Skip to main content
FréttKjaramál

Blank blank…

By 23. nóvember 2023No Comments

ÖBÍ réttindasamtök réðust í vitundarvakningarherferð í upphafi síðustu viku undir merkjum fyrirtækisins Blanka. Þetta er auðvitað ekki raunverulegt fyrirtæki, enda myndu kannski fæstir vilja vera í viðskiptum við banka sem kallar sig þessu nafni.

Blanki er kannski ekki til en vaxandi hópur fatlaðs fólks á Íslandi þarf að takast á við blankheit. Þetta sýna fjölmargar kannanir og rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og er fullkomlega augljóst ef maður bara hlustar á raddir örorkulífeyristaka.

Til þess að vekja athygli á þessum veruleika hefur ÖBÍ staðið fyrir umræddri herferð. Auglýsingar hafa verið birtar í fjöl- og samfélagsmiðlum, útvarpi og sjónvarpi og fjallað var um herferðina á RÚV, Vísi og í DV svo fátt eitt sé nefnt.

Þá vörpuðu útsendarar Blanka vörpuðu merki félagsins á höfuðstöðvar íslenskra banka í þeim tilgangi að breiða út boðskap Blanka um alla borg og land allt.

@eggertunnar LÖGUM ÞETTA NÚNA – Samstarf með @blanki.is ♬ original sound – EggertUnnar

Öllu gríni fylgir alvara

En þótt Blanki sé ekki til í alvöru eru tölurnar sem birtust í kynningarefninu raunverulegar.

  • Það er staðreynd að stór hópur lífeyristaka neyðist til að borga 51-75% útborgaðra launa sinna í rekstur á húsnæði.
  • Það er staðreynd að 16% örorkulífeyristaka hefur lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu síðustu 10 ár samkvæmt könnun sem gerð var síðasta haust. Vegna vaxtahækkana má áætla að þessi tala sé töluvert hærri í dag.
  • Það er staðreynd að Ísland á heimsmet í tekjuskerðingum lífeyristaka.
  • Það er staðreynd að um 60% lífeyristaka geta ekki mætt óvæntum útgjöldum.
  • Það er staðreynd að nærri helmingur lífeyristaka þarf að neita sér um læknisþjónustu af fjárhagsástæðum og fjölmargir til viðbótar fresta því að leysa út lyf.
  • Og það er einfaldlega staðreynd að örorkulífeyrir á Íslandi er of lágur.

Þegar lífeyririnn er svo lágur að fólk á ekkert eftir þegar það er búið að greiða leigu eða borga af húsnæðisláni, þegar matarkarfan hefur hækkað í verði um 12,4%, þegar fólk þarf að neita sér um læknisaðstoð og þegar bilið á milli launa og lífeyris gerir ekkert nema breikka er lífsnauðsynlegt hækka lífeyri og það rækilega.

ÖBÍ réttindasamtök samanstanda af fjörutíu aðildarfélögum ólíkra fötlunarhópa. Samtals eru félagar um 40.200. Raunverulegar úrbætur í málefnum fatlaðs fólks skipta samfélagið allt því verulegu máli.

ÖBÍ réttindasamtök krefjast þess að stjórnvöld hækki örorkulífeyri um 12,4% án tafar.