Skip to main content
Frétt

Aukin framlög til málaflokks fatlaðs fólks

By 8. janúar 2024janúar 10th, 2024No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna ákvörðun innviðaráðherra um að hækka áætluð framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málaflokks fatlaðs fólks um 5,8 milljarða króna fyrir árið 2024. Ráðherra samþykkti tillögu ráðgjafanefndar sjóðsins þess efnis. Áætluð framlög sjóðsins vegna málaflokksins nema nú tæpum 36,9 milljörðum króna.

„Hækkunina má rekja til samkomulags sem ríki og sveitarfélög skrifuðu undir 15. desember 2023 um breytingar á fjárhagsramma þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkaði um 0,23% um áramótin með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024,“ segir í frétt á vef stjórnarráðsins.

„Það er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að veita auknu fé í málaflokkinn svo hægt sé að tryggja lögbundna þjónustu við fatlað fólk og fjölskyldur þess,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.

Bætt aðgengi með jöfnunarsjóði

ÖBÍ og innviðaráðuneytið undirrituðu í júní samkomulag um aukinn stuðning við átaksverkefni stjórnvalda og ÖBÍ um úrbætur um land allt í aðgengismálum fyrir fatlað fólk, fjármagnað með jöfnunarsjóðnum. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga veitir allt að 415 milljónir kr. til úrbótaverkefna í aðgengismálum út árið 2024.

Átaksverkefninu var ýtt úr vör vorið 2021 og hefur nú verið framlengt til ársloka 2024. Verkefnið felst í því að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, m.a. í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum. Áfram verður unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins að tryggja að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra.