Skip to main content
Frétt

Boðuð 8,9% hækkun almannatrygginga ekki nóg

By 14. júlí 2015No Comments
Grein sem birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2015

„Það er algjörlega óásættanlegt að bjóða fólki upp á þessi kjör, sem ekki gera annað en halda fólki í skorti og fátækt.“

Facebook-færsla fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, frá 6. júlí sl. hefur vakið athygli og sterk viðbrögð. Þar boðaði ráðherrann að gera mætti ráð fyrir 8,9% hækkun bóta almannatrygginga frá næstu áramótum á grundvelli launaþróunar.

Í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ frá 27. maí 2015 var gerð sú krafa að lífeyrir almannatrygginga hækkaði að lágmarki í samræmi við Sigríður Hanna Ingólfsdóttirkrónutöluhækkun lægstu launa í yfirstandandi kjarasamningagerð. Lægstu laun voru hækkuð um 31.000 kr. 1. maí 2015 og eiga að hækka um 15.000 kr. á næsta ári, eða samtals um 46.000 kr. Hækkun lífeyris almannatrygginga um 8,9% næstu áramót myndi þýða hækkun upp á 17 til 20.000 kr. fyrir lífeyrisþega með óskertar greiðslur, eftir því hvort fólk fær greidda heimilisuppbót eða ekki. Lágmarkslaun munu því hækka rúmlega helmingi meira en lífeyrir almannatrygginga auk þess sem hækkun lágmarkslauna kemur átta mánuðum fyrr til framkvæmda. Boðuð hækkun er því talsvert undir væntingum og óásættanlegt að hún fylgi ekki hækkun lágmarkslauna.

Skortur á efnislegum gæðum hjá 23% öryrkja

Önnur frétt sem vakti athygli í síðustu viku var um nýlega rannsókn Hagstofu Íslands, þar sem fram kemur að 23% öryrkja búa við skort eða verulegan skort á efnislegum gæðum. Öryrkjar eru langstærsti hópurinn ef þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Öryrkjum sem búa við verulegan skort fjölgaði úr 5% í 11% milli 2013 og 2014. Niðurstaðan kemur ekki á óvart því lífeyrir almannatrygginga hefur einungis hækkað á bilinu 3 til 3,9% á árunum 2013 til 2015. Í krónutölum þýðir þetta um 5.000 kr. hækkun ráðstöfunartekna hverju sinni fyrir þá sem hafa ekkert eða lítið annað en lífeyrinn sér til framfærslu. Útreikningar sem Talnakönnun hf. gerði fyrir ÖBÍ sýna að lífeyririnn hefur hvorki haldið í við hækkun lægstu launa, verðlags- né launavísitölu og er munurinn umtalsverður. Því hefur orðið veruleg kjaragliðnun lífeyris almannatrygginga á síðustu árum, sem ekki verður leiðrétt með 8,9% hækkun, þó að vissulega sé það lítið skref í rétta átt. 8,9% hækkun myndi þýða að ráðstöfunartekjur hækkuðu um rúmar 10 til 12 þúsund krónur á mánuði fyrir þann sem er með óskertan lífeyri.

Ráðstöfunartekjur og mannsæmandi framfærsla

En hvað þarf til að geta staðið undir mannsæmandi framfærslu? Í viðleitni til að svara þessari spurningu er leitað fanga í nýlegri álitsgerð sem dr. Ólafur Ísleifsson vann fyrir ÖBÍ. Í henni svarar Ólafur m.a. þeirri spurningu hver séu eðlileg og hefðbundin mánaðarleg útgjöld til framfærslu fyrir örorkulífeyrisþega, sem býr einn í eigin húsnæði og er barnlaus.

Meginniðurstaða álitsgerðarinnar var í stuttu máli sú að örorkulífeyrisþegar með tekjur við framfærsluviðmið, þ.e. engar eða litlar aðrar tekjur en frá TR, vantaði rúmar 160.000 kr. til að ná dæmigerðu neysluviðmiði velferðarráðuneytisins. Til að ná grunnviðmiði vantaði tæp 100.000 kr. upp á, sem er vísbending um hvað þarf að lágmarki til að viðhalda grunnlífskjörum. Því er ljóst að hækkun ráðstöfunartekna um rúmlega 10 til 12 þúsund krónur í byrjun árs 2016 breytir litlu um stöðu þessa hóps, mun meiri hækkun þarf að koma til. Ítarlegri umfjöllun um álitsgerðina birtist í grein í 3. tbl. vefrits ÖBÍ 2015 (www.obi.is/utgafa/vefrit-obi) fyrir þá sem vilja kynna sér hana betur.

Vandi örorkulífeyrisþega er oft á tíðum sá að fólk hefur þurft að framfleyta sér árum saman á mjög lágum tekjum, sem gerir stöðuna enn erfiðari. Fólk á engan pening og fær ekki lán til að mæta óvæntum nauðsynlegum útgjöldum og leyfa sér t.d. þann „lúxus“ að kaupa hollan og góðan mat eða fara til tannlæknis.

Betur má ef duga skal

Það er algjörlega óásættanlegt að bjóða fólki upp á þessi kjör, sem ekki gera annað en halda fólki í skorti og fátækt. Álitsgerð dr. Ólafs Ísleifssonar sýnir enn frekar hvað þörf fyrir verulega hækkun er brýn til að gera lífeyrisþegum mögulegt að geta lifað mannsæmandi lífi. Óhjákvæmilegt er að hækka lífeyrinn þannig að hann dugi til framfærslu í íslensku samfélagi því fólk lifir ekki á þessum tekjum.

Að lokum viljum við benda á að Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í mars 2007 en þar segir að aðildarríkin skuli „viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, meðal annars viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar“.

Við hvetjum alla til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um að fullgilda samninginn, en hana er að finna á heimasíðu ÖBÍ. Undirskriftalistinn verður afhentur stjórnvöldum í haust.

Halldór er varaformaður ÖBÍ, Sigríður Hanna er félagsráðgjafi ÖBÍ.

l