Skip to main content
FréttKjaramál

Áskorun til ríkisstjórnar vegna vaxtahækkana og verðbólgu

ÖBÍ réttindasamtök krefjast þess að ríkisstjórnin grípi til allra þeirra aðgerða sem best tryggi lífeyristökum og tekjulægstu hópum samfélagsins skjól frá hamfaraástandi verðbólgu og vaxtahækkana sem nú ríkir og fyrirséð er að verði áfram. 

Þá er löngu tímabært að hækka örorkulífeyri og afnema skerðingar á framfærsluuppbót vegna atvinnutekna.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup vann fyrir ÖBÍ réttindasamtök á árinu eru alls 81,7% svarenda þeirrar skoðunar að kjör öryrkja séu mjög eða frekar slæm.  Sömuleiðis telja svarendur brýnt að bæta kjör örorkulífeyristaka.

Stækkandi hópur fatlaðs fólks á sífellt erfiðara með að ná endum saman og ræður illa, eða alls ekki, við vaxandi greiðslubyrði af húsnæðislánum né hækkandi húsnæðiskostnaðsér í lagi leigukostnað. Verðbólguspáin er svört og Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti í 8,75 prósent.

Fatlað fólk hefur dregist verulega aftur úr öðrum hópum samfélagsins og lífeyrir þess hvorki fylgt launaþróun í landinu né verið í takti við verðbólgu. Brýn þörf er á aðgerðum og nauðsynlegt að tryggja að vextir og verðbólga kosti einstaklinga ekki heimili sín.