Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurFrétt

Áskorun til ráðherra

By 23. október 2023janúar 29th, 2024No Comments
Stjórnarráðshúsið.

ÖBÍ réttindasamtök hafa sent áskorun til forsætis-, dómsmála- og félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna yfirvofandi brottvísunar Husseins Hussein, fatlaðs manns frá Írak, og fjölskyldu hans.

Ályktunina má lesa hér:

Ágæti ráðherra,

ÖBÍ réttindasamtök skora á þig að beita þér gegn brottvísun Husseins Hussein, fatlaðs manns frá Írak, sem kærunefnd útlendingamála ákvað í vikunni að skyldi vísa úr landi ásamt fjölskyldu sinni. ÖBÍ tekur að fullu undir áskorun Þroskahjálpar sama efnis, fordæmir þessa framkvæmd og telur mikilvægt að hún sé dregin til baka án tafar.

ÖBÍ tekur einnig undir þær áhyggjur sem lögfræðingur fjölskyldunnar hefur lýst í kjölfar ákvörðunar kærunefndar. Óboðlegt er að ekki sé litið til álits og greinargerðar réttindagæslumanns fatlaðs fólks sem taldi stjórnvöldum skylt að greina stuðningsmat Husseins. Þá er einnig áhyggjuefni að rannsóknir vanti og að þversagnir séu í röksemdum, líkt og lögfræðingurinn hefur bent á.

Sem formaður ÖBÍ réttindasamtaka skora ég á þig að beita þér fyrir því að niðurstaðan í máli Husseins og öllum sambærilegum málum samræmist þeim mannúðarsjónarmiðum sem eiga að ráða afgreiðslu mála jaðarsettustu hópa samfélagsins. Ítarlegar skýrslur liggja fyrir um bágborna stöðu flóttafólks á Grikklandi, en þangað á að vísa Hussein og fjölskyldu. Fatlað fólk á Grikklandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu og stendur gjarnan utan heilbrigðiskerfisins.