Skip to main content
Frétt

Fátækt mest meðal barna öryrkja og einstæðra foreldra

By 28. febrúar 2019No Comments

Brýnustu verkefni stjórnvalda eru að bæta lífskjör barna einstæðra foreldra, sem oftast eru mæður, og barna örorkulífeyrisþega. Staðan á húsnæðismarkaði hefur veruleg áhrif á lífskjör barna, sérstaklega barna öryrkja og einstæðra foreldra. Þetta eru meðal meginniðurstaðna nýrrar skýrslu Velferðarvaktarinnar um lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016. 

Síðast í vikunni var bent á það á Alþingi að hér á landi er fjöldi fátækra barna kominn á annan tug þúsunda. Þetta verður að laga.

Ágæt heildarmynd en samt alvarleg staða

Fram kemur í ágripi skýrslunnar á vefsvæði Velferðarvaktarinnar að heilt yfir sé staðan ágæt í íslensku samfélagi samanborið við flest önnur Evrópulönd. „Það bendir til þess að vandinn sé ekki óyfirstíganlegur ef grípa á til aðgerða til að draga úr fátækt á meðal barna,“ segir í skýrslunni. Samt sem áður séu alvarleg óleyst vandamál sem þarf að taka á. Þá kemur fram að ekkert bendi til þess að stjórnvöld hafi lagt sérstaka áhersla á að vernda börn á Íslandi fyrir áhrifum kreppunnar né heldur að það hafi verið reynt að bæta lífskjör barna í gegnum tæki fjölskyldustefnunnar þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast. 

Batnandi lífskjör barna eftir að kreppunni lauk skýrast einnig að stærstu leyti af vaxandi atvinnutekjum heimila þeirra eftir að uppsveiflan hófst á ný. Aftur á móti vann þróun félagslegra greiðslna á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur á móti batanum, segir í skýrslunni.

Í þessu sambandi má benda á að kaupmáttur örorkulífeyristekna hefur staðið í stað eða jafnvel rýrnað undanfarinn áratug. Það segir sig sjálft að þetta hefur ekki haft góð áhrif á börn öryrkja.

Brýnast að bæta hag barna öryrkja og einstæðra 

Þó heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þarf að huga að börnum öryrkja. Staðan á húsnæðismarkaði hefur veruleg áhrif á lífskjör barna, sérleg barna einstæðra foreldra og öryrkja. 

Lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins og þrátt fyrir að lífskjör barna hafi batnað mikið eftir 2011 þá áttu börn lengra í land árið 2016 með að ná aftur lífskjörum ársins 2008 en aðrir hópar. Versnandi lífskjör barna á Íslandi í kreppunni skýrast að mestu af því að atvinnutekjur heimila þeirra lækkuðu.

Félagslegar greiðslur á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur gerðu lítið til að draga úr áfallinu og raunar jók þróun barnabóta á vandann, ef eitthvað er, segir í skýrslunni.

Stöndum öðrum Norðurlöndum að baki

Árið 2016 stóð Ísland hinum Norðurlöndunum að baki hvað varðar útgjöld til barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og til daggæslu og raunar var Ísland ekki í fremstu röð hvað varðar útgjöld til barnabóta og fæðingar- og foreldraorlofs í víðara samhengi Evrópulanda og réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs allnokkuð frá því sem best gerist, segir í skýrslunni.

Þessu þarf að breyta.

Börn í viðkvæmri stöðu

Börn einstæðra foreldra, öryrkja og atvinnulausra voru mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar – skort á efnislegum gæðum, erfiðleika við að endar nái saman og lágar tekjur – en önnur börn. Hlutfall barna sem bjó við fjárhagsþrengingar jókst líka mun meira hjá börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en þeim sem gerðu það ekki.

Þar stóðu börn á heimilum sem urðu fyrir atvinnuleysi útúr, sem bendir til þess að viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hafi ekki náð að hlífa börnum við afleiðingum kreppunnar sem skyldi. Börn komu verr út en almenningur, börn í viðkvæmri stöðu verr en þau sem voru það ekki.

Bent er á það í skýrslunni að til að fá skýrari mynd af lífskjörum og fátækt barna í framtíðinni sé brýnast að nýta betur fyrirliggjandi gögn til að varpa ljósi á viðfangsefnið, fá upplýsingar um mat barna á ýmsum lífsgæðum, afla upplýsinga um fatlaða og langveika og fjölskyldur þeirra sem og um innflytjendur og fjölskyldur þeirra, og að lokum um hvernig gæðum er skipt innan heimila.

Batnandi lífskjör barna eftir að kreppunni lauk skýrast einnig að stærstu leyti af vaxandi atvinnutekjum heimila þeirra eftir að uppsveiflan hófst á ný. Aftur á móti vann þróun félagslegra greiðslna á borð við barnabætur, fæðingarorlofsgreiðslur og húsaleigubætur á móti batanum.