Skip to main content
FréttHúsnæðismál

Brynja leigufélag hlýtur sjálfbærnimerki Landsbankans

By 22. mars 2022ágúst 31st, 2022No Comments
Brynja leigufélag hefur hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans fyrir útleigu á húsnæði á viðráðanlegu verði. Sjálfbærnimerkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjámálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn eða félagsleg verkefni.

„Við erum ákaflega stolt að taka við sjálfbærniviðurkenningu Landsbankans fyrir hönd Brynju og allra þeirra aðila sem standa að rekstri sjóðsins. Markmið sjóðsins frá upphafi hefur verið að leigja öryrkjum íbúðir á eins hóflegu gjaldi og kostur er. Viðurkenning þessi er okkur hvatning til að gera enn betur í framtíðinni og er fjármögnun Landsbankans okkur mikilvæg til að koma fleiri nýjum íbúðum á markað,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju leigufélags.

Landsbankinn veitir sjálfbærnimerki, bæði fyrir einstök verkefni sem bankinn fjármagnar, sem þarf þá að uppfylla þau skilyrði og falla undir einn af þeim 11 verkefnaflokkum sem tilgreindir eru í sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans, sem og rekstur félags í heild. Til þess að heildarfjármögnun félags hljóti sjálfbærnimerkið þarf rekstur fyrirtækisins í heild að stuðla að sjálfbærni og tekjur frá hæfum verkefnum að vera yfir 90% af heildartekjum þess.

Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans er vottuð af alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics sem er leiðandi á þessu sviði. Hún skilgreinir með skýrum hætti hvaða verkefni stuðla að sjálfbærni og tryggir gagnsæi.