Skip to main content
FréttKjaramál

Brýnt að niðurskurður leiði ekki til skerðinga

Loftmynd af Reykjavíkurborg.

ÖBÍ réttindasamtök telja brýnt að þjónusta sveitarfélaga við fatlað fólk sé tryggð og skerðist ekki vegna niðurskurðaraðgerða.

 

Þá tekur bandalagið undir þær áhyggjur sem birtust í viðtali RÚV við Álfheiði Eymarsdóttur, bæjarfulltrúa Á-listans í Árborg, um að uppsagnir í því sveitarfélagi muni bitna á viðkvæmum hópum á borð við fatlað fólkbörn, unglinga og eldra fólk.

 

Vegna of lágs lífeyris, of mikilla skerðinga, mikillar verðbólgu og fjölmargra annarra þátta má margt fatlað fólk ekki við þeirri þjónustuskerðingu sem hætt er við að verði með niðurskurði í rekstri sveitarfélaga landsins.

 

Ljóst er að fjöldi sveitarfélaga um allt land er nú í afar erfiðri stöðu. Reksturinn er víðast hvar erfiður og má búast við niðurskurði í mörgum byggðum. 

 

ÖBÍ tekur undir ítrekuð áköll sveitarstjórnarfólks um að ríkið fjármagni þá þjónustu við fatlað fólk sem því ber að gera. Verja þarf fatlað fólk fyrir hverskonar niðurskurði hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga.

 

Þá er vert að taka undir orð Guðmundar Ármanns Péturssonar, sem birtust í innsendri grein í Morgunblaðinu í gær, um að það sé óviðunandi að sveitarstjórnarfólk kenni vanfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk um skuldavandann.

Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt og að fatlað fólk njóti réttar síns til þátttöku í samfélaginu. Málflutningur um að skuldavandinn sé fötluðu fólki að kenna ýtir undir jaðarsetningu fatlaðs fólks. fjárhagslega, þjónustulega og samfélagslega.