Skip to main content
Frétt

Ályktun aðalfundar ÖBÍ

By 28. október 2015No Comments

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 3. október og framhaldsaðalfundar  6. október  2015,  um að stjórnvöld fullgildi SRFF.

 

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) krefst þess að stjórnvöld fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á haustþingi 2015, ásamt valfrjálsri bókun hans og gangi svo strax í að lögfesta hann. Þannig eiga stjórnvöld að efla og tryggja mannsæmandi framfærslu, ásamt aðgengi, algildri hönnun, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnu við hæfi. Með lögfestingu SRFF verður réttur fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu tryggður til jafns við þátttöku annarra. Undir samninginn rúmast öll baráttumál ÖBÍ meðal annars kjaramál, aðgengi, heilbrigðismál, atvinnumál, menntamál og sjálfstætt líf.

Greinargerð:

Mikilvægt er að fullgilda SRFF því áhersla samningsins er á mannréttindi, jafnrétti og virka samfélagsþátttöku fatlaðs fólks án aðgreiningar, sem er ábótavant. Í greinargerð er fjallað um helstu þætti sem ÖBÍ leggur áherslu á í starfi sínu. Vísað er til aðalgreina sem fjalla um eftirfarandi málefni.
Kjaramál: Í 28. gr. samningsins segir að ríki, sem eiga aðild að samningnum, skuli viðurkenna rétt fatlaðs fólks til viðunandi lífskjara því til handa og til sífellt batnandi lífsskilyrða til jafns við aðra. Einnig kemur fram að fatlað fólk hafi rétt til félagslegrar verndar, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að mæta útgjöldum vegna fötlunar og aðgengi að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera.
Aðgengi: Í 9. gr. er áhersla lögð á að fötluðu fólki sé tryggt aðgengi að, mannvirkjum, samgöngum, upplýsingum og upplýsingatækni, einnig skal sjónvarpsefni mæta þörfum fatlaðs fólks. 20. gr. fjallar um ferlimál fatlaðs fólks og þar segir að gera skuli fötluðu fólki kleift að fara allra sinna ferða eftir því sem frekast er unnt með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það vill.
Heilbrigðismál: Í 25. gr. segir að fatlað fólk eigi að hafa sama rétt og aðrir á heilbrigðisþjónustu þar með talið lyfjagjöf. Greining og inngrip skal hefjast eins fljótt og kostur er til að koma í veg fyrir frekari skerðingar. Í öðrum greinum kemur fram að fatlað fólk eigi að hafa aðgang að hjálpartækjum og aðgengilegum upplýsingum um þau.
Atvinnu-/menntamál: Í 24. gr. er lögð áhersla á rétt fatlaðs fólks til menntunar á öllum skólastigum með viðeigandi aðlögun og án aðgreiningar. 27. gr. fjallar um rétt fatlaðs fólks til vinnu og segir þar að það eigi sama rétt og aðrir til atvinnu og að ekki megi mismuna fólki á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar.
Sjálfstætt líf: Í 19. gr. segir að fatlað fólk hafi rétt til jafns við aðra til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. Tryggja þarf fólki tækifæri til að velja sér búsetustað, hvar og með hverjum það býr, það á ekki að þurfa að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir. Einnig á fatlað fólk rétt á persónulegri aðstoð sem miðast við þarfir og forsendur þess, sem gerir því kleift að taka virkan þátt í samfélaginu. Í þessu sambandi er mikilvægt að lögleiða notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

Samningurinn segir að útrýma skuli mismunun gagnvart fötluðu fólki. Lögð er áhersla á rétt fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í fjölskyldulífi, stjórnmálum, menningarlífi og öðru því sem lífið hefur upp á að bjóða. Í samningnum er sérstök áhersla lögð á að fatlaðar konur og fötluð börn njóti fullra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.  

Samþykkt á framhaldsaðalfundi ÖBÍ  6. október 2015.