlutfallið 28% fyrir sex árum en er nú 42%. Samhliða því hefur meðal greiðslugeta hópsins sveiflast verulega og farið frá 31.804 kr. niður í 1.327 kr. í ár.

Greiðslugeta er sú upphæð sem fólk hefur afgangs eftir að hafa greitt fyrir framfærslu, rekstur fasteigna og ökutækja og núverandi skuldbindingar. Sum sé, svigrúmið til að bæta við sig útgjöldum eða skuldbindingum. Þetta þýðir á einföldu máli að svigrúm hratt vaxandi hóps fatlaðs fólks til að bæta við sig útgjöldum er ekki neitt.

Í tölum frá UMS birtist önnur hlið vandans. Meirihluti fatlaðs fólks sem leitar til Umboðsmanns skuldara er á leigumarkaði, allt í allt 71%. Aðeins 7% búa í eigin fasteign.

Kannanir sýna að fólk á leigumarkaði er líklegra til að búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað, eins og það kallast þegar kostnaður húsnæðis nemur meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilis. Hagstofan birti tölur í maí síðastliðnum sem sýna að 9% þeirra sem eiga húsnæði búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað en í hópi leigjenda búa 27% við íþyngjandi húsnæðiskostnað, sem er þrisvar sinnum meira.

Samkvæmt upplýsingum frá UMS er fatlað fólk sá hópur umsækjenda sem hefur minnst svigrúm til að mæta óvæntum kostnaði sem fylgt getur áföllum og verðlagshækkunum eins og þeim sem nú ríða yfir.

Verðbólgan sem nú geisar bitnar afar illa á ört stækkandi hópi fatlaðs fólks í tekjuvanda. Hækkun tekna örorkulífeyristaka sem leituðu til UMS á milli áranna 2019 og 2022 nemur um 9%. Á móti hefur verðlag, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, hækkað ríflega tvöfalt meira, eða um 20%.

Boðuð 6% hækkun lífeyris almannatrygginga er byggð á spá Hagstofunnar frá því í júní um 7,5% verðbólgu á árinu 2022 og 4,9% verðbólgu á árinu 2023. Sú verðbólguspá verður að teljast verulega vanáætluð, enn einu sinni. Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi 2023 eru meiri líkur á því að verðbólgu sé vanspáð en að henni sé ofspáð. Til dæmis segir í spá Seðlabankans frá ágúst að verðbólgan verði 8,8% á þessu ári og 6,7% á næsta ári.

Verðbólgan nú ýtir verulega undir tekjuvandann enda ljóst að örorkulífeyristakar eiga margir hverjir í miklum vandræðum vegna hækkandi framfærslukostnaðar.

Fordæmalausar tekjuskerðingar leggjast svo ofan á verðbólguna og lágan lífeyri. Engin sjáanleg merki eru í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 um að draga eigi úr tekjutengingum. Frítekjumörk fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hafa verið óbreytt í fjórtán ár. Tekjuskerðingarnar gera það að verkum að tekjur annars staðar ná ekki að bæta fjárhagslega stöðu á teljandi hátt. Ávinningur af atvinnutekjum er nú lítill, jafnvel enginn.