Skip to main content
Frétt

Bandarískum fyrirtækjum sem skara framúr í ráðningu fatlaðs fólks, vegnar betur.

By 11. nóvember 2019No Comments

 

 

Fyrirtæki sem hafa skýra stefnu um að ráða og styðja fatlað fólk í vinnu, skila betri afkomu en keppinautar þeirra, samkvæmt rannsókn sem Accenture, í samvinnu við AAPD, American Assoiciation of People with Disabilites, framkvæmdi og birti í október 2018.

 Rannsóknin, „Getting to Equal: The Disability Inclusion Advantage“, skoðaði stefnu þessara fyrirtækja varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks sem og afkomu þeirra 140 fyrirtækja sem taka þátt í Disability Equality Index, mælistiku sem veitir bandarískum fyrirtækjum einkunn fyrir stefnu þeirra og vinnu varðandi inngildingu fatlaðs fólks (e. inclusion policies), á árunum 2012-2018.

45 fyrirtæki, sem Accenture hafði skilgreint sem framúrskarandi fyrirtæki á sviðum inngildingar og atvinnuþátttöku fatlaðra, sýndu að, að meðaltali þessi fjögur ár voru tekjur þeirra 28% hærri en annara fyrirtækja af þessum 140. Framlegð þessara sömu fyrirtækja var jafnframt umtalsvert betri en annara, eða um 30%.

Í Bandaríkjunum, líkt og á Íslandi, er atvinnuþátttaka fatlaðs fólks enn lítil, þrátt fyrir þetta verkefni, sem er mjög til fyrirmyndar. Í júlí 2018 var til að mynda talið að 29% fatlaðs fólks á vinnualdri, 16-64 ára, væru á vinnumarkaði. Hér eru tölurnar svipaðar. Í nýlegri skýrslu Kolbeins Stefánssonar um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega, kemur fram að 28,5% örorkulífeyrisþega voru starfandi árið 2017, þar af voru tæp 40% þeirra í fullu starfi. Hér ber að hafa í huga að skilgreining fólks á vinnualdri er önnur hér, eða 18-66 ára.

Fyrri rannsóknir ytra hafa sýnt að fyrirtæki hagnast á að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu,hafa sýnt að aukna nýsköpun, betri framleiðni og betra starfsumhverfi. Þessi rannsókn bætir þar um og sýnir að auk þessa er betri afkoma þeirra fyrirtækja sem markvisst ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa.

Þessi tímamótarannsókn gefur vísbendingar um að inngilding (inclusive)borgar sig. Þegar fyrirtæki skapa þá menningu að fatlað fólk sé hluti af menningu fyrirtækjanna, græða allir, segir yfirmaður hjá Accenture.

Ted Kennedy jr. lögmaður á sviði réttinda fatlaðs fólks og Öldungardeildarþingmaður fyrir Connecticut sem er stjórnarformaður AAPD segir að stór fyrirtæki séu að flýta inngildingu fatlaðs fólks og líti á hana sem næsta stóra mál þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

Könnunin leiðir í ljós fjórar megin leiðir sem fyrirtæki geti farið til að laða að, ráða, halda og styðja til frama í starfi, fjölbreyttan starfsmannahóp.

  1. Ráða. Fyrirtæki þurfa að tryggja að fólk með skerta starfsgetu séu hluti starfsmannahópsins. Eftir ráðningu ættu fyrirtæki að innleiða leiðir sem hvetja fólk með skerta starfsgetu til að ná frama í starfi.
  2. Gera kleift. Leiðtogar innan fyrirtækjanna verða að færa starfsmönnum með skerta starfsgetu aðgengileg hjálpartæki og tækni sem og aðlögun.
  3. Virkja. Til að næra inngilda menningu, þurfa fyrirtæki að stuðla að upplýstum starfsmannahóp með mannauðsstefnu, fræðslu um fötlun o.fl.
  4. Valdefla. Fyrirtæki þurfa að stuðla að valdeflandi umhverfi fyrir starfsmenn með skerta starfsgetu í gegnum þjálfun/endurþjálfun til að tryggja að viðkomandi haldi áfram að blómstra í starfi.

Í allri umræðu um upptöku starfsgetumats hefur umræða um þátttöku vinnumarkaðins verið  lágvær. Það hefur verið afstaða Öryrkjabandalagsins að tilgangslítið sé að setja fólk í gegnum starfsgetumat ef engin eru störfin sem bíða þeirra að því loknu. Bandaríkin hafa löngum skorið sig úr miðað við lönd norður Evrópu, hvað þá Norðurlöndin, þegar kemur að velferðarmálum. Þeir virðast þó nálgast atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á annan hátt þar sem þeir sjá tækifæri í að ráða fatlað fólk í vinnu. Rannsóknina má kynna sér í þaula hér.