ÖBÍ réttindasamtök skora á sýslumannsembættið á Suðurnesjum og sveitarfélagið Reykjanesbæ að taka til endurskoðunar og leiðrétta ákvörðun sem leiddi til þess að húsnæði ungs, fatlaðs manns var selt tugmilljónum undir markaðsverði á nauðungaruppboði.
RÚV greindi frá málinu í gær. Maðurinn, sem hafði keypt eignina fyrir bætur sem hann fékk vegna alvarlegra læknamistaka, lenti í vanskilum þar sem hann hafði ekki greitt gjöld af eigninni, sem hann átti að fullu. Ábyrgð sveitarfélagsins og sýslumanns er rík, embættin bregðast upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu sinni og þar með þessum unga manni.
Það er forkastanlegt að hvorki félagsþjónusta sveitarfélagsins né sýslumannsembættið hafi gripið inn í áður en húsið var selt á nauðungaruppboði á einungis þrjár milljónir, eða um 5% af markaðsvirði hússins.
Í lögum um nauðungarsölu segir að telji sýslumaður tilboð sem koma til álita „svo lág að fari fjarri líklegu markaðsverði eignarinnar“ geti hann ákveðið að uppboðið verði haldið á ný. Það var ekki gert þrátt fyrir óeðlilega lágt söluverð.
ÖBÍ réttindasamtök skora því á bæði sýslumannsembættið og sveitarfélagið að taka málið til endurskoðunar og tryggja velferð mannsins og húsnæðisöryggi í hans eigin eign. Sömuleiðis er nauðsynlegt að farið sé yfir alla verkferla í málinu til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. ÖBÍ réttindasamtök hvetja jafnframt kaupandann til að hverfa frá kaupunum, nú þegar ljóst er hvernig í málinu liggur.