Skip to main content
Frétt

Án dóms en með lögum -opið bréf til Bjarna Benediktssonar

By 27. ágúst 2018No Comments

Ágæti fjármála- og efnahagsráðherra.

Ég set hér nokkur orð á blað, í von um að þau auki skilning þinn á aðstæðum fólks sem í daglegu tali er nefnt öryrkjar. Það er sá hópur í samfélaginu sem hefur algjörlega setið eftir þegar kjör annarra hafa verið leiðrétt. Þetta er að stórum hluta fátækt fólk sem bíður eftir réttlæti.

Háttvirti ráðherra, í dag er brýn nauðsyn að forgangsraða í þágu þeirra sem minnsta framfærslu hafa, í þágu þeirra lægst launuðu, í þágu þeirra sem hrekjast um í velferðarkerfi sem ekki dugar nokkrum manni. Í dag er ekki þörf á að dæla peningum ríkisins í vasa þeirra sem hæstu launin hafa. Það er ekki forgangsatriði, vegna þess að það fólk lifir vel af launum sínum. Getum við verið sammála, Bjarni, um að brýnna er að veita vatni á þurran gróður en að bera í bakkafullann lækinn?

Þínu embætti fylgir gríðarleg ábyrgð. Þínar ákvarðanir hafa áhrif á landsmenn alla. Ekki bara þá ríkustu heldur líka þá allra fátækustu. Þú ert í því vandasama hlutverki að sjá til þess að þeir íbúar landsins sem búa við lægstu framfærsluna, geti lifað af henni. Hvað gerir þú til þess að svo megi verða? Í dag býr fjöldi fólks – „alvöru öryrkjar“ – við þá angist að eiga ekki fyrir nauðsynjum og vera eignalaus með öllu.

Áhyggjur þínar af því að fólk/öryrkjar vilji ekki að vinna eru óþarfar. Fyrsta skrefið því til sönnunar væri að afnema „krónu á móti krónu“ skerðinguna strax. Með því móti gerðir þú mörgum örorkulífeyrisþegum kleift að stunda vinnu. Þannig fengi fólk sjálft fyrstu 60.000 krónurnar af vinnulaunum sínum í stað þess að þetta fé fari beina leið aftur í ríkiskassann í formi skatta og skerðinga.

Nú í ágúst 2018 eru um 17.830 manns með örorkumat og fá lífeyrisgreiðslur frá TR. Um 80% örorkulífeyrisþega eru með greiðslur frá TR undir 280.000 kr. fyrir skatt eða 204.000 kr. útborgaðar. Allt of margir úr þessum hópi þurfa að sætta sig við framfærslu undir 200.000 kr. Um 40% örorkulífeyrisþega eru með heildartekjur undir 300.000 kr. fyrir skatt. Örorkumat á ekki að vera ávísun á fátækt.

Það er einfaldlega þannig að stærstur hluti þeirra sem verða örorkulífeyrisþegar eru eldri en fimmtugir. Hópurinn samanstendur af konum 50+ og körlum 60+. Það sem flestir í þessum hópi eiga sameiginlegt er að hafa verið lágtekjufólk, hafa unnið langa vinnudaga og borið lítið úr bítum á starfsævinni. Þetta fólk hefur skilað samfélaginu, og þar með ríkinu, kröftum sínum í yfir 30 ár áður en það varð fyrir heilsubresti sem endaði með örorkumati. Einungis þeir sem búa einir í eigin húsnæði eða eru með þinglýstan leigusamning geta fengið 300.000 kr. í heildartekjur frá TR (þar er svonefnd heimilisuppbót meðtalin). Ef fólk uppfyllir ekki þessi skilyrði neyðist það til að sætta sig við enn lægri upphæð til að lifa af. Þú hlýtur, kæri ráðherra, að taka undir með okkur að óásættanlegt sé: Að örorkulífeyrisþegum sé gert að lifa af upphæð sem er lægri en lágmarkslaun. Að þessum afmarkaða hópi fólks sé ætluð lægri upphæð til framfærslu en nokkurn tímann getur dugað til mannsæmandi afkomu.

Svo er það unga fólkið okkar, einstaklingar sem slasast eða veikjast mjög ungir eða fæðast með skerðingar og/eða sjúkdóm. Ungur einstaklingur með 75% örorkumat 18 ára gamall hefur í heildartekjur 238.594 kr. fyrir skatt (204.352 kr. útborgaðar). Þessir einstaklingar eru dæmdir – án dóms en með lögum – til fátæktar. Þau hafa mjög takmarkaða möguleika til að auka tekjur sínar eins og atvinnumálum er háttað í dag. Ég hef hvergi séð þess merki að verið sé að vinna að því að laga atvinnulífið að því mikilvæga og nauðsynlega markmiði að fólki með skerta starfsgetu standi viðeigandi störf til boða.

Ágæti ráðherra. Ég er bjartsýn að eðlisfari og legg alltaf stað með það að hafa trú á fólki, trúa því að þeir sem veljast til starfa fyrir þjóðina sinni starfi sínu af alúð, heiðarleika og réttsýni.

Aðgerðarleysi og skeytingarleysi þitt get ég ekki skilið á annan hátt en að þú kæri ráðherra sért algjörlega úr tengslum við veruleikann sem blasir við flestum öðrum: Að fatlað og langveikt fólk býr við mikla fátækt.

Það hlýtur að vera, því, annars hefðir þú sennilega þegar séð til þess að fólkið með lægstu tekjurnar geti raunverulega lifað af þeim – rétt eins og þú hefur sýnt í orði og verki að þeir sem mest hafa fyrir skuli ávallt fá meira.

Jákvæðar aðgerðir stjórnvalda í garð örorkulífeyrisþega eru nauðsynlegar strax, áratuga þolinmæði okkar er á enda – Koma svo!

 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands

– birt í Morgunblaðinu 27. ágúst 2018