Skip to main content
Frétt

Árangursríkur starfsdagur stjórnar ÖBÍ

By 20. mars 2017No Comments

Starfsdagur stjórnar Öryrkjabandalags Íslands var haldinn laugardaginn 4. mars síðastliðinn í fundarsal Bláa lónsins.

Vinna hófst klukkan 10 og var fundað fram yfir kvöldmat. Dagskrá starfsdagsins var þétt og mikil vinnugleði ríkti í hópnum sem taldi 25 manns. Þar voru fulltrúar stjórnar ásamt verkefnisstjórum málefnahópa ÖBÍ. Afurðum starfsdagsins verður skilað til málefnahópanna til frekari úrvinnslu. Hóparnir eru fimm talsins og fjalla um aðgengi, atvinnu- og menntamál, kjaramál, heilbrigðismál og sjálfstætt líf.

Starfsdagur var haldinn nú í fyrsta sinn, en samkvæmt starfs- og fjárhagsáætlun ársins 2017 var ákveðið að það yrði gert að þessu sinn í stað þess að halda Stefnuþing.

Stefnuþing var haldið í fyrra og einnig árið 2015. Á stefnuþing koma um hundrað fulltrúar allra aðildarfélaga ÖBÍ, sem eru 41 talsins. Á starfsdeginum var unnið með afurðir stefnuþings og málefnin dýpkuð.

Ákveðið var að halda starfsdaginn utan höfuðborgarsvæðisins. Leitað var eftir tilboðum frá þjónustuaðilum utan borgarmarkanna. Leitað var til þeirra aðila sem geta tekið á móti hópum sem þessum í aðgengilegu húsnæði, enda nauðsynlegt að tryggja öllum fulltrúum aðgengi til jafns við aðra óháð fötlun.

Mikil áhersla er lög á það innan bandalagsins að kjörnir fulltrúar þessi geti komið saman til að ræða stefnu- og áherslumál með reglubundnum hætti. Slíkir fundir og vinnudagar eru utan afmarkaðra stjórnarfunda, til að stefna Öryrkjabandalags Íslands nái betur fram að ganga.